Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Um mikilvægi góðs siðferðis fyrir þjóðina

Hugvekja flutt fyrir alþingsmenn fyrir þingsetningu 15. maí 2009 eftir Jóhann Björnsson

Í spjalli sem Þorsteinn Gylfason fyrrverandi prófessor í heimspeki tók saman í minningu fyrrverandi kennara síns og flutti árið 1977, hélt hann því fram að samfélag stjórnmálamanna sé siðlaust samfélag eða eins og hann orðar það sjálfur: „Samfélag eintómra nytjastefnumanna, eintómra stjórnmálamanna, er siðlaust samfélag.  Eina vonin um siðferði samfélagsins er sú að meðal þegna þess séu margir menn sem ekki eru stjórnmálamenn.“[1]

Ekki er það ætlun mín hér að bera alfarið á móti þessum orðum Þorsteins enda fela þau vissulega í sér heilmikinn sannleika.  En ekki vil ég heldur halda því fram að eina von siðferðisins í samfélaginu sé sú að margir menn séu ekki stjórnmálamenn.  Hinsvegar er freistandi að draga þá ályktun af  orðum Þorsteins að tími sé kominn til að siðferðilega heilir einstaklingar taki við völdum. Það skiptir meginmáli fyrir þjóðina sem kýs sér fulltrúa að þessir fulltrúar vilji vera siðferðilega heilir einstaklingar. Það er ykkar verkefni á komandi tímum að sýna fólkinu í landinu að orð Þorsteins hér á undan séu röng.

 

Til þess að ykkur megi takast það er ykkur hollt að ígrunda eftirfarandi spurningar reglulega:

–         Hversvegna tek ég þátt í stjórnmálum?

–         Hvað er það sem ræður ákvarðanatökum mínum?

–         Fyrir hverja er ég í stjórnmálum?

–         Hver eru lífsgildi mín og hugsjónir?

–         Hvað er það sem ræður því hvernig ég tjái mig þegar ágreiningur er annarsvegar? Bregst ég við ágreiningi af heilindum með rökræðuna að vopni eða með aðferðum kappræðunnar þar sem ætlun mín er að sigra andmælanda minn burtséð frá því hvað er satt og rétt og almenningi til heilla?

–         Er ég reiðubúinn að skipta um skoðun ef ég sé að ég hef  haft rangt fyrir mér?

Stundum er fólk spurt að því hvort það geti ímyndað sér á dánarbeðinu hvort  það eigi eftir að sjá eftir því að hafa ekki eitt meiri tíma í vinnunni. Á sambærilegan hátt er það  hollt  hverjum stjórnmálamanni að skoða hið pólitíska líf sitt útfrá eftirfarandi sjónarhorni:

Ef mannkynið allt ætti aðeins eftir að lifa í eitt ár til viðbótar hvaða lífsgildi vildi ég þá að stýrðu gjörðum mínum? Hvað væri þess vert að lifa fyrir? Væri það einhvers virði að raka að sér auðæfum til þess eins að deyja frá þeim? Væri það einhvers virði að ná eins miklum völdum og mögulegt er ef maður á síðan eftir að deyja frá þeim ári síðar?

Eða yrði ákvarðanataka ykkar og breytni meira virði fyrir ykkar eigin sálarheill og hamingju ef þið gæfuð af ykkur sjálfum til þeirra sem á þurfa að halda?

Þessi aðstaða sem ég hef sett upp hér fær ykkur vonandi til að velta því fyrir ykkur hvort sé meira virði, ykkar eigin persónulegi ávinningur og stundarhagsmunir eða sameiginlegur ávinningur sem flestra? Er einhvers virði að vera hamingjusamur ef allir í kringum mann eru óhamingjusamir? Er einhvers virði að vera ríkur ef allir í kringum mann eru fátækir? Er einhvers virði að vera valdamikill ef maður þarf að kúga aðra til þess að halda völdum? Er einhvers virði að taka þátt í samræðum ef maður þarf að ljúga til að vera með?

Hverjar svo sem ástæður fólks til stjórnmálaþátttöku eru er ljóst að metnaður margra á þessu sviði er mikill.  Metnaður stjórnmálamanna fer ekki alltaf saman við heildarhagsmuni þjóðarinnar. Metnaðurinn birtist oft eins og tilfinningaþrungin viðbrögð barna að leik þar sem mikið er í húfi.  Metnaður stjórnmálamanna til frama er því miður of oft metnaður metnaðarins vegna. Kannski er drifkrafturinn þó dulinn kunni að vera sá að í minningargreinunum í ókominni framtíð líti lífsferill manns betur út ef maður hefur sprengt alla skala pólitísks frama framans vegna? Ég skal ekki um það segja hér. En hætt er við að slíkum metnaði fylgi eigingjörn sjálfsupphafning sem er engum til góðs.

