Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Sigurbjörns Árna við Borgaralega fermingu á Húsavík 2018

Dr. Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Skólameistari á Laugum, flutti ávarp við Borgarlega fermingu Siðmenntar sem fram fór á Húsavík 16. júní 2018.

Komið þið sæl og til hamingju með daginn

Ég er hér staddur til að segja nokkur orð til ykkar fermingarbarnanna. Kristrún frá Siðmennt var sem sé að leita að manneskju til að tala við borgaralega fermingu, manneskju sem þau teldu að hefði góð og heilbrigð skilaboð til ungmenna. Jæja, þetta verður eitthvað hugsaði ég, klárlega ekki rétti maðurinn í starfið. En svo flaug mér í hug að það skipti kannski ekki miklu máli hvað ég segði því væntanlega færi flest af því fyrir ofan garð og neðan hjá ykkur. Alla vega er það reynsla mín þegar ég er að reyna að segja mínum börnum eitthvað. T.d. er elsti sonur minn heima og hann á að taka úr uppþvottavélinni og slá blettinn meðan ég er hér en ég efast um að það gerist. Þannig að kampakátur þakkaði ég fyrir heiðurinn sem fylgir því að fá að ávarpa ykkur og hugsaði eins og sönnum Íslendingi sæmir, þetta reddast. Fyrir þremur dögum kom svo babb í bátinn, Kristrún vildi fá ræðuna mína til að birta á heimasíðu Siðmenntar. Þar fór í verra því þá geta allir lesið hversu miður gáfuleg mín skilaboð til ykkar eru. Ég sagði eins og satt var að ég skrifaði eiginlega aldrei ræður, hripaði í mesta lagi minnispunkta á gamalt gluggaumslag og talaði út frá þeim. Það gerir ekkert til sagði Kristrún, við getum þá bara tekið þig upp í staðinn. Þá ákvað ég nú að brjóta regluna mína og skrifa ræðu því að þó að rauðu buxurnar mínar hefðu tekið sig vel út á myndbandinu þá heg ég eins og þið sjáið andlit fyrir útvarp.

Ferming þýðir staðfesting. Þau sem fermast í kirkjum eru að staðfesta skírnarheitið sitt. Hvað eruð þá þið sem fermist borgaralega að staðfesta. Jú þið eruð að staðfesta þátttöku ykkar í lýðræðislegu samfélagi 21. aldarinnar. Þið staðfestið að þið verðið góðir og gegnir borgarar með þeim skyldum sem því fylgja. Báðir hóparnir eru svo að staðfesta að þeir vilji gjarnan fá fermingaveislur og fermingargjafir. Og ég vona að allir sem eru hér viðstaddir hafi gert sér grein fyrir því.

Nú teljist þið komin í fullorðinna tölu. Það þýðir ekki að þið séuð orðin fullorðin en þið munið frá og með þessum degi hafa meira og meira yfir ykkur sjálfum að segja. Að sjálfsögðu munu foreldrar ykkar reyna að hafa vit fyrir ykkur og munu halda áfram að ráðleggja ykkur en smán saman farið þið að ráða meiru um hvað þið gerið, hvert þið farið og hvort þið ætlið að fara eftir ráðleggingum foreldranna. Við sem eldri erum teljum okkur alltaf vita best og viljum miðla af reynslu okkar og þannig hugsanlega forða ykkur frá því að gera mistök. Á endanum verður það nú svo að það eruð þið sem vitið hvað er best fyrir ykkur og þó svo að sá tímapunktur sé ekki runninn upp í dag þá kemur hann engu að síður á næstu 4-6 árum. Þegar ég ræði við og ráðlegg nemendum mínum þá eru þær ráðleggingar allt öðru vísi fyrir 18 ára ungling heldur en 16 ára ungling. 18 ára ungur maður er oft búinn að átta sig á því að það er best fyrir hann að verða kennari eða fara á sjóinn þó svo pabbi hans telji best fyrir hann að verða læknir. Þegar upp er staðið í lífinu er það enginn annar en þið sjálf sem ákveðið hvað er best fyrir ykkur en það þýðir líka að þið þurfið að taka ábyrgð á ykkar vali og þeim vandamálum sem því fylgja. Munið svo að vera ekki alltaf að dröslast með öll vandamálin með ykkur heldur horfist í augu við þau og leysið þau. Sá sem horfist ekki í augu við vandamálin sín eða feisar þau ekki eins og þið segir, mun ekki losna við þau með því að flytja á annan stað, fara í nýjan skóla eða skipta um umhverfi. Vandamálin munu fylgja.

Það var eitt sinn maður á svipuðum aldri og ég, sem sé gamall karl, sem var vel stæður og giftur konu á sama aldri. Grái fiðringurinn hljóp í hann og hann fór að halda framhjá og hjónabandið endaði í skilnaði. Maðurinn fór illa með konuna í skilnaðinum og náði að sölsa undir sig megnið af sameiginlegum eignum hjónanna þ.á.m. húsið. Það síðasta sem konan gerði hins vegar áður en hún flutti út var að taka tappana úr endum gardínustanganna, sem voru holar að innan, og tróð upp í þær rækjum og setti svo tappana í aftur. Rækjurnar fóru fljótlega að úldna og því fylgdi mikil lykt. Maðurinn vissi ekki hvað var í gangi og lét hreinsa, eitra og svo mála veggina en alveg sama hvað hann gerði, lyktin hvarf ekki. Að lokum gafst hann upp og setti húsið á sölu en lyktin var svo vond að hann fékk bara helminginn af því sem hann vildi fá fyrir húsið. Og hver haldið þið að hafi keypt af honum? Jú enginn annar en fyrrverandi konan hans. Maðurinn tók því allt dótið sitt úr húsinu og það síðasta sem hann tók með sér voru gardínustangirnar … talandi um að flytja vandamálið með sér.

