Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Hvers vegna er eitthvað rangt eða rétt? – Þannig er húmanismi!

Hvers vegna er eitthvað rangt eða rétt?  – Þannig er húmanismi!

Stutt fræðslumyndbönd um húmanisma unnin í samvinnu við bresku húmanistasamtökin, British Humanist Association (Myndband 4 af 4).

 

Hvers vegna er eitthvað rangt eða rétt?

Hvað er rétt og rangt halda sumir að sé óhagganlegt og óháð aðstæðum og það megi tjá það með föstum og óumbreytanlegum boðorðum. Slíkt fólk leitar oft í trúarlega texta eða yfirvald til að reyna að komast að því hvað guð vill að það geri.

Húmanistar líta siðferði öðrum augum. Húmanistar leita ekki til neins guðs í leit að reglum heldur íhuga þeir sjálfir gaumgæfilega hvað gæti verið besta leiðin í lífinu.

Þessi aðferð þýðir að við þurfum alltaf að huga að öðrum og hvaða áhrif val okkar hefur á hamingju eða þjáningu annarra manna (og stundum dýra). Við þurfum að virða rétt og óskir þeirra sem koma við sögu og reyna að finna bestu leiðina eða þann kost sem veldur minnstum skaða.

Við þurfum að huga sérstaklega að aðstæðunum hverju sinni í stað þess að líta á einhverja reglu eða boðorð sem sjálfsagðan hlut. Við þurfum að vega og meta þær upplýsingar sem liggja fyrir um hvaða áhrif gjörðir okkar kunna að hafa. Þessi hugsunarháttur um hvað okkur ber að gera er skilmerkilega byggður á skynsemi, reynslu, samhygð og virðingu fyrir öðrum, frekar en á hefð eða vísun í yfirvald.

Þetta kann að virðast erfitt en sem betur fer gera flest okkar þetta oftast án þess að hugsa nokkuð út í það. Siðferði er ekki eitthvað sem hefur borist mannfólkinu utanfrá, fengið að gjöf frá utanaðkomandi krafti eins og guði.

Ef við lítum á nánustu ættingja okkar í dýraríkinu komum við auga á sömu grunntilhneigingarnar og við könnumst við í okkur sjálfum – hlýju, samvinnu, alla þá hegðun sem nauðsynleg er til að geta lifað og dafnað í hóp.

Það er ljóst að félagsleg eðlisávísun okkar myndar grunninn að siðferði og að hún er eðlilegur hluti af mennskunni.

En auðvitað segir það ekki alla söguna. Tugþúsund ára reynsla okkar af því að búa í samfélögum hefur mótað og fágað siðferði okkar og við erum öll svo heppin að erfa árangur alls þess erfiðis. En það er ekki þar með sagt að ekki séu til manneskjur sem valda skaða eða kjósa óheppilegar leiðir.

En þegar allt kemur til alls þá er siðgæðið frá okkur komið, ekki neinum guði.
Það snýst um velviljað fólk með félagslega ábyrgðartilfinningu. Það snýst um að vera ekki fullkomlega eigingjörn, um væntumþykju og tillitssemi í garð annarra.

Hugmyndir um frelsi, réttlæti, hamingju, jafnrétti, sanngirni og öll önnur gildi sem við höfum í hávegum eru uppfinningar mannanna og við getum verið stolt af þeim, um leið og við reynum að lifa samkvæmt þeim.

Þannig er húmanismi!

http://www.sidmennt.is | https://www.facebook.com/sidmennt

Sjá nánar:

[posts-by-tag tags=“Þannig er húmanismi“ number = „10“]

Til baka í yfirlit