Það vakti sérstaklega athygli mína að rekast á andstæðu slíkrar persónulegrar sjálfsupphafningar í stjórnmálum þegar ég las ritgerð eftir einn af ástsælustu heimspekingum þjóðarinnar, Brynjólf Bjarnason, fyrrverandi alþingismann og ráðherra sem var að mig grunar reyndar miklu miklu betri heimspekingur heldur en stjórnmálamaður.  Hann lét athyglisverð orð falla um stjórnmálaþáttöku sína þegar hann hafði stigið niður af hinu pólitíska sviði. Hann sagði:

„Stjórnmál voru mér ekki að skapi, en ég fann að ég gat ekki skorizt úr leik, það var heilög skylda mín, að leggja mitt litla lóð á vogarskálina.“[2]

Samkvæmt honum var metnaður hans ekki fólginn í persónulegum einkaávinningum heldur hugsjóninni um að gera lífið hér á jörðinni betra og hann var að eigin sögn reiðubúinn til að „leggja allt í sölurnar, ef því væri að skipta.“[3] Ef einhver annar hefði getað gert sömu hluti þá var það alveg eins gott. Við getum deilt um það hvort pólitískar hugsjónir hans hafi verið góðar eða slæmar, réttar eða rangar. En það sem skiptir máli í þessu samhengi er að hafa góðan vilja.

Það vekur athygli að hann notaði orðið „skylda“ um þátttöku sína í stjórnmálum.  Hann taldi það skyldu sína að vera með.  Hvers eðlis er þessi skylda sem rak hann til þátttöku í því sem ekki var honum að skapi?  Afstaða Brynjólfs er tekin í ljósi þess að engin kemst hjá því að taka afstöðu:  „það var lífsnauðsyn að taka ákvörðun“[4] segir Brynjólfur.

Hugsun Brynjólfs hér er ekki óskyld þeirri sem franski rithöfundurinn og heimspekingurinn Jean-Paul Sartre setti fram um að engin maður komist hjá því að taka afstöðu og breyta á einhvern hátt. Ef ég segist ekki taka afstöðu eða segist ekki ætla að breyta þá er slíkt engu að síður afstaða og breytni segir Sartre.[5]

Ef gengið er út frá því að ekki verði komist hjá því að taka afstöðu og velja á einhvern hátt er eðlilegt að í beinu framhaldi sé spurt hvernig þessu vali sé háttað.  Sumir fljóta áfram í gegnum lífið í einhverskonar „þægilegu“ afskiptaleysi, sumir vilja kalla þetta hlutleysi en má líklega oftar kalla þetta skeytingarleysi.  Skeytingarleysi sem getur bitnað á rétti þeirra sjálfra sem og samborgara þeirra.  Aðrir eiga fullt í fangi með að koma sjálfum sér og sínum á góðan og öruggan stall og svo eru það þeir sem telja það skyldu sína að breyta af siðferðilegum heilindum þ.e.a.s. að hygla sjálfum sér ekki á kostnað almannaheilla heldur breyta í þágu góðra gilda. Síðast nefnda afstaðan er sú afstaða sem ber merki siðferðilegs þroska.

Heimspekingurinn Immanúel Kant hélt því fram að ekkert gott væri til í þessum heimi án skilyrða nema hinn góði vilji.  Hinn góði vilji sem ekki stjórnast af utanaðkomandi duttlungum eða skammsýnum einkaávinningum er það sem hefur siðferðilegt gildi.  Þetta er sá vilji sem lýtur hinu svokallaða siðferðilega skylduboði sem hljóðar svo: „Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú getur á sama tíma viljað að verði að almennu lögmáli.“[6]

Þegar þið takið ákvarðanir ykkar getið þið byrjað á því að spyrja sjálf ykkur að því í anda Kants hvort þið gætuð viljað að breytni ykkar verði að almennu lögmáli. Vil ég að breytni mín verði tekin til fyrirmyndar? Vil ég að aðrir breyti eins og ég? Það ætti að vera grundvallarspurning ykkar. Sá sem breytir siðferðilega rétt vill að breytnin verði öðrum fyrirmynd, þ.e.a.s. hann getur óskað sér þess að allir aðrir menn breyti eins og hann.

