Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Trúleysingjar og húmanistar ofsóttir víða um heim

Trúleysingjar og húmanistar njóta ekki alltaf verndar mannréttindasamþykkta m.a. vegna þess að hugtakið „trúfrelsi“ er túlkað á þröngan hátt.

Það segir Ahmed Shaheed fyrrverandi stjórnmálamaður frá Maldíveyjum og nýskipaður sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna í málefnum trúfrelsis og skoðanafrelsis.

Hann telur að guðlastlög séu oft notuð í pólitískum tilgangi, þeim beint gegn gagnrýnni og frjálsri hugsun og sjálfkrafa stimpli þau húmanista og trúleysingja sem glæpamenn. Sérstaklega alvarleg séu þau tilvik þar sem að þau sem ásökuð eru um  að brjóta gegn guðlastlögum er hegnt af ríkisvaldinu eða jafnvel ættmennum og samborgurum .

Skýrslan „Freedom of Thought Report 2016“ sem International Humanist and Ethical Union (IHEU), hefur gefið út árlega síðustu fimm árin staðfestir mismunun og ofsóknir á hendur húmanistum og trúleysingjum. Guðlastákvæði er í lögum 59 ríkja og brot á þeim varða fangelsisvist og stundum lífláti. Í 22 ríkjum eru lög sem banna trúskipti (að breyta frá einni trú yfir í aðra). Það eru 13 ríki sem heimila beitingu dauðarefsingar fyrir brot á þessum lögum.

Skýrslan er aðgengilega á netinu http://freethoughtreport.com/countries/ þar sem hægt er að skoða stöðu mála eftir ríkjum og m.a. á Íslandi. Andrew Copson, forseti IHEU, segir um skýrsluna: „… að efnistök hafa þróast og kemur hún út á mikilvægum tímamótum í heimsmálunum. . . réttindi og jafnræði trúleysingja er ógnað en einnig sjást merki um að kúgun hafi aukist gagnvart þeim sem hafa húmanísk gildi. Lýðræði og veraldarhyggju er stefnt í voða og stöðugt stöndum við frammi fyrir nýjum ógnum.“

Í íslenska hluta skýrslunnar kemur fram að frekar litlar breytingar eru á stöðu Íslands og enn er þar talað um kerfisbundna mismunun af hálfu ríkisvaldsins vegna þess að hér sé fyrirkomulag um ríkiskirkju bundið í stjórnarskrá.

Jóhann Björnsson, formaður Siðmenntar, segir um skýrsluna: „Þrátt fyrir að ástandið á Íslandi sé gott í samanburði við ýmis önnur lönd þá má ekki slá slöku við. Aðskilnaður ríkis og kirkju er aðkallandi mál en einnig er mikilvægt að að greina alfarið á milli skólastarfs og trúarlegrar starfssemi. Það er ekki hlutverk skóla að taka fram fyrir hendur foreldra við uppeldi barna þeirra með því að heimila trúboð.“

Til baka í yfirlit