Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Tímamót hjá Siðmennt - ný námskrá borgaralegrar fermingar

Tímamót hjá Siðmennt - ný námskrá borgaralegrar fermingar

Seinustu misseri hefur verið ráðist í endurskoðun á fermingarnámskeiðinu hjá Siðmennt. Í fyrsta sinn var skrifuð heildræn námskrá sem fangar öll viðfangsefni námskeiðsins, og þau afmörkuð niður í stoðir borgaralegrar fermingar. Þá verður í ár boðið í fyrsta sinn uppá ýmsar nýjungar í fermingarnámskeiðunum, eins og helgarferð á Úlfljótsvatn, listasmiðjunámskeið og námskeið með útivistarþema þar sem m.a. verður gengið á Sólheimajökul.

Borgaraleg fermingarfræðsla með húmanískum gildum

„Fermingarfræðsla borgaralegrar fermingar hefur alltaf byggt á húmanískum gildum, og töldum við tímabært að leggjast í þessa vinnu – að draga saman markmið kennslunnar í heildræna og skýra námsskrá,“ segir Inga Straumland, formaður Siðmenntar, en námskráin er aðgengileg í heild sinni á vef Siðmenntar. „Við vildum sömuleiðis bjóða upp á fjölbreyttari kennsluaðferðir til að öll ungmennin gætu fundið eitthvað sem passaði sínu áhugasviði og væri ólíkt því sem þau þekkja úr skólakerfinu, enda læra fæstir mest af því að sitja í kennslustofu.“

Ákall hefur verið eftir fjölbreyttari nálgunum á námsefnið frá fermingarbörnum sem og foreldrum þeirra. Þannig hefur nú í fyrsta sinn verið skipulagðar fleiri námskeiðsleiðir til að höfða til ólíkra þarfa barna sem og virkja þau með óhefðbundnu umhverfi og aðferðum. Námskeiðin hafa seinustu ár verið kennd yfir 11 vikna tímabil, þar sem hópur fermingarbarna hittist einu sinni í viku með leiðbeinanda, eða á helgarnámskeiðum þar sem hópurinn hittst í fjögur skipti í lengri tíma í senn. Til viðbótar við þetta er nú boðið upp á þemanámskeið. Á þemanámskeiðum er lagt upp með óhefðbundna nálgun þar sem fermingarbörnin eru virkjuð í gegnum áhugasvið sín til að takast á við viðfangsefni námskeiðsins. Þannig verða kennsluhættirnir frábrugðnir kennsluháttum grunnnámskeiðanna og skapandi aðferðafræði notuð til að miðla viðfangsefnunum til fermingarbarnanna.

Hægt verður að velja á milli útivistarnámskeiðs, þar sem viðfangsefni námskrárinnar eru til umfjöllunar í fjallgöngum, eða listsköpunarnámskeiðs, þar sem hver stoð er rannsökuð í gegnum listgrein. Sömuleiðis er ný viðbót við námskeiðsflóruna sem kölluð er fermingarbúðir. Þá býðst krökkunum að fara á Úlfljótsvatn og stunda sína fermingarfræðslu þar yfir helgi. Öll þessi námskeið eru jafngild þeim hefðbundnari.

Borgaraleg ferming í rúm 30 ár og stækkar ört

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, skipuleggur og stýrir borgaralegum fermingum sem hafa farið fram síðan árið 1989. Árið 2021 var hlutfall ungmenna á fermingaraldri sem velur borgaralega fermingu komið upp í 14% af árgangnum. Borgaraleg ferming er valkostur fyrir öll ungmenni sem vilja staldra við á tímamótum og fagna þeim með uppbyggilegu námskeiði og hátíðlegri athöfn. Ungmenni sem fermast borgaralega sækja fermingarfræðslu í aðdraganda athafnarinnar. Markmið fermingarfræðslu Siðmenntar er að rækta með markvissum hætti þá þekkingu og færni sem styrkir einstakling til að verða gagnrýninn og virkur þátttakandi í nútímasamfélagi.

Nýja námskráin í hnotskurn - stoðirnar fjórar

Stoðirnar í hinni nýju námskrá eru fjórar, og nálgast hver og ein þeirra hin ýmsu sambönd sem einstaklingar eiga í í gegnum lífið. Fyrsta stoðin er stofninn – þar sem rannsakað er samband okkar við grundvöll tilverunnar og farið er yfir þær grundvallarspurningar sem leggja grunninn að fjölbreyttum viðfangsefnum fermingarfræðslunnar. Þessar spurningar snúa að tilkomu jarðlegrar tilvistar okkar og tilgangi hennar, sem og að því hvernig við getum skapað okkur jákvætt og uppbyggilegt viðhorf til lífsins.

Önnur stoðin er sjálfið – sem skoðar samband okkar við okkur sjálf. Fjallað er um hvernig hægt er að efla það samband og um mikilvægi þess að það sé heilbrigt og jákvætt. Umræðuefni eru tilfinningar, sjálfsmynd og sjálfsvirðing, kynvitund og kynferði. Sömuleiðis er farið yfir hvað mótar sjálfsmyndina og hvernig sú mótun hefur áhrif á heimsmynd okkar og gildi.

Þriðja stoðin er samfélagið – sem spyr sig spurninga um samband manna á milli. Hvernig myndast samfélög og virka með ólíkum einstaklingum með öll sín einstöku sjónarhorn, hvernig birtast okkar persónulegu gildi í samskiptum við annað fólk, og hvernig leggja þau grunninn að sameiginlegum skilningi samfélagsins á siðferði og réttlæti. Fjallað verður um lýðræði, fjölmenningu, rasisma, kynjafræði, mannréttindi, fjölmiðlalæsi og fleira.

Seinasta stoðin er samhengið – stoð sem fjallar um samband mannsins við umhverfi sitt. Til umfjöllunar verður meðal annars dýrasiðfræði og loftslagsmál, og er nálgast þessi viðfangsefni út frá hugmyndum um mannmiðjuhyggju og náttúruhyggju, þ.e.a.s. hver hugræn sýn mannsins er á umheiminn – trónir hann á toppnum eða er hann hluti af stór samhangandi kerfi? Með þessari umfjöllun verður hringnum lokað þar sem þessar spurningar leiða aftur á byrjunarreit: hver er tilgangurinn og merking tilvistar okkar hér á jörðinni?

 

Til baka í yfirlit