Kant skrifaði meðal annars um siðferði stjórnmálamannsins og gerir hann greinarmun á tveimur megin gerðum stjórnmálamanna hve varðar siðferðilega breytni og afstöðu til siðferðis.[7] Annarsvegar er um að ræða stjórnmálamann sem tekið hefur rétta siðferðilega afstöðu.  Sá breytir í samræmi við siðaboðið og getur viljað að breytni sín sé tekin til fyrirmyndar og verði að almennu lögmáli í samfélaginu.  Hinsvegar er það sá  sem ekki hefur tekið slíka afstöðu heldur þvert á móti gerir allt sem í hans valdi stendur til þess að halda völdum burtséð frá því hvort breytni hans telst siðferðilega rétt eða röng.5  Sá síðarnefndi leggur mest upp úr völdunum og skeytir ekki um það hvort leiðin á toppinn brjóti í bága við siðferðileg gildi í mannlegum samskiptum.  Að vísu þarf sá að gæta þess að styggja ekki fjöldann því þar verður hann að geta treyst á fylgi til þess að komast þangað sem hann vill komast.  Þess vegna verður hann að vera eins og Machiavelli segir „slægur sem refur“.[8]

Það er ekki flókið að draga þá ályktun af því sem hér hefur verið sagt að miklar kröfur beri að gera til andlegs og siðferðilegs heilbrigðis þeirra sem leggja fyrir sig stjórnmál.  Ég veit að það reynist mörgum stjórnmálamanninum ofraun að koma til dyranna eins og hann er klæddur, að hafa ekkert að fela og geta staðið heils hugar á bakvið hugsjónir sínar og skoðanir. En það er mikilvægt að stjórnmálamenn geti sett sig í spor annarra og spyrji sjálfa sig:

Hvað ef ég væri í sporum hins? Hvað ef ég ætti eftir að ganga í gegnum sambærilega hluti? Hvernig myndi þá vilja að komið yrði fram við mig?  Þessa einföldu reglu getið þið haft í huga á degi hverjum í ykkar störfum? Hún er einföld og krefst ekki mikils og þið getið beitt henni í hvaða málaflokki sem er:

Hvað ef ég væri barn í skóla? Hvað ef ég væri hælisleitandi? hvernig myndi ég vilja láta taka á mínum málum? Hvað ef ég væri sjúkur, fatlaður, fátækur, atvinnulaus og svona mætti áfram telja.

Ágætu alþingismenn.

Eins og ég sagði í upphafi þá er mikilvægasta verkefnið sem þið standið frammi fyrir núna að sýna fram á að orð Þorsteins sem ég vitnaði til í upphafi um að „samfélag stjórnmálamannanna sé siðlaust samfélag“ séu röng.

Ef ykkur tekst að sýna ykkur sjálfum og þjóðinni fram á það að Þorsteinn hafi haft rangt fyrir sér. Að þið séuð þegar upp er staðið siðferðilega góðar manneskjur þá þurfið þið engu að kvíða sama hversu erfið viðfangsefni ykkar að öðru leyti verða.

Fylgið samvisku ykkar og látið ekki sveigja ykkur af braut góðra siða. Hjarðmennskan er hættuleg siðferðinu. ég hvet ykkur til að hafa í huga einkunnarorð Siðmenntar ef á móti blæs: „Það er í lagi að vera öðruvísi“

Ég óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar gæfu og góðs gengið í störfum ykkar og þakka ykkur kærlega fyrir komuna.


[1]Þorsteinn Gylfason, „Að gera og að vera eða skyldu stjórnmál hljóta að vera siðlaus?“ í Hug tímariti um heimspeki 1993-1994 s.77.

[2] Brynjólfur Bjarnason „Svar við spurningu um lífsskoðun“ Lögmál og frelsi, Heimskringa 1970, s. 153.

[3] Sama rit s. 153.

[4] Sama rit s. 153.

[5] Jean-Paul Sartre Tilverustefnan er mannhygga, Þýðandi Páll Skúlason. Hið Íslenzka bókmenntafélag 2007.

[6] Immanuel Kant Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni, þýðani Guðmundur Heiðar Frímannsso., Hið Íslenzka bókmenntafélag 2003 s.140

[7] Immanuel Kant „Perpetual Peace A Philosophical Sketch“  Political writings. Þýðandi H.B. Nisbet. Camridge University Press 1991.

[8] Niccolo Machiavelli „The prince“ The prince and other political writings. Þýðandi Stephen J. Milner. Everymen 1995.

Jóhann Björnsson

Til baka í yfirlit