Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Góður rómur gerður að hugvekju Siðmenntar

Í gær þann 1. október 2009, hélt Siðmennt hugvekjustund fyrir þá alþingismenn sem ekki kjósa að vera við messu fyrir setningu Alþingis. Þetta er í annað sinn sem Siðmennt býður upp á þennan valkost og var athöfnin haldin í sal á Hótel Borg líkt og síðast.

Steinar Harðarson, athafnarstjóri hjá Siðmennt, flutti hugvekju sem hann nefndi: Eru stjórnmálamenn gagnrýnir? og fjallaði hún um mikilvægi gagnrýninnar hugsunnar fyrir þjóðina.

Fjórir þingmenn sóttu hugvekjuna, en það voru þau Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir frá Hreyfingunni og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingflokksformaður Vinstri Grænna. Lilja Mósesdóttir (Vg) sem kom síðast, var erlendis. Eftir hugvekjuna tóku þau Guðfríður Lilja, Þór og Birgitta sérstaklega fram hversu ánægð þau væru með framtakið og innihald hugvekjunnar.

Stjórn Siðmenntar er ákaflega ánægð með þennan viðburð og allar líkur eru á því að félagið haldi áfram að bjóða uppá veraldlegar og siðrænar hugvekjur fyrir alþingismenn, við þessi tækifæri, en ýmislegt bendir til þess að það muni fjölga í þeim hópi þingmanna sem muni þiggja þessa þjónustu.

Hugvekja Steinars Harðarsonar:

 

Hugvekja fyrir alþingismenn: Eru stjórnmálamenn gagnrýnir?

Eru stjórnmálamenn gagnrýnir? Eru fjölmiðlar gagnrýnir? Getur verið að fólk telji sig beita gagnrýnni hugsun þegar það er aðeins að nöldra og rífa niður? Hver er hlutur gagnrýninnar hugsunar í opinberri umræðu?

Gagnrýnin hugsun er yfirveguð hugleiðing um hvort maður ætti að fallast á eða hafna fullyrðingu eða fresta dómi um hana og með hversu mikilli vissu maður ætti að fallast á hana eða hafna henni. Páll Skúlason skilgreinin gagnrýna hugsun svo:

„Gagnrýnin er sú hugsun sem fellst ekki á neina skoðun eða fullyrðingu nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni“.[1]

Gagnrýnin hugsun á jafnt við um skoðanamyndun og ákvarðanatöku. Hún tekur til greina vitnisburð, reynslu og rök og felur gjarnan í sér túlkun og mat á vitnisburði, rökum og upplýsingum og samhengi þeirra og mikilvægi, sem og mat á hvaða mælikvarði eða aðferðafræði er viðeigandi til að skera úr um málið. Gagnrýnin hugsun reiðir sig ekki einungis á rökfestu heldur einnig á nákvæmni, skýra hugsun og sanngirni eftir því sem á við.

Það má með rökum halda því fram að framfarir í vísindum, þróun samfélaga og almenn þekking sé afleiðing gagnrýnnar hugsunar. Ef litið er til okkar menningarsvæðis sést að fyrir tíma upplýsingarinnar kom stöðnuð heimsmynd í veg fyrir nýja þekkingu. Heljargreipar trúar og hindurvitna komu í veg fyrir það að nýjar hugmyndir fengjust ræddar, hömluðu þekkingarleit og framförum í vísindum.

„Ef menn væru ekki sífellt að gagnrýna kenningar, aðferðir og vinnubrögð í vísindum myndu vísindin staðna og smám saman verða úr sögunni. Framfarirnar eru undir því komnar að menn efist um gildi ríkjandi kenninga, reyni að finna á þeim veika bletti … að reynt sé að finna galla á verki – hvert svo sem það er – til að unnt sé að gera betur“ (Páll Skúlason, 1987).

Það má einnig færa rök fyrir því að gagnrýnin hugsun geti komið í veg fyrir mikið tjón, bæði hjá einstaklingum og samfélögum. Gagnrýnin hugsun getur komið í veg fyrir að órökstuddar eða ósannaðar fullyrðingar nái að hafa áhrif á líf okkar og umhverfi, leggi tilveru okkar og heilu samfélaganna í rúst.

Í ritgerð Páls Skúlasonar 1987 segir hann:

„Gagnrýnin er sú hugsun sem fellst ekki á neina skoðun eða fullyrðingu nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni”.

Það þýðir: Látið ekki ljúga að ykkur.

Undanfarna áratugi hefur þeirri kenningu verið haldið mjög á lofti að “Markaðurinn finnur sjálfkrafa alltaf hagfelldustu niðurstöðuna” og þannig gert lítið úr öllum opinberum rekstri. Áhrifamiklir einstaklingar hafa haldið þessari kenningu fram og hún er einn af hornsteinum stjórnmálastefnu sem ráðið hefur skoðanamyndun í áratugi. Það þótti merki um neikvæðni og nöldur að andmæla þessum kenningum sem sumir töldu þó vera meira í ætt við trú en vísindi. En það er ekki nöldur að krefjast þess af vitibornum og þroskuðum einstaklingi að hann gaumgæfi og rökstyðji skoðanir sínar.

Reynslan, hinn æðsti dómari, hefur nú sýnt fram á að þessi kennisetning um fullkomnun markaðarins er ekki rétt. Dómur hennar er mjög skýr eins og við Íslendingar þekkjum svo vel núna þegar markaðsþjóðfélag síðustu ára hefur kafsiglt efnahagskerfi okkar. En það er óþarfi að láta reynsluna skera úr með jafn afgerandi hætti og nú hefur verið gert um jafn veigamikla hluti eins og lífsafkomu okkar. Eitt af því sem að skorti átakanlega á svokölluðum góðæristímum var gagnrýnin hugsun, en sennilega hefði hún umfram allt annað geta afstýrt þeim hörmungum sem hér hafa riðið yfir okkur.

