Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Trúboð og skólastarf

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði skrifar:

Upplýsingin var eitt mesta framfaraspor í sögu Vesturlanda. Gagnrýnin hugsun skaut rótum og bókstarfstrú var ýtt til hliðar. Farið var í vaxandi mæli að greina á milli veraldlegs og andlegs valds. Aðskilnaður ríkis og kirkju fylgdi víða í kjölfarið. Margir upplýsingarmenn deildu á kirkjuna fyrir að boða bábiljur og kröfðust þess að kirkjan hætti áróðri sínum gegn skapandi og gagnrýnni hugsun í þeim fjölmörgu barnaskólum sem hún rak. Þátttaka kirkjunnar í skólastarfi varð í kjölfarið eitt af heitustu pólitísku deilumálum í Evrópu á 19. öld.


Grunnhugsun upplýsingastefnunnar varð ofan á. Kirkjan dró sig að mestu út úr skólastarfi. Ríkið tók við rekstri flestra barna- og unglingaskóla. Enn gætir þó áhrifa kristinnar kirkju í skólum víða í Evrópu. Ísland er engin undantekning hvað það varðar. Íslenska þjóðkirkjan hefur auk þess með markvissum hætti reynt að auka trúboð innan veggja skólanna. Það skýtur hins vegar nokkuð skökku við á tímum fjölmenningarsamfélags og hlutfallslega fækkandi þjóðkirkjumeðlimum. Auk þess eru þjónar þjóðkirkjunnar engan veginn best til þess fallnir að kenna trúarbragðafræði og túlka þar með önnur trúarbrögð á sínum forsendum. Á sama hátt má spyrja hvort þjónar kirkjunnar séu ákjósanlegir í skólastofunum þegar talið best að virðingu og kærleika í samfélaginu. Ekki er langt síðan að mikið þurfti til að yfirmenn kirkjunnar féllust á að konur stæðu körlum jafnfætis innan kirkjunnar og í samfélaginu.

Einnig hafa nokkrir forsvarsmenn kirkjunnar, með biskupinn í broddi fylkingar, ráðist með skömmum og fyrirlitningu á samkynhneigða og fjölskyldur þeirra. Er slíkt fólk best til þess fallið að ræða við börnin okkar um kærleika, vináttu og virðingu innan veggja skólans? Með auknum sýnileika í skólanum reynir íslenska þjóðkirkjan að snúa við því framfaraskrefi sem stigið var með upplýsingunni að aðskilja trúboð frá almennu skólastarfi. Því er mikilvægt að spyrna við fótum og tryggja að börnin okkur fái að læra óáreitt innan veggja skólans.

Baldur Þórhallsson
Prófessor í stjórnmálafræði

Til baka í yfirlit