Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Endurskoðun á núverandi kirkjuskipan

Í síðustu viku var tillaga til þingsályktunar um endurskoðun á núverandi kirkjuskipan lögð fram á Alþingi af átta þingmönnum úr þrem flokkum undir forystu Árna Þórs Sigurðssonar.

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að skipa nefnd til að endurskoða núverandi kirkjuskipan landsins. Nefndin verði skipuð fulltrúum innanríkisráðuneytis og mennta-og menningarmálaráðuneytis auk fulltrúa þingflokka, þjóðkirkjunnar og annarra trúfélagaog lífsskoðunarfélaga. Verkefni nefndarinnar verði að meta kosti og galla mismunandi kirkjuskipanar, endurskoða núverandi samband ríkis og kirkju og meta hvort og hvaða breytingar rétt sé að gera á því. Nefndin skili ráðherra tillögum sínum fyrir árslok 2011.“

Með tillögunni fylgir greinargerð sem sýnir glögglega aukningu á hlutfalli þeirra Íslendinga sem kjósa að vera utan Þjóðkirkjunnar og fjallar um það óréttlæti sem er fólgið í ríkisfjármögnuðu þjóðkirkjufyrirkomulaginu. Einnig er rifjuð upp þingsályktunartillaga frá árinu 1995 um aðskilnað ríkis og kirkju og nokkrar valdar greinar um aðskilnað ríkis og kirkju látnar fylgja með, m.a.trúfrelsisstefna Siðmenntar.

Stjórn Siðmenntar fagnar því að þingmennirnir átta taki þetta mikilvæga réttlætismál upp og hvetur alla til að lesa tillöguna og ítarefnið. Þar kemur margt fróðlegt fram og í síðasta fylgiskjalinu setur sr. Hjörtur Magni, fríkirkjuprestur, mótbárur starfsbræðra sinna hjá Þjóðkirkjunni í samhengi sem margur ætti að vera hugsi yfir.

Þingsályktunartillöguna má nálgast og lesa á vef Alþingis.

Til baka í yfirlit