Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Höllu Gunnarsdóttur á BF 2007

Kæru fermingarbörn, foreldrar, ættingjar og vinir,

Til hamingju með ferminguna.

Ég var tilbúin með alveg svakalega merkilega ræðu til að flytja hérna í dag. Hún var uppfull af gáfulegum ráðleggingum til ykkar, fermingarbarnanna, um hvernig þið ættuð alltaf að standa með sjálfum ykkur og umfram allt, vera þið sjálf.
Já, leikið aldrei neinn annan, verið þið sjálf.

En ég fór að hugsa til baka. Ég heimsótti unglinginn mig.

Vertu þú sjálf.
Auðvitað, hugsaði ég, 13 ára gamalt fermingarbarnið. En hver er eiginlega þessi ég sjálf?


Ég var nýhætt í kór og áttaði mig á að mér hafði eiginlega alltaf þótt leiðinlegt í kórnum. Ég var ekki viss hvort ég vildi halda áfram í lúðrasveitinni og hafði meira að segja tekið pásu frá fótboltanum. Ég var smám saman að verða feimnari við að fara út í leiki með krökkunum í hverfinu, nema það væri a.m.k. einn sem væri eldri en ég í hópnum.

Árið sem ég fermdist fékk ég þrjú hár undir hendurnar og rakaði þau samstundis í burtu. Ég vissi ekki af hverju, ég bara gerði það. Ég blótaði bólunum á enninu og fannst ég vera of feit, bara af því að ég passaði ekki í Levi´s buxurnar sem ég hafði átt í 12 ára bekk. Ég var að verða kynþroska. Því fylgdu mjaðmir, rass og læri, sem ég lét fara endalaust í taugarnar á mér. Var útlitið mitt ekki ég sjálf?

Ég áttaði mig á því að í gaggó væri smart að hlusta á tónlist. Svo ég keypti mér geisladiska. En ég átti erfitt með að muna hvað hljómsveitirnar hétu, hvað þá lögin, svo að sama hvað ég reyndi þá var ég nánast ófær um að tala um tónlist við félaga mína. 12 ára vildi ég fá að fara á tónleika með Rage against the Machine. Mamma þverneitaði eftir að hún áttaði sig á að ég vissi ekki hvað hljómsveitin hét.

Ég vissi ekki hvað mér þótti smart, ég vissi ekki hvað mér þótti skemmtilegt, ég vissi ekki hvernig fólk ég vildi umgangast og ég var ekki viss hvort ég væri almennt skotin í stelpum eða strákum.

Unglingsárin fóru í að leita og prófa.

Eftir að ég áttaði mig á þessu nú um daginn henti ég gáfulegu ræðunni með ráðleggingunum til ykkar um að vera þið sjálf.

En ég spurði vini mína og félaga hvernig unglingsárin þeirra voru og hvað þau hefðu viljað vita við fermingu.

Svörin voru ólík. Allt frá því að vita hvernig væri best að láta strákinn sem þá stundina átti hugann allan taka eftir sér og upp í meiriháttar tilvistarspurningar.

„Að stéttskipting unglingsáranna væri ekki endanleg,“ sagði vinkona mín og vísaði til vinsældakeppninnar sem við flest tókum þátt í, og var, eftir á að hyggja, ekki einu sinni vísbending um framhaldið.

Þegar ég var unglingur hélt ég að þessi veruleiki væri endanlegur. Ég var kominn með bás. Ég var sannarlega ekki mesti töffarinn í skólanum, ég komst ekki inn í vinsælustu klíkuna, eignaðist ekki kærasta og var ekki boðið í aðalpartýin.

Til að reyna að klifra upp vinsældastigann reyndi ég stundum að klifra upp á aðra krakka í skólanum, t.d með því að segja brandara á kostnað annarra og standa ekki með þeim sem minnst máttu sín. Ég gerði þetta af því að ég hélt að ég yrði að gera það til að komast af, komast hærra.

Síðan þá hef ég verið í mörgum skólum, mörgum vinnustöðum, mörgum löndum. Hvergi hefur stéttaskiptingin verið eins harkaleg og hún var í Gaggó. Og hvernig er það í dag? Ég nenni ekki að umgangast fólk sem er ekki það sjálft eða er með stæla á kostnað annarra. Og ég þekki engan sem nennir því.

