Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Biskup Íslands, trúleysi og kærleikur

Felst hætta í því að viðurkenna að það eitt að líta í augu barna okkar eða faðma ástvini geti fyllt okkur kærleika, án þess að trúa á fórnardauða og upprisu Jesú? Er náungakærleikurinn sprottinn úr jarðvegi trúar á guð, en trúleysi sálardeyðandi og mannskemmandi? Þetta virðist skoðun æðsta manns þjóðkirkjunnar, biskups Íslands. Samkvæmt honum er trú á Guð uppspretta alls hins besta í samfélaginu. Trúleysi hins vegar ógn við mannlegt samfélag og uppeldi barna , ávísun á helsi, hatur og dauða . Þetta eru skilaboð biskups til okkar sem höfum „úthýst“ Guði úr lífi okkar. Ég sé ástæðu til að gera athugasemdir við þennan boðskap og tel raunar að það ætti að vera mikið áhyggjuefni fyrir meðlimi stærsta trúarsafnaðar landsins hvernig leiðtoginn hefur hagað málflutningi sínum.

Sem málsvari kristninnar lýsir biskup eðlilega dásemdum trúar á Guð og Jesú Krist. Slík málsvörn getur þó verið með ýmsu móti, en til grundvallar henni liggur vanalega hin „helga“ bók, Biblían. Öflugustu málsvara „helgra“ rita köllum við bókstafstrúarmenn. Það er síðan háð viðkomandi samfélagi hverjar afleiðingar trúarvissu eru: menn drepnir fyrir að trúa ekki á „réttan“ guð eða meinað um full réttindi vegna „rangrar“ kynhneigðar. Það kann að vera langur vegur þarna á milli, en rótin er sú sama – vissan um sannleika þess sem ritað er í „bók bókanna“ – „grundvöll hins góða samfélags“.

Biskup er viss. Trúin er grundvöllur siðferðis, en trúleysi mannskemmandi. Það er ekki ætlun mín hér að rökræða gildi trúar. Menn deila um hvort trúarbrögðin hafi verið mikill orsakavaldur styrjalda og hamlað þróun mannréttinda eða verið okkar helsta framfaraafl og sá áhrifahvati sem gerði raunvísindin yfirhöfuð möguleg, eins og biskup hélt nýlega fram . Ég læt hér nægja að fullyrða að jákvæð áhrif trúar eru umdeilanleg.

Trúarbrögð hafa flest þróast í jákvæða átt, þótt þau séu misjafnleg stödd á þeirri vegferð, sbr. það ofstæki sem Íslam getur af sér. Hin vestræna lútherska kirkja er kannski lengst komin í að losa sig við bábiljur sem áður voru bjargföst trú. Fljótt á litið mætti álykta að hún hafi samþykkt flestar niðurstöður vísindanna. Biskup lofar vísindin og treystir væntanlega að miklu leyti á það sem þau segja okkur. Þegar hins vegar kemur að kenningum um þróun siðferðiskenndar þá er hann ekki bara efins – biskup hafnar þeim möguleika að náungakærleikurinn sé okkur eðlislægur. Aðeins trúin á Guð geri okkur siðuð.

Hvers vegna rígheldur biskup í þá vissu að gott siðferði sé háð trú á æðri máttarvöld? Ætti hann ekki að geta fallist á að gott siðferði sé eftirsóknarvert í sjálfu sér? Er það hættulegt fyrir kirkjuna að samþykkja að hvert og eitt okkar geti komist að þeirri niðurstöðu að heiðarleiki, umhyggja og umburðarlyndi sé það sem við viljum standa fyrir í þessu eina lífi okkar? Varla er eftirsjá af slíkri vantrú á manngildi sem telur loforð og hótanir um hvað tekur við í öðru lífi nauðsynleg til að við hegðum okkur skikkanlega í þessu.

Það sem ég tel alvarlegast við boðskap biskups er hvaða kenndir hann vekur. Biskup átelur alla menn sem ekki trúa á guð. Hann notar orðið hatrammur um félaga í samtökunum Siðmennt, sem vilja efla almennt siðferði og ábyrgð hvers einstaklings gagnvart náunga sínum. Þetta eru hatursfullir trúleysingjar samkvæmt biskupi. Trúleysi er „mannskemmandi“. Trúlausir menn eru þar með vondir menn. Hvað gerum við við slíka? Drepum? Bannfærum? Útilokum frá embættum og athöfnum? Fyrirlítum? Það hefur auðvitað breyst með tímanum og er háð því í hvaða samfélagi við lifum. Við mannskemmandi trúleysingjar getum prísað okkur sæl fyrir að vera uppi á Íslandi í dag, en ég verð því miður að segja að málflutningur biskups hefur auðveldað mér skilning á ofstæki trúar og kirkju fyrr á öldum. Gæti verið að fleirum hugnist ekki að þessi kærleiksboðskapur biskups hafi greiðan aðgang að skólum barna okkar?

Grein minni er ekki ætlað að vera árás á kirkjuna. Trú er staðreynd í lífi fjölmargra og kirkjan hefur hlutverki að gegna. Það er ekki þar með sagt að forsvarsmenn hennar séu hafnir yfir gagnrýni. Ég leyfi mér að efast um að boðskapur biskups sé til þess fallinn að efla kirkjuna. Gæti ekki verið að styrkur hennar fælist frekar í að opna fyrir öllum sem meðtaka kærleiksboðskap, trúuðum jafnt sem trúlausum? Ætti þjóðkirkjan, sem nýtur sérstakra forréttinda á meðal trúfélaga, ekki að gæta þess sérstaklega að vera auðmjúk og umburðarlynd í stað þess að vera hrokafull og viss? Það er mín trú að þjóðkirkjan muni ekki dafna nema hún leggi áherslu á jafnrétti og umburðarlyndi. Að hún opni dyr sínar fyrir öllum sem telja hana geta gegnt mikilvægu hlutverki í samfélaginu, veitt styrk í erfiðleikum og sorg og verið vettvangur til að stuðla að góðu siðferði. Einnig þeim sem ekki meðtaka trú á hið yfirnáttúrulega eða bókstaf fornra handrita.

[1] Karl Sigurbjörnsson (KS), flutt í Áskirkju, 6.3.2005
[2] KS, flutt í Dómkirkjunni, 1.1.2003
[3] KS, flutt í Hvalsneskirkju, 9.12.2007
[4] KS, flutt í Dómkirkjunni, 1.1.2008

Viktor J. Vigfússon

Til baka í yfirlit