Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Fréttir af aðalfundi

Aðalfundur Siðmenntar var haldinn í gær 19. mars og var með hefðbundnu sniði.  Í ræðu formanns kom fram að margt jákvætt hefur átt sér stað í starfi Siðmenntar síðastliðið ár og ber einna hæst að félagið hóf athafnaþjónustu með sex athafnarstjórum sem stýra giftingum, nafngjöfum og útförum á veraldlegan máta.  Einnig varð félaginu talsvert ágengt í réttindabaráttu sinni og fékk mannréttindaverðlaun Samtakanna ’78.

Ný stjórn var kjörin og skipa hana Hope Knútsson, Bjarni Jónsson, Svanur Sigurbjörnsson, Jóhann Björnsson og Steinar Harðarson.  Varamenn voru kosnir Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, Sigurður Hólm Gunnarsson, Þorsteinn Kolbeinsson, Halldór Benediktsson og Karólína Geirsdóttir.   Árgjald fyrir 2009 var ákveðið kr 4000,- og er því óbreytt frá fyrra ári vegna efnahagsástandsins.  Félagsmenn í fjárhagserfiðleikum geta fengið helmingsafslátt af árgjaldinu og afslættir fyrir nema, lífeyrisþega og maka verða áfram í gildi.

Félaginu var gefin óvænt gjöf af félagsmanni.  Danival Toffolo og móðir hans gáfu Siðmennt kr. 60.000,- til styrktar starfsemi félagsins og vildu með því heiðra minningu Björgvins Brynjólfssonar, móðurbróður Danivals, en hann var heiðursfélagi Siðmenntar og einn af stofnfélögum félagsins.  Björgvin var mikil félagsmálafrömuður og verkalýðsleiðtogi á Skagaströnd og stofnaði m.a. Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju (SARK).   Siðmennt kann Danival og móður hans bestu þakkir fyrir þessa góðu gjöf til félagsins.

Siðmennt er í stöðugri sókn og fjöldi félaga jókst um 50% á síðasta ári.  Athafnaþjónustunni hefur verið mjög vel tekið og borgaraleg ferming stendur traustum fótum.

Til baka í yfirlit