Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Katrínar Oddsdóttur við borgaralega fermingu í Háskólabíó 31. mars

Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur, hélt ræðu við borgaralega fermingu í Háskólabíó þann 31. mars 2019

Gleðilegan fermingardag!

Hvað gæti ég sagt við fermingarkrakkana í Háskólabíói sem virkilega skiptir þau máli?
Ég er búin að vera burðast með þessa spurningu eins og bakpoka sem er fullur af blautum ullarsokkum og mygluðu slátri í nokkrar vikur.
Það fyrsta sem kom til mín er bara þetta: Þið, elsku krakkar, verðið fólkið sem bjargar heiminum okkar. Kennið okkur bara hvað við þurfum að gera til að hjálpa ykkur.

En þetta er náttúrulega eins og ég sé að reyna að koma af stað einhverju hópkvíðakasti fyrir ykkur 13 ára ungmennin svo ég legg til að við bökkum aðeins og tökum smá stund í að meðtaka það hvar við erum stödd.
Hér inni eru þið um það bil 90 fermingarbörn.
Hvað þýðir það?

Jú, það þýðir að hér inni eru um það bil 900 fermingartær, 180 fermingaraugu, 90 fermingarmiltu, kannski svona 87 fermingarbotnlangar og svo um 90 sláandi fermingarhjörtu. Bu-búmm, bu-búmm, bu-búmm. Heyrist þegar þessi 90 fermingarhjörtu slá.

Þetta leiðir að næstu pælingu minni sem er hvað það er í raun merkilegt að við sem erum hér inni séum öll lifandi, akkúrat núna. Öll okkar ævi er bara eins og einn fingrasmellur í heimssögunni, og hér erum við saman komin í þessum harmonikkulaga- bíósal í vesturbæ Reykjavíkur sem er höfuðborgin á lítilli eldfjallaeyju sem kallast Ísland sem er nyrst á fagurbláum hnetti sem heitir Jörðin sem er bara pínkulítið sandkorn á þeirri óendanlegu strönd sem sólkerfið okkar er.

Hér erum við samt öll saman akkúrat í dag – þið til að fermast og við til að fagna.

Til þess að við getum gert þessa athöfn saman þurfum við að stilla okkur saman.

Ég legg því til að við segjum í smá stund bless við allt gjafa-kransaköku-instagram-pizzasnúðs-stress-ruglið (jú, þetta er víst orð).
Pælum í því af hverju við erum öll hér. Jú, vegna þess að hér inni eru um 90 manneskjur sem eru mitt á milli þess að vera börn og fullorðin og eiga eftir að gera stórkostlega hluti í framtíðinni ef bara við hjálpumst öll að við að hlusta á þau og á hvert annað.
Það sem er svo fallegt við þessa samkomu er að hér tengjast allir á einhvern hátt. Það er örugglega margt af fólkinu sem þykir vænst um ykkur sitjandi þarna úti í salnum. Jafnvel þótt fullorðnir séu auðvitað misklikkaðir upp til hópa og alls ekki allir góðir í að sýna væntumþykju þá er það nú samt þannig að þessi bíósalur er stútfullur af ást.
Ef við þegjum núna í nokkrar sekúndur munu öll hjörtun hérna inni halda áfram að slá, nokkurn veginn í takt, á meðan. Hugsið um fólkið ykkar sem eru hér inni og pælið í því að inn í þeim er rauður dæluvöðvi sem kreppist saman og sundur til skiptis til að pumpa blóðinu um líkama þessarar manneskju svo hún haldi áfram að lifa. Kannski er þetta hjartavöðvinn í uppáhaldsmanneskjunni þinni í heiminum sem er að slá. Á sama tíma slær svo þitt hjarta. Þetta er í raun geggjað.

Notum því tækifærið og eyðum svona 10 sekúntum af þeim tíma sem ég fæ hér til þess að loka augunum og hugsa um þá sem eru í salnum sem okkur þykir vænt um og sendum þeim fallegar hugsanir og biðjum alheiminn að sjá til þess að þeim líði sem oftast vel.
….

En nú er þessi hippalegi jógapartur ræðunnar minnar líka á enda og nú ætla ég vinda mér í alvöru lífsins. #realtalk.

Það fyrsta sem ég vil segja er þetta: Fullorðna fólkið í lífum ykkar, sem er að segja ykkur hvernig þið eigið að vera og verða, hefur ekki hugmynd um hvernig heimurinn verður þegar þið verðir fullorðin, einfaldlega vegna þess að hann breytist svo hratt núna. Það eru því yfirgnæfandi líkur á því að við getum lært meira af ykkur en þið af okkur varðandi mjög, mjög marga hluti.