Hvað hefðirðu viljað vita þegar þú varst unglingur?

„Ég hefði viljað hafa muninn á kynlífi og kynferðislegu ofbeldi á hreinu,“ sagði vinur minn og ég kinkaði kolli. Ég mundi allt í einu eftir öllum spurningunum sem ég hafði á unglingsárunum um kynlíf, kynþroska og samskipti við þá sem maður laðast að.

Seinna áttaði ég mig á því að kynlíf er eitthvert viðkvæmasta og fallegasta tjáningarform sem er til. Viðkvæmt því það dynja á okkur endalaus skilaboð daglega sem reyna að eyðileggja það.

„Þú verður að prófa það, þú verður að prófa allt, þig langar það þótt þig langi ekki.“
Eins og það sé til formúla fyrir kynlífi og markmiðið sé bara eitt, alltaf, hjá öllum.

Fallegt tjáningarform af því að í kynlífi erum við náin þeim sem við elskum, við erum berskjölduð og treystum.

Nú þarf ég að biðjast afsökunar á að tala í beinu framhaldi um kynferðislegt ofbeldi enda er það alfarið ótengt kynlífi. Kynferðislegt ofbeldi er grófasta og ljótasta birtingarmynd ofbeldis, algjör andstæða við kynlíf. En samt er oft látið eins og það sé einhvern veginn tengt kynlífi, sé jafnvel hluti af því eða kynlíf sem gengur of langt.

Kynlíf og ofbeldi eru jafnótengd og gamnislagur og líkamsárás. Í gamnislag veit ég að ég má alltaf stoppa og ef ég meiði mig læt ég vita og leikurinn hættir. Ég stoppa líka ef mér finnst eins og félaga mínum líði illa. Ef ég stoppa ekki er ég beita hann ofbeldi. Við erum saman í þessu og berum ábyrgðina saman.

Í kynlífi mega báðir aðilar alltaf stoppa og þurfa aldrei að gera neitt sem þeir vilja ekki.

Það er ekkert grátt svæði.

Hvað hefðir þú viljað vita þegar þú varst unglingur?

„Ég hefði viljað vita allt sem snýr að geðorðunum tíu. td. geðorð nr. 9 finndu og ræktaðu hæfileika þína. Ég hefði viljað halda áfram að stunda mín áhugamál en ekki fara á gelgjubömmer og hætta,“ sagði vinkona mín.

Þegar ég var barn átti ég mjög erfitt með að gera eitthvað sem ég var ekki góð í. Ef mér tókst ekki vel í fyrstu tilraun varð ég pirruð, fór jafnvel í fýlu, og skammaðist yfir hvað þetta væri heimskulegt sport.

Ég gerði bara það sem ég var góð í, og fyrir vikið missti ég af því að læra eitthvað nýtt. Í dag finnst mér skemmtilegast að æfa mig í því sem ég er ekki góð í. Það hefur aldrei verið mikil músík í mér en fyrir örfáum árum tók ég upp á því að glamra á gítar. Útkoman er misgóð, en mér finnst hún stórskemmtileg.

Að finna og rækta hæfileika sína snýst ekki bara um að gera bara það sem maður veit að maður er góður í, heldur einmitt hitt að prófa eitthvað nýtt og koma sjálfum eða sjálfri sér á óvart.

***

Stundum þegar ég hugsa til baka til unglingsáranna þá finnst mér eins og þau hafi verið hræðilega erfið og velti því fyrir mér hvort ekkert hefði verið hægt að gera til að einfalda þau. En þá rifjast líka upp fyrir mér góðu dagarnir. Þegar systir mín fæddist, allar skákirnar okkar afa, Pæjumótsmeistaratitillinn, félagslíf unglingsáranna, fyrsti kossinn. Og það rifjast upp fyrir mér að gleði unglingsáranna var allt að því stjórnlaus, af því að ég trúði því að mér ætti alltaf eftir að líða vel. Að sama skapi gat vanlíðan orðið svo dramatísk því þá fannst mér eins og mér ætti aldrei aftur eftir að líða vel. Daginn eftir var ég síðan kannski í banastuði.