Allt of fáir gagnrýndu og þeir sem gerðu voru stimplaðir sem andstæðingar framfara eða nöldurseggir en slík stimplun er því miður of algeng gagnvart þeim sem þora að synda á móti straumnum og gagnrýna. En eitt það hvimleiðasta við umræðu á Íslandi er að gagnrýnin hugsun er oft afgreidd sem nöldur og neikvæðni, en það er hún ekki.

Halldór Laxness var duglegur við að hvetja samlanda sína til dáða og dró oft upp mjög litríka mynd af þjóð sinni og var oft vægðarlaus í gagnrýni sinni. Í Sjálfsögðum hlutum lýsir hann áhyggjum sínum á umbyrðarlyndi Íslendinga gagnvart gagnrýni en þar segir hann:

„Íslendíngar þola ekki gagnrýni, það er eitt af þjóðerniseinkennum okkar. Sá maður reiðist ævinlega gagnrýni sem veit með sjálfum sér að hann hefur staðið sig illa. Lúsugur maður reiðist ef honum er sagt hann sé lúsugur, sóði ef honum er sagt hann sé skítugur og rifinn, klaufi ef honum er sagt hann kunni ekki verk sitt, subba ef kvartað er yfir því að kartöflurnar hjá henni séu vassósa, leirskáld ef hann er krítiséraður. Ómenskan gerir kröfur til að vera friðhelg, eða eigum við heldur að segja stikkfrí. Og þeim sem mestir eru skussarnir þykir síst skömm að því að láta ljúga á sig hóli.“

Kannski málar Laxness þetta of dökkum litum, en það er þó visst áhyggjuefni hvernig gagnrýnni umræðu eru ýtt til hliðar.

Gagnrýnin hugsun er krafa og það fullkomlega eðlileg krafa um rökstuðning fyrir skoðun og betur hefði verið að fleiri hefðu beðið um ítarlegri rökstuðning fyrir ráðslagi síðustu ára. En alltaf er hætt að fólk verði andvaralaust vegna þess að  það er miklu auðveldara að synda með straumnum en á móti honum.

Helgi Hóseasson synti ekki með straumnum og ber að þakka honum fyrir það sem og minnast hans þegar gagnrýnið viðhorf er rætt. Helgi fékk sjálfur viðurnefni  á seinni hluta ævinnar viðurnefnið Mótmælandi Íslands. Allir þekkja til Helga Hóseassonar. Helgi beitti ákaft gagnrýnni hugsun til að móta sér skoðanir alla tíð, frá unglingsárum fram að dánardægri. Mörgum fannst sérkennilegt hvað hann lagði mikla áherslu táknræna gjörninga eins og skírn ungbarna. Helgi var sjálfur skírður ómálga inn í söfnuð sem hann vildi ekki tilheyra, söfnuð sem byggir á trú á yfirnáttúrulegar verur sem Helgi taldi aldeilis ósannað að væru til.

Hans rök voru þessi:

„Ef fulltrúar ákveðinna himnafeðga hafa umboð til að gera samning fyrir mína hönd hljóta þeir að hafa umboð til að rifta slíkum samningi. Og áfram: Ef stofnanir ríkisvaldsins hafa réttindi og skyldur til þess að skrá slíkan samning hljóta sömu stofnanir að hafa réttindi og skyldur til að skrá ógildingu hans.“

Hvorug krafa hans náði fram að ganga.

Nú að Helga látnum dást margir af þolgæði hans og þrautseigju og viðurkenna að margt af því sem hann hélt fram bæri vott um skoðanir myndaðar á grundvelli gagnrýninnar hugsunar. Hann gæti hafa þekkt kenningu Cliffords:

„Það er ætíð rangt, alls staðar og fyrir hvern mann að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum“

Kenningar Stephen Brookfield (1987) varpa ljósi á mikilvægi þess að þróa með sér gagnrýna hugsun. Í bók sinni ,,Developing Critical Thinkers” lýsir Brookfield eðli gagnrýninnar hugsunar í nokkrum lykilsetningum:

  • Gagnrýnin hugsun er í eðli sínu skapandi og jákvæð.
  • Gagnrýnin hugsun er ferli, ekki útkoma.
  • Gagnrýnin hugsun hefur fjölbreytilegt birtingarform sem ræðst af samhengi hlutanna sem hún snýst um.
  • Gagnrýnin hugsun sprettur bæði upp úr jákvæðri og neikvæðri upplifun.
  • Gagnrýnin hugsun getur jafnt verið byggð á tilfinningum sem og  skynsemi.

Í frægri ritgerð sinni „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ segir Páll Skúlason:

„Aðalatriðið er að með því að vera auðtrúa og mynda okkur skoðun á ónógum rökum erum við brotleg við alla aðra menn og veikjum auk þess vald okkar yfir sjálfum okkur, verðum ósjálfsæð og spillt í senn“ (s. 75)

Að lokum óska ég öllum þingmönnum velfarnaðar í vandasömu starfi og hvet þá til þess að hafa í huga orð Páls Skúlasonar:

„Gagnrýnin er sú hugsun sem fellst ekki á neina skoðun eða fullyrðingu nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni“.[1]

Gagnrýnin hugsun á jafnt við um skoðanamyndun og ákvarðanatöku.

–         Steinar Harðarson, athafnarstjóri

Til baka í yfirlit