Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Góð án guðs, húmanismi og siðferði

Oft hefur borið á þeim misskilningi að trúabrögðin séu forsenda góðs siðferðis og að gott siðferði sé aðeins til vegna tilvist guðs. Svo er alls ekki. Siðferðilegar spurningar, hvað telja má gott og hvað slæmt, hvað rétt og hvað rangt og hvernig lifa skuli réttlátu og dyggðugu líferni leitar á alla menn burtséð frá lífsskoðunum. Sumir leita svara við siðferðisspurningum í trúarbrögðunum sbr. Boðorðunum 10 þar sem talið er að guð hafi lagt til að menn skuli ekki myrða, stela, ljúga osfrv.  Húmanistar og aðrir sem ekki aðhyllast trúarbrögð er ekki síður umhugað um gott siðferði og mikilvægi þess.  Einn er sá mælikvarða á rétt og rangt sem er til staðar í öllum mönnum þó misjafnlega þroskaður sé. Sá mælikvarði er samviskan. Samviskan kennir okkur að ánægja og hamingja er betri en óánægja og óhamingja, að réttlæti og góðvild er betri en óréttlæti og mannvonska og að samvinna skilar oft mun betri árangri en ósamvinna.

Vissulega eru manneskjur breyskar og gera undantekningar fyrir sjálfa sig. Oftar en ekki gerir þá samviskan vart við sig sem sú rödd sem greinir rétt frá röngu. Góð breytni að mati húmanista er ekki góð vegna þess að  að sé til guð sem segi okkur hvað er gott og hvað illt. Góð breytni og siðferðileg gildi eiga rætur sínar að rekja í samfélagi manna og eru órjúfanlegur hluti af þróunarsögu mannsins.

Ekki er auðvelt að gera sér grein fyrir því hvenær nákvæmlega menn fóru að gefa siðferðilegum gildum gaum. Ekki er ólíklegt að ákveðin siðferðisvitund hafi alla tíð fylgt mannshuganum og tekið þroskabreytingum í takt við samfélagsgerð hvers tíma. Menn hafa gert sér grein fyrir því að ef ég vil ekki þola sársauka og óréttlæti þá sé það ekki flókið að átta sig að aðrir kæri sig ekki um slíkt heldur.

Ýmsir hafa haft áhrif á siðferðishugmyndir húmanista. Forngríski heimspekingurinn Sókrates hefur haft mikil áhrif með áherslum sínum á gagnrýna hugsun og siðferðilega yfirvegun. Aristóteles hefur ekki síður haft áhrif en hann leitaðist við að svara því hvað væri gott fyrir manneskjuna. Taldi hann að lykillinn að hinu góða lífi fælist í hófsemi og dyggðugu líferni.  Sá sem er dyggðugur ratar ávallt meðalhófið á milli öfga. Einkenni dyggðugrar manneskju er því góð dómgreind, þekking á því sem henni er fyrir bestu og innsæi í aðstæður. Það er þeir þættir sem ber að leggja rækt við.

Bretinn John Stuart Mill er þekktasti talsmaður svokallaðrar nytjastefnu í siðfræði. Það sem gott er að mati nytjahyggjumanna og ber að stefna að er sem mest ánægja eða hamingja sem flestra. Óhamingja, óánægja og sársauki er hinsvegar af hinu illa. Í allri okkar breytni eigum við að leitast við að stuðla að sem mestri hamingju sem flestra eins og kostur er. Ef aðeins slæmir kostir eru í stöðunni eigum við að velja þann kost sem veldur eins lítilli óhamingju og mögulegt er.

Þýski heimspekingurinn Immanúel Kant lagði áherslu á að við ættum ávallt að breyta þannig að aðrir gætu tekið sér breytni okkar til fyrirmyndar: Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú vilt að verði að almennu lögmáli.

Hvað þýðir þetta? Jú þetta þýðir að við eigum ávallt að breyta á þann hátt sem við getum hugsað okkur að allir aðrir breyti. Martin Levander útskýrir velá eftirfarandi hátt:

Kant kom sjálfur með dæmi: Það er rangt að fá peninga að láni án þess að borga þá til baka. Ef allir höguðu sér þannig myndi fljótlega koma að því að hvergi væri hægt að fá lán. Með sama hætti er hægt að sýna fram á að það sé rangt að stela. Og ef menn færu almennt að ljúga þegar það hentaði þeim myndi fólk hætta að treysta hvert öðru.[1]

Grundvallaratriði í siðfræði Kants felst því í spurningunni: Hvað ef allir höguðu sér eins og ég?

Jean-Paul Sartre hafði mikil áhrif á tuttugustu öldinni. Að mati Sartres eru allir eisntaklingar frjálsir og ábyrgir breytni sinnar og eru öðrum fyrirmyndir í siðferðilegum efnum: „Og hverjum manni ber að segja við sjálfan sig: er ég áreiðanlega slíkur maður að ég hafi rétt til að haga mér þannig að mannkynið taki sér athafnir mínar til fyrirmyndar.“[2] Þó sérhver einstaklingur sé frjáls að því hvernig hann breytir er síður en svo allt leyfilegt. Ef ég get ekki hugsað mér að allir aðrir breyti eins og ég þá ætti ég að hugsa minn gang áður en ég framkvæmi.  Sérhver einstaklingur er þannig mikilmikilvægur áhrifavaldur þess siðferðis sem ríkir hverju sinni.

Mikilvægi þess að vega og meta aðstæður hverju sinni með gagnrýnu hugarfari er lykilatriði í hugmyndafræði húmanismanns. Menn standa ávallt frammi fyrir valkostum í lífinu sem snerta þá sjálfa sem og samborgara þeirra.  Húmanistar líta svo á að gott samfélag einkennist af ríkum sjálfsákvörðunarrétti auk samfélagslegrar ábyrgðar. Húmanistar leytast við að vega og meta aðstæður hverju sinni og þá lífskosti sem staðið er frammi fyrir. Í kjölfarið eru síðan þeir kostir valdir sem eru farsælastir hverju sinni fyrir sem flesta.

Jóhann Björnsson

[1] Martin Levander, Heimspeki (Mál og menning 1997), þýðandi Aðalheiður Steingrímsdóttir og Þröstur Ásmundsson, bls.105.

[2] Tilverustefnan er mannhyggja bls. 9.

Til baka í yfirlit