Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Rangtúlkanir guðfræðiprófessors

Hjalti Hugason, guðfræðiprófessor, ritar grein í Morgunblaðinu þann 11. desember um jákvætt og neikvætt trúfrelsi. Prófessornum fatast illilega flugið með þeirri staðhæfingu sinni að trúarlegir minnihlutahópar krefjist neikvæðs trúfrelsi í merkingunni að þrengja trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Nú talar Hjalti reyndar svolítið loðið þar sem hann tilgreinir ekki um hvaða trúarhóp er að ræða, en ég álykta að um sé að ræða Siðmennt, en að auki felur Hjalti umræðuna undir orðinu trúfélag sem Siðmennt er að sjálfsögðu ekki.

Eina umræðan sem hefur verið í gangi undanfarið er hinsvegar krafa Siðmenntar um að kirkjan láti af trúboði sínu í skólum. Hjalti virðist ganga út frá því, ásamt megninu af starfsliði kirkjunnar, að trúboð sé hluti af rétti manna til að iðka trú sína og þar verður honum/þeim á alvarleg mistök. Trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar virkar nefnilega í báðar áttir þ. e. tryggir rétt allra til þess að iðka trú eða lífsskoðun sína. Samkvæmt túlkunum og dómum í slíkum málum er rétturinn til þess að vera án trúar jafn mikilvægur og jafn rétthár.

Siðmennt gagnrýnir starf trúfélaga í skólum og telur að þar sé gengið á rétt foreldra og barna þeirra til þess að hafa eigin lífsskoðun og að hún sé virt. Skólar eru veraldlegar stofnanir fyrir alla – ekki aðeins þá sem aðhyllast kristna trú. Að kirkjan geti ekki viðurkennt þá einföldu staðreynd að trúboð hennar gangi gegn sjálfsögðum mannréttindum annarra er með öllu óskiljanlegt, en kirkjan fetar svipaðar slóðir og í öðrum málum er varða mannréttindi. Það er ekki verið að krefjast þrenginga á trúfrelsi heldur þvert á móti krafa um að virtur sé réttur mismunandi lífsskoðunarhópa til að senda börn sín í opinbera skóla án þess að verða fyrir boðun annarra lífsskoðana.

Annar misskilningur kemur fram í grein Hjalta er hann grípur til röksemdafærslunnar sem alltaf er notuð af kirkjunnar mönnum en það eru rökin „að allur þorri þjóðarinnar tilheyrir evangelísk-lútherskum kirkjum.“ Sú röksemd er löngu hrakin, m.a. af eigin könnun kirkjunnar sem framkvæmd var árið 2004 en þar kemur í ljós að þrátt fyrir að flestir séu skráðir í trúfélög játar tæplega helmingur kristna trú og 1/5 hluti segist „ekki trúaður“. Sá háttur sem viðhafður er við skráningu barna í trúfélög er náttúrulega gagnrýnisverður útfrá trúfrelsishugtakinu en þar er um að ræða skráningu í trúfélag móður við fæðingu barns.

varaformaður Siðmenntar.

Frá Bjarna Jónssyni

Til baka í yfirlit