Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Kirkjan og samkynhneigðir

UNDANFARNAR vikur hafa átt sér stað á síðum dagblaðanna skoðanaskipti um niðurstöður nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra um stöðu samkynhneigðra á Íslandi. Sem betur fer hefur viðhorf Íslendinga gagnvart samkynhneigðum breyst á síðastliðnum 5-10 árum. Samkynhneigðir sjá vonandi fram á það að innan ekki margra ára njóti þeir sömu mannréttinda og aðrir Íslendingar.

Í skýrslu nefndarinnar er einnig áskorun til ríkiskirkjunnar að breyta afstöðu sinni til giftingar samkynhneigðra en afstaða hennar hefur ekki breyst í takt við almenningsálitið. Nokkrar greinar hafa birst að undanförnu þar sem kirkjan er gagnrýnd fyrir afstöðu sína og m.a. að hafa sett málið í nefnd árið 1994 án þess að neitt markvert hafi frá þeirri nefnd komið síðan.

Trúarofstækismenn hafa einnig látið í sér heyra og verja afstöðu ríkiskirkjunnar og vísa, sem satt er, til þess að í Biblíunni er mjög skýr afstaða tekin gegn samkynhneigð. Það má einnig benda á að í sömu bók er svipuð afstaða til kvenna og fólks sem hefur aðra trú eða eru trúlausir. Slíkt fólk á ekki uppá brúsapall Biblíunnar. Trúarofstækismenn hafa bent á að ef afstöðu kirkjunnar verði breytt gangi það gegn Biblíunni og orði Guðs auk þess að þar hrynji meginstoð kristinna manna sem hlýða boðskap bókarinnar í einu og öllu. Þó er greinilegt að fulla einingu um slíka afstöðu er ekki að finna meðal kirkjunnar manna. Nokkrir prestar hafa andæft og er það vel. Hins vegar hafa þeir undirtökin sem vilja flýta sér hægt eða ekki neitt.

Ég vil benda fólki á þá kreppu sem sumir setja sig í að telja Biblíuna guðs orð og ekki megi víkja frá boðskap henni. Bókin er samansafn greina sem valdar voru mörg hundruð árum eftir meinta tilvist Jesú hér á jörð. Til greina komu margar aðrar ritaðar greinar sem síðan var hafnað. Það er ekki einn maður og heldur ekki guð sem skrifaði þessa bók heldur er tímaskeið ritunar hennar mörg hundruð ár og þar af leiðandi margir mismunandi höfundar með ólíkar skoðanir.

Því þykir mér það heldur undarlegt að ekki megi víkja frá mannfjandsamlegum boðskapi hennar sem nóg er af – það hefur gerst áður. Frá því á tímum upplýsingarinnar, þegar heimspekingar hófu gagnrýni á trúna, hefur kristin kirkja, oft gegn vilja sínum, þurft að endurskoða ýmislegt sem haldið hefur verið fram. Jörðin var miðpunktur alheimsins og snerust allar aðrar stjörnur í kringum hana auk þess að kirkjan taldi jörðina flata. Vísindin gátu hins vegar smátt og smátt leiðrétt slíkt. Svo mannfjandsamlegt er sumt sem í Biblíunni stendur að boðskapur Gamla testamentisins hefur nánast verið lagður til hliðar, nema af ofsatrúarhópum, og skýringin hefur verið að sá hluti verði að „skoðast í ljósi Krists“! Það hefur aftur á móti leitt til þess að ýmsar ósamhljóma túlkanir hafa komið fram og helgast frekar af ljósi einhvers annars og oftast þess sem vill túlka boðskapinn svo henti viðkomandi.

Framan af öldum helgaðist afstaða kristninnar til kvenna af drottnun karla og að þær væru eign þeirra en síðustu 30-50 ár hafa margar kirkjudeildir, m.a. íslenska lúterskirkjan, breytt þeirri afstöðu og telja konur allt að því jafnar körlum. Viðhorfin til samkynhneigðra hafa verið eins en sumir telja samkynhneigð synd og að hægt sé að „afhomma“ þá einstaklinga. Ótrúlegur dónaskapur felst í því að bjóða „syndurunum“ fyrirgefningu og að þeir séu velkomnir í hús kristinna manna láti þeir af syndinni.

Fyrir mig, sem félaga í Siðmennt, er þetta mál spurning um mannréttindi homma og lesbía (sjá einnig www.sidmennt.is). Siðmennt er félagsskapur siðrænna húmanista sem telja rökhyggju, skynsemi og vísindalegar niðurstöður um málefni eiga að ráða en ekki kreddur, hindurvitni eða trú á eitthvað yfirnáttúrulegt og óútskýranlegt. Að virða einstaklinginn eins og hann er án tillits til kynhneigðar, litarháttar, trúar eða stjórnmálaskoðana er meginatriði fyrir mig. Virðingu fyrir réttindum annarra tek ég fram yfirkreddur trúarinnar.

Bjarni Jónsson fjallar um réttindi samkynhneigðra

Höfundur er áhugamaður um mannréttindi.

Til baka í yfirlit