Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Hvers vegna borgaraleg ferming?

Um þessar mundir taka ungmenni um allt land ákvörðun um hvort og þá hvernig þau hyggjast fermast næsta vor. Fyrir flesta er þessi ákvörðun auðveld. Fyrir aðra væri nær að segja að ekki væri um yfirvegaða ákvörðun að ræða heldur réði hefð, vani eða óskir fjölskyldunnar ferðinni. En fyrir ákveðinn hóp má búast við að hér sé um að ræða allmikla ákvörðun og þungbært mál sem gefur tilefni til mikilla vangaveltna. Það er síður en svo auðvelt að þora að leggja á aðrar brautir en þær hefðbundnu þegar að fermingunni kemur. Flestir fermast kirkjulega og þjóðkirkjan á víða greiðan aðgang að grunnskólum landsins þrátt fyrir títtnefnt „trúfrelsi“ í landinu.


Kirkjuleg ferming eða borgaraleg?
Frá árinu 1989 hefur borgaraleg ferming verið skipulögð af Siðmennt og staðið þeim ungmennum til boða sem ekki vilja af einhverjum ástæðum fermast kirkjulega. Á síðasta ári fermdust alls 73 ungmenni borgaralega víðsvegar að af landinu. Ég hef ávallt spurt þátttakendurna á fermingarnámskeiðunum fyrir ástæðu þess að velja borgaralega fermingu. Ástæðurnar eru margar og mismunandi. Sumir treysta sér ekki til að strengja trúarheit að svo stöddu, aðrir tilheyra trúfélögum þar sem ekki er fermt og enn aðrir segjast ekki trúa á guð. Svo er ávallt ákveðinn fjöldi sem tilheyrir þjóðkirkjunni en telja fermingarnámskeið Siðmenntar höfða meira til sín en kirkjuleg fermingarnámskeið. Það er því óhætt að fullyrða að með borgarlegri fermingu sé lagður ákveðinn grunnur að fjölmenningarlegu samfélagi á Íslandi.

Orðið ferming
Oft er því haldið fram að ekki ætti að nota orðið ferming í samhenginu „borgaraleg ferming“. Þetta fyrirbæri kallast þó borgaraleg ferming allstaðar þar sem það er til. Íslenska orðið „ferming“ er dregið af latneska orðinu „confirmare“ sem þýðir „að styðja“ eða „að styrkjast“. Í kirkjulegri fermingu er „confirmare“ skilið sem „staðfesting“ þar sem ungmenni staðfesta trúarheit. Með borgaralegri fermingu er ekki verið að staðfesta nokkurn skapaðan hlut heldur eru þátttakendur að styrkjast í þeirri ákvörðun að verða ábyrgir borgarar. Í alþjóðlegum orðabókum er orðið „confirmare“ skilgreint á sjö mismunandi vegu og er trúarleg skilgreining ekki sú sem fyrst er upp talin.

Það er dýrmætt að eiga val
Öllum mönnum er dýrmætt að eiga val og geta spilað úr sínum lífskostum. Valkostum ungs fólks hefur vissulega fjölgað mjög á undanförnum áratugum og er það vel. Mest er þó um það vert að val einstaklinganna sé virt og viðurkennt. Sumum hentar kirkjuleg ferming á meðan öðrum hentar borgaraleg ferming. Ætti ekki nokkrum einasta manni að finnast það undarlegt þar sem samfélag okkar verður sífellt fjölbreyttara á öllum sviðum.

Þessi grein byrtist áður í Morgunblaðinu laugardaginn 20-10-2001

Jóhann Björnsson

Til baka í yfirlit