Vinir mínir sem eiga unglinga voru nett brjálaðir yfir að ég ætlaði að segja þetta hér í dag, en ég segi þetta nú samt: Fullorðnir hafa sjaldan vitað minna um hvernig heimur ykkar barnanna verður en akkúrat núna. Takið því þess vegna bara mátulega alvarlega þegar fullorðnir þykjast hafa svörin við öllu. Við mannkynið lifum á svo ótrúlega miklum breytingartímum nákvæmlega núna að það er alls ekki víst að fullorðnir viti betur en þið sjálf hvað er og verður best fyrir ykkur. Þið megið þess vegna vera gagnrýnin. Reyndar verðið þið að vera það.
Mitt ráð er því: hlustið á fullorðna en kennið þeim líka. Finnið leiðir til að láta þau hlusta á ykkur. Þið getið til dæmis æft bæði ykkur og þau í að beita því sem kallað er “virk hlustun” en hún felst í því að raunverulega hlusta á það sem önnur manneskja hefur að segja án þess að reyna að ákveða hvað við ætlum sjálf að segja næst. Þetta er miklu erfiðara en það hljómar. En þetta er líka mikil list sem gerir ykkur að betri manneskjum ef þið náið tökum á þessu.

En aftur að heiminum okkar… Svona er staðan: Umhverfismálin, í bland við misskiptingu og græðgisvæðingu kapítalismans í bland við tæknibyltinguna sem er handan við hornið munu breyta öllu í lífi mannkyns. Þetta eru ekki eðlilegar hægfara breytingar (eins og þegar ég þurfti að færa mig af ritvél á tölvu) heldur einhvers konar stökkbreytingar. Þið munuð þurfa að læra að lifa af í heimi sem er sennilega gjörólíkur þessum sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Við vitum til dæmis ekki hvort þið verðið á vinnumarkaðnum þegar þið verðið fullorðin. Svo næst þegar einhver spyr ykkur hvað ykkur langi að gera þegar þið verðið “stór”, gætuð þið þess vegna svarað: “Heimurinn er í svo hraðri þróun að það er engin leið fyrir hvorki mig né þig að gera okkur grein fyrir hvað verður í boði fyrir mig að fást við þegar ég verð stór. En fyrst þú spyrð, þá leyfi ég mér að spyrja til baka: hvernig hyggst þú takast á við þær samfélagsbreytingar sem eru fyrirsjáanlegar á næstu árum?”

Þessar alheimsbreytingar hljóma auðvitað hræðilega flóknar og skerý en sem betur fer eru til gildi sem eru nokkurs konar töfrabrögð sem virka alltaf, líka þegar heimurinn breytist hratt. Þau eru eins og bestu vopnin í tölvuleiknum eða dulmáðskóðinn í glæpasögunni. Gildin eru til vegna þess að þúsundir kynslóða af unglingum komu á undan ykkur, breyttust svo í fullorðið fólk eins og þið munuð gera. Fólk sem lærði af reynslunni og gat þannig komist að því hvað virkar og hvað virkar ekki í samskiptum mannanna. Ég trúi því einlæglega að þessi gildi úreldist ekki heldur séu þau einmitt núna mikilvægasta haldreipið fyrir fólk sem býr í heimi sem tekur svo hröðum umbreytingum.

Nú ætla ég að buna út úr mér gildum sem eru þessi töfraorð sem ég held að þið þurfið að búa yfir í framtíðinni. Ég veit hvað það er erfitt að halda athygli í svona ræðum og til þess að allir muni hvaða orð ég er að tala um ætla ég að biðja alla hér inni að endurtaka orðin þegar ég gef þetta merki “MERKI”.

Fyrsta orðið sem ég ætla að biðja ykkur öll að endurtaka er: “hugrekki”. Nú endurtakið þið öll saman: Hugrekki.
Hugrekki er flókið fyrirbæri vegna þess að við getum því miður ekki bara ákveðið að við séum hugrökk. Staðreyndin er sú, að við verðum að VERA hugrökk einu sinni til að geta orðið það aftur. Þið krakkarnir eruð til dæmis að sýna hugrekki í verki með því að labba út úr tímum til að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum og með því að reyna að stoppa brottvísun afgönsku skólasystur ykkar í Hagaskóla.
Það þarf hugrekki til að hugsa út fyrir boxið og enn meira hugrekki til að skora gömul og úreld kerfi á hólm.