Í þessari miklu leit að sjálfri mér mátaði ég mig í alls konar hlutverk. Ég reyndi að vera „tónlistartýpan“. Ég las unglingabók um strák sem var alltaf skotinn í „dularfullum“ stelpum. Ég reyndi að vera dularfull. Ég prófaði einu sinni að þegja í heilan dag og ég prófaði að hanga með krökkum sem voru í alls konar vitleysu.

En það er svo fyndið, að þetta mistókst allt. Þegar ég reyndi að vera þögul og dularfull gleymdi ég mér oftast og var fyrr en varði farin að blaðra stjórnlaust og segja lélega brandara. Þegar ég hlustaði á tónlist tók ég aldrei eftir því að geisladiskurinn væri búinn. Í félagsskap vandræðaunglinganna fann ég að þau voru miklu örvæntingarfyllri í leit sinni en ég.

Og einhvern veginn læddist ég alltaf aftur út í leiki, jafnvel í byssó með litlu krökkunum í hverfinu.

Þarna kom ég sjálf í gegn. Unglingur sem reyndi að vera töff eftir skrítnum mælikvörðum en fannst í alvörunni bara skemmtilegast að spila krossgátuspilið eða leika sér í einakrónu og fótbolta.
Smám saman kom ástríða mín fyrir að skrifa í ljós, síðan lagleysið sem gerði kórinn svo leiðinlegan, taktleysið sem stóð mér fyrir þrifum í lúðrasveitinni, óþrjótandi áhugi á fótbolta, sem hefur allar götur síðan rifið mig út á völl.

Og hér er ég, ég sjálf.

Ég er nýorðin fullorðin. Það gerðist ekki þegar ég varð tvítug eða gerist þegar ég verð þrítug. Það gerðist þegar ég ákvað að taka ábyrgð á lífi mínu. Og hvernig gerir maður það?

Ég veit ekki hvað er algilt, en ég geri það með því að standa með sjálfri mér, elta mína eigin drauma, sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt og breyta því sem ég get breytt.

Ég get uppgötvað einn daginn að skilyrðin sem ég hafði til að rækta hæfileika mína voru ekki eins góð og þau hefðu átt að vera. Kannski var ég með lélegan saumakennara sem drap niður hjá mér áhuga á handavinnu og kannski lögðu foreldrar mínir og ættingjar áherslu á aðra hluti en ég og studdu mig ekki akkúrat í því sem ég þurfti stuðning í.

Ég get eytt ævinni í að vera bitur yfir því. Ég get grátið mig í svefn á hverju kvöldi yfir glötuðum tækifærum.

En ég hef val.

Ég hef val um að takast á við allt sem átti sér stað í fortíðinni og nýta það sem reynslu og styrk inn í framtíðina. Ég hef val um að líta á björtu hliðarnar og ég get alltaf óskað eftir hjálp, hvort sem það er við að læra á gítar eða hreinlega að fullorðnast.

Leiðirnar að markmiðunum geta verið ólíkar. Það er ekki til ein rétt leið í námi eða ein rétt leið í gegnum lífið. Ekki ein leið að draumunum, og alls ekki einn draumur.

Ég get látið drauma mína rætast. Ég get gert það sem ég vil, þið getið það líka.

Kæru fermingarbörn.
Að einhverju leyti vildi ég að ég gæti dregið utan um ykkur töfrahring þannig að þið þyrftuð aldrei að upplifa neitt slæmt. Ég vildi að ég gæti frætt ykkur um allt sem áðurnefndir vinir mínir vildu hafa vitað þegar þeir voru unglingar. Ausið úr viskubrunni þannig að þið þyrftuð ekki að gera mistökin sem ég gerði. En gallinn er sá að minn litli viskubrunnur er einmitt tilkominn vegna mistakanna sem ég gerði.

Ég hvet ykkur til að reka ykkur á veggi, gera ykkar mistök og læra af þeim. Umfram allt hvet ég ykkur til að muna að þið eruð ávallt við stjórnvölina í ykkar eigin lífi.

Ég óska ykkur alls hins besta í öllum skrefum sem þið stígið í átt að fullorðinsárunum.

Til hamingju með ferminguna.

Halla Gunnarsdóttir

Til baka í yfirlit