Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Fjölmenning og faglegt skólastarf

Nýverið birtist í dagblaði viðtal við móður nemanda í grunnskóla. Móðirin gerði athugasemd við að barnið hennar hefði ekki fengið þá kennslu sem því bar á meðan meirihluti árgangsins fór í fermingarfræðsluferð á vegum kirkjunnar. Hér er ekki um nýjar fréttir að ræða. Grunnskólar hafa allt of oft fórnað fagmennskunni með þessum hætti. Börn sem ekki tilheyra stærsta trúfélaginu hafa allt of oft þurft að mæta afgangi í grunnskólum landsins, grunnskólum sem lögum samkvæmt eiga að vera fyrir alla.

Á síðasta ári fermdust 209 börn borgaralega. Í fermingarfræðslunni barst reglulega í tal hver staða þeirra innan grunnskólans væri. Fyrir utan kæruleysi grunnskólanna þegar kemur að fermingarfræðsluferðunum á skólatíma höfðu mörg barnanna aðra og dapurlegri sögu að segja úr íslensku skólastarfi. Sum þeirra nefndu það sérstaklega að það væru kennarar í skólunum sem af einhverjum ástæðum spyrðu nemendur að því hvort þau ætluðu að fermast.

Þegar fermingarbörn Siðmenntar sögðust ætla að fermast borgaralega var þess oft krafist að þau útskýrðu hvað í því fælist. Nokkur barnanna sögðu mér að þau hafi útskýrt það eftir bestu getu en kennararnir sögðu eftir útskýringar þeirra að þeir skildu samt ekki þessa borgaralegu fermingu.

Einn drengurinn sagði mér að honum hafi sárnað viðbrögð kennarans vegna þess að hann vissi að kennarinn vildi ekki skilja út á hvað borgaraleg ferming gengur og hvers vegna ætti hann þá að vera að spyrja. Það er ekki gott og því síður gaman að vera 13 ára nemandi í skyldunámi og þurfa að eiga samskipti við jafn ónærgætið og illa faglega statt fólk.

Nú stefnir í að um 300 börn fermist borgaralega í vor og ég vona að kennarar í grunnskólum landsins geri sér grein fyrir því að við búum ekki eingöngu í fjölmenningarlegu samfélagi þar sem fólk er misjafnt og má vera það, heldur kemur kennurum og öðrum starfsmönnum grunnskólanna ekki við hvort börn ætli sér að fermast eða ekki.

Menntamálaráðuneytið setti fyrr á þesu ári fram reglur um samskipti skóla og trúfélaga á öllum skólastigum. Í þeim reglum segir meðal annars: Eftir fremsta megni skal forðast að nemendur og foreldrar séu settir í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum. Höfum það í huga.

Til baka í yfirlit