Nú hafa foreldrar ykkar eflaust eytt um það bil 13 árum í að kenna ykkur að vera ekki óþekk. Gott og vel. En það er til góð tegund af óþekkt sem heitir borgaraleg óhlýðni og felst í því að nota sniðugar en hættulausar (!) aðferðir sem eru á jaðri þess að vera leyfilegar til að vekja athygli á hlutum sem verður að breyta. Því segi ég við ykkur: endilega verið hlýðin á heimilum ykkar (svona innan skynsamlegra marka) en haldið áfram að vera borgaralega óhlýðin í samfélaginu því við verðum að ná stórum breytingum á heiminum strax og við óvanalegar aðstæður þarf að beita óvenjulegum aðferðum.

Það verður hlustað á ykkur, ef þið haldið áfram, því það getur enginn mótmælt þeirri staðreynd að þið eruð framtíðin! Verið áfram hugrökk kæru fermingarkrakkar, gangið lengra og reynið á mörkin – en verið alltaf góð við aðra á þessari vegferð.

Þetta leiðir einmitt mig að næsta töfraorði úr gildapakkanum sem ég bið ykkur að endurtaka þegar ég gef merkið. Orðið er samkennd. Má ég heyra: Samkennd.

Pælið í því í smá stund hvað það er alltaf mikil áhersla lögð á samkeppni. Þið eruð búin að vera í skólakerfinu í mörg ár og þar eru einkunnir sem eiga að gefa til kynna hversu góð þið eruð í einhverju miðað við hina í bekknum. Svo eigið þið að halda áfram að keppa hvort við annað út í hið óendanlega í gegnum klæðnað, like, vinafjölda, íþróttir alls kyns aðrar leiðir sem samfélagið er búið að hanna. Samkeppnin getur verið góð því hún eykur stundum metnað og áhuga. En hvað ef ykkur langar ekkert til að keppa endalaust hvort við annað? Hvað ef ykkur langar meira til að sameinast?

Það er ótrúlega lítill munur á orðunum samkeppni og samkennd. Stundum finnst mér gert lítið úr samkennd en allt of mikið úr samkeppni. Eins og lífið sé bara einhver keppni í því hver á mest af hlutum þegar hann drepst. Það er fáranlegt. En við höfum val. “Bókinni um veginn” er dásamlegt rit um lífið eftir kínverska heimspekinginn Lao-Tse. Í bókinni er fangaður einfaldleiki þess sem felst í að hætta að keppa, með eftirfarandi hætti: “Það sigrar enginn þann sem ekki keppir.”

Hamingjan felst nefnilega ekki í því að sigra annað fólk heldur í því að tengjast öðru fólki. Orðið samkennd þýðir í raun bara hversu góður þú ert í því að setja þig í spor annarra og leyfa þér að finna til með þeirri manneskju. Það er staðreynd að á þessum hnetti er til nóg af mat og gæðum til þess að allar manneskjur og dýr myndu þrífast vel. Samt er staðreyndin sú að risavaxinn hluti af mannkyni sveltur og býr við fátæktarmörk en pinkulítill hluti af mannfólkinu er búinn að safna sturluðum summum af peningum og annars konar gæðum. Sumar dýrategundir eru að deyja út vegna þess að við förum ekki nógu vel með náttúruna. Þetta er fullkomlega galið og byggir í grunninn á því að við búum við skort á samkennd en ofurtrú á samkeppni.

Fyrirgefiði að ég sé aftur að með svona vondar fréttir á fermingardeginum ykkar. En þar sem skugginn er dýpstur er ljósið skærast og það eru auðvitað alltaf góðar fréttir líka. Góðu fréttirnar eru þær að það er hægt að æfa sig í samkennd. Við höfum hana nefnilega öll inní okkur og getum ræktað hana eins og hvaða plöntu sem er með því að næra hana. Nú munuð þið til dæmis flest fá gjafir í dag. Hvað ef þið ákveðið að bera ekki saman það sem þið fáið við það sem vinir ykkar fá? Hvað ef þið ákveðið að gefa eitthvað af gjöfunum ykkar til annarra sem hafa meiri not fyrir þær en þið? Þetta gæti verið ágætis æfing í samkennd og þá munuð þið kannski finna hvað það er “næs að vera næs”.

Að lokum vil ég segja þetta um samkenndina. Það er skemmtilegt að nota samkennd á þá sem ykkur finnst eiga hana síst skilið. Ef foreldrar ykkar eru til dæmis að eiga vondan dag og taka það út á ykkur með pirringi getið þið prófað að knúsa þau í staðinn fyrir að fara inn í pirringinn þeirra. Þetta er mjög afvopnandi aðferð, þótt hún sé kannski pinku erfið fyrir ykkur, því hún leiðir gjarnan til þess að öllum líður betur. Ég veit að þið hafið upplifað alls kyns erfiðar tilfinningar eins og kvíða, þunglyndi, reiði, öfund og að vera útundan sem er mjög sárt– en þið eruð alls ekki ein. Við upplifum þetta öll á einhverjum tímapunktum og svarið er alltaf það sama: Meiri ást og meiri nánd. Þið þurfið því líka að æfa ykkur í að sýna ykkur sjálfum samkennd.