Það er mikilvægt að þið gerið ykkur grein fyrir því að viðhorf er val. Þið getið valið um það hvaða viðhorf þið hafið til hlutanna, hvort glasið sé hálffullt eða hálftómt. Það er mun auðveldara að komast í gegnum lífið með jákvæðu viðhorfi heldur en að vera sífellt að velta sér upp úr neikvæðu hlutunum. Það er nefninlega ótrúlega erfitt að fara á kvartbuxunum í gegnum lífið. Það er ákveðið viðhorf að mæta vel í skóla og í vinnu. Það er ákveðið viðhorf að fara eftir þeim reglum sem samfélagið setur sér hvort heldur um er að ræða reglur á heimilinu eða reglur um útivistartíma. Og það er ákveðið viðhorf að móðgast ekki, jafnvel þó tilefni sé til. Það er alltaf val að líta hlutina jákvæðum augum og í gerið það fyrir mig og alla í kringum ykkur að gera ekki hverja steinvölu sem verður á vegi ykkar á lífsleiðinni að ásteitingssteini.

Ég vil hvetja ykkur til að fara í skóla að loknum grunnskóla hvort heldur sem það er bóknám eða verknám. Nám opnar margar dyr, gefur fólki möguleika og lærið sem mest því það fjölgar möguleikunum. Ég er búinn að fara um allan heiminn og er með fimm háskólagráður en endaði engu að síður heima á Laugum. En það var val, ég gat endað annars staðar. Lærið svo það sem ykkur langar til að vinna við því þannig munið þið ná meiri árangri í starfi.

Munið að þið þurfið og eigið að standa með sjálfum ykkur en jafnframt getið þið verið ákveðin og staðið með sjálfum ykkur án þess að vera með fyrirgang, frekju og dónaskap. Það kostar nefnilega ekkert að vera vingjarnlegur eða næs eins og þið segið. Þið tapið heldur aldrei á því að gera fólki greiða. Það gerir nefninlega enginn neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn. Þið munið fá alveg ótrúlegustu hluti með því að biðja fallega um þá. Og til langs tíma munið þið ná lengra með vinsemd og með því að ganga á undan með góðu fordæmi heldur en með frekju og látum.

Lærið að temja ykkur auðmýkt og kurteisi. Verið ánægð með það sem þið gerið vel og þakkið gott hrós og lærið að taka hrósi fyrir vel unnin störf. Að taka hrósi tók mig langan tíma að læra þrátt fyrir að vera verulega montinn að eðlisfari enda blanda af Mývetningi og Skagfirðingi. Gleymið ekki þeim sem eru í kringum ykkur, þeim sem ruddu brautina né á hverra herðum þið standið. Þakkið því fyrir það sem gert er fyrir ykkur og munið að það er ekki sjálfsagt að koma að hreinu húsi, heitum mat og hreinum þvotti. Ekki gera öðrum erfiðara fyrir að vinna störf sín heldur hjálpið þeim frekar og berið virðingu fyrir störfum þeirra. Munið að þið eruð ekki yfir það hafin að vinna nokkurt starf, þ.e. skítverkin tilheyra ekki endilega öðrum en ykkur. Alveg sama hvað þið náið ykkur margar doktorsgráður þá eruð þið aldrei of góð til að moka skít. Ef þið viljið bæta heiminn byrjið þá á miðunkti hans – ykkur sjálfum.

Þið munið gera mistök og þeir sem viðurkenna mistök sín eru meiri menn fyrir vikið. Að viðurkenna mistök er ekki veikleikamerki heldur þvert á móti merki um styrk en jafnframt auðmýkt. Ekki þræta fyrir mistök, hvað þá að kenna öðrum um þau. Sá sem fremur glæpinn þarf að vera tilbúinn að afplána eða eins og enskumælandi þjóðir segja, „don´t do the crime if you can´t do the time“. Sýnið aðgát í nærveru sálar og biðjist afsökunar verði ykkur á, það gerir mjög mikið fyrir þann á hvers hlut þið hafið gert auk þess sem það er ekki hægt að vera reiður þeim sem viðurkennir mistök sín og biðst velvirðingar á þeim. Ég hvet ykkur til að setja markið hátt og munið að enginn getur tapað nema sá sem á möguleika á að vinna en jafnframt að sá sem ekki vonast eftir sigri hefur þegar tapað. Ekki fara í gegnum lífið segjandi ég hefði getað þetta eða hitt. Leggið frekar undir og athugið hvort þið getið það. Í flestum tilfellum tekst það þó svo í sumum tilfellum gerist það ekki en þá þurfið þið ekki að velta fyrir ykkur sytstrunum ef og hefði.

Á tímamótum standa stúlka og drengur.

Sem staðfest eru í fullorðinna tölu.

Því lífið heldur áfram eins og gengur

og engin leið að vera krakki lengur.

En munið, sálin aldrei er til sölu

Kannski seinna kíkið þið til baka

er klukka lífsins lengi hefur tifað.

Ef eigi hafið unnið neitt til saka

og ekkert gert sem þarf til baka að taka.

Þá til góðs er lífi ykkar lifað.

Ég held að nóg sé komið af föðurlegum ráðleggingum frá mér til ykkar. Ég er ánægður með að hafa fengið að ávarpa ykkur og um leið og ég kveð og þakka fyrir mig minni ég ykkur á að taka ekki rækjurnar með ykkur.

Dr. Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Skólameistari á Laugum

Til baka í yfirlit