Hann Albert Einstein var ekki sérstaklega heimskur maður krakkar, en hann náði að orða það sem skiptir máli í lífinu mjög vel. Hann taldi að hamingjan sjálf ætti ekki að vera markmiðið heldur ætti fólk að nýta ákveðin gildi sem leiðarljós. Hann sagði: “Hugsjónirnar sem hafa lýst mína leið, og gefið mér aftur og aftur hugrekki til að sjá lífið í glaðlegu ljósi, hafa verið: gæska, fegurð og sannleikur”.

Gæskan, fegurðinn og sannleikurinn. Allt þetta er innbyggt inn í ykkur öll sem sitjið hér í dag. Þið þurfið bara að ákveða að dveljast í þessu. Að velja þessar leiðir frekar en aðrar aftur og aftur í lífinu og þá eflast þessar hliðar ykkar. Með öðrum orðum vera góð, elta fegurðina og segja sannleikann. Hljómar kannski einfalt en þetta er í raun mökkflókið stundum, sérstaklega þegar manni líður sjálfum illa.

Þegar þið verðið orðin mjög æfð í samkenndarvöðvanum ykkar munið þið svo sjá að allt þetta “við” og “hinir” sem er sífellt verið að blaðra um er algert rugl. Hinir erum við og það er milljón sinnum meira sem sameinar okkur öll sem lifandi verur heldur en það sem sundrar okkur.

Ég hef því miður ekki endalausan tíma en mig myndi langa að standa hér í allan dag og tala við ykkur. Þetta er eitt af dýrmætustu tækifærunum sem ég hef fengið í lífinu af því ég hef svo óbildandi trú á ykkur. Á því að þið skapið þá framtíð sem ég þrái fyrir mig og fyrir mín börn sem eru miklu yngri en þið.
Ég verð samt bráðum að hætta.

Ég vil biðja um eitt svona endurtekningarorð í viðbót. Er salurinn tilbúinn?
Nú segjum við saman orðið “sköpunargleði”. Einn, tveir og: Sköpunargleði.

Ég hlustaði á áhugaverðan fyrirlestur um daginn sem Magga Pála flutti fyrir eitthvað fólk sem er “aðal” í viðskiptalífinu. Hún er konan sem stofnaði Hjallastefnuna sem er skólastefna sem snýst um að auka jafnrétti, leiðtogahæfileika og virðingu með því að kenna krökkum þessa eiginleika alveg frá leikskólaaldri.

Magga Pála benti á að miðað við það hvernig heimurinn er að breytast, mun það ekki verða fólkið með bestu einkunnirnar sem farnast best í lífinu í framtíðinni. Þeir eiginleikar sem mestu máli skipta fyrir ykkur þegar þið verðið fullorðin verða: Sköpun og hugmyndaauðgi; seigla og sjálfstraust; og samvinna og samskipti.

Sköpunargleði er svo geggjað fyrirbæri. Það er manneskjunni eðlislægt að skapa, en í gegnum skólakerfið erum við frekar að læra eitthvað utan að sem hægt er að gúgla frekar en að æfa okkur í að skapa. Það er glatað og þið eigið ekki að þurfa að sætta ykkur við þetta.
Sumir halda að þeir séu ekki skapandi en það er alrangt. Eina sem þarf að hafa til að vera skapandi er forvitni og öll erum við forvitin ekki satt? Ég hef a.m.k. aldrei heyrt einhver segja “nei takk” þegar viðkomandi er spurður hvort hann vilji heyra leyndarmál.

Forvitni er eins og áttaviti inn í okkur öllum. Það sem okkur finnst forvitnilegt er eitthvað sem við ættum að eltast við. Auðvitað á þetta ekki við um hluti sem eru hættulegir fyrir sálina í okkur eins og dóp, ofbeldi og klám og slíkt, en þetta á klárlega við um flest annað eins og hvers kyns upplýsingar. Þið eigið því að æfa ykkur í að spóla til baka um áratug og verða aftur 3ja ára og spyrja endalaust “af hverju?” Það er ekki hægt að breyta heiminum ef við trúum því að hann sé eins og hann eigi að vera. Um þessar mundir erum við öll að komast að því að það þarf að breyta heiminum okkar.

llur heimurinn er samsettur úr mynstrum. Það sem við erum (líkamar okkar) er mynstur og það sem við gerum (hegðunin okkar) er það líka. Til þess að geta breytt sameiginlegum mynstrum samfélagsins þurfum við að spyrja milljón sinnum “af hverju?” og ef svarið er eitthvað sem okkur finnst ekki meika sens þá er næsta spurning: “hvernig getum við breytt þessu?” Þannig búum við til ný mynstur en við þurfum öll að byrja strax til að þau verði nógu öflug nógu hratt. Skapandi hugsun og listsköpun eru gríðarlega öflug vopn á þessari vegferð okkar.

Einhver bitur gamall karl sagði einu sinni “æskunni er sóað á þá ungu”. Okkur sem erum eldri finnst þetta auðvitað mikil snilld því í þessu felst að þið sem eruð yngri séuð frjáls og séuð ekki að nýta ykkur almennilega frelsið en við sem eldri erum séum einhvern veginn komin fram yfir síðasta söludag og orðið of seint fyrir okkur að hafa gaman og vera frjáls. Þetta er auðvitað fullkomið kjaftæði en sannleikskornið í þessu er það að það er mjög slæm hugmynd að fullorðnast. Maður græðir í raun ekkert á því annað en einhvern gluggapóst, skattaskýrslur og leiðindi fyrir utan að geta ráðið sér aðeins meira sjálfur. Það er hins vegar ekkert að því að eldast en þið megið ekki eldast á kostnað ykkar innri prakkara. Það er ekkert ákjósanlegt við það að vera alvarlegur og faglegur fullorðinn einstaklingur með fullt af fullorðinsábyrgð á bakinu. Það hins vegar mjög ákjósanlegt að vera frjáls og glöð eldri manneskja.

Við fæðumst frjáls, þið eruð frjáls og ég óska þess innilega að þið haldið eins fast og þið getið getið í ykkar frelsi. Ekki láta plata ykkur inn í heim þar sem það þykir stöðutákn að vinna svo mikið að maður fái að lokum kulnun. Í því felst ekki frelsi heldur þrældómur. Farið ekki í praktíska námið sem einhver segir ykkur að fara í heldur leitið þangað sem ykkur langar. Eltið hjartað ykkar og hlustið á innsæið ykkar því sumt vitið þið einfaldega best sjálf.

Og þá er komið að mínu lokaráði til ykkar elsku fermingarkrakkar.

Ekki bíða eftir að verða einhver. Þið eruð nú þegar þið og þið eruð alveg nóg eins og þið eruð. Verið þið sjálf. Það getur vel verið að ykkur líði núna eins og þið hafið ekki hugmynd um hver þessi “þið sjálf” raunverulega séu. Þá er gott að muna að við erum bara það sem við gerum og segjum. Reynið að breyta rétt og þá fattið þið smám saman hver þið eruð og hvernig þið viljið vera og viljið ekki vera.
Bara það að þið séuð hér í dag að fermast borgaralega gefur vísbendingu um það að þið séuð börnin sem hafa stigið út fyrir þægindarammann. Að þið séuð krakkarnir sem þorið, viljið og getið tekið afstöðu gegn því hefðbundna.

Það að taka afstöðu er ómetanlegur eiginleiki, og mig langar að þakka ykkur fyrir að hafa gert það. Stundum er lífið nefnilega afskaplega óréttlátt. Þá þarf að taka afstöðu gegn óréttlætinu því með því að taka enga afstöðu og líta bara í hina áttina þegar maður verður vitni af óréttlæti er maður oft að taka óbeint afstöðu með þeim sem óréttlætinu beitir.

Ég sagði í byrjun að mig langaði mest til að segja ykkur að þið verðið fólkið sem bjargar heiminum og ég segi það hér aftur.

Náttúran getur ekki lengur tekið við þeim lifnaðarháttum sem við manneskjurnar höfum tamið okkur. Við verðum að muna að það er jörðin sem á okkur en ekki við hana. Náttúran mun nefnilega lifa okkur af. Hún þarf ekki á okkur að halda. Það erum við sem erum háð henni.

Stóra spurningin er því þessi: Ætlum við að tortíma okkur sjálfum? Eða ætlum við að grípa í taumana og blíðka náttúruna og fá fyrir vikið kannski að lifa hér áfram sem mannkyn þar sem grasið grær, dýrin lifa, vatnið rennur og sólin kemur upp á morgnana?

Grípið til aðgerða – því byltingin er rétt að byrja!
Framtíðin er í ykkar höndum kæru fermingarbörn og ég hreinlega veit að hún verður ægifögur.

Til baka í yfirlit