Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Bjarna Jónssonar á málþingi um vinaleið 1. mars 2007

Eftirfarandi er ræða sem Bjarni Jónsson stjórnarmaður í Siðmennt flutti á málþingi Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ, um vinaleið sem haldið var í Tónlistarskóla Garðabæjar 1. mars. Ræðumenn voru þrír, Bjarni fyrir hönd Siðmenntar, og Jóna Hrönn Bolladóttir og Hans Guðberg Alfreðsson fyrir hönd kirkjunnar. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar sá um fundarstjórn.


_________________________

Ágætu áheyrendur!

Ég vil byrja á því að þakka ungum sjálfstæðismönnum í Garðabæ fyrir að standa svo ágætlega að þessum fundi og jafnframt fyrir að gefa Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi, tækifæri til þess að kynna hér þá gagnrýni sem félagið hefur sett fram á Vinaleið Þjóðkirkjunnar.

Ég ætla mér að byrja á því að fara yfir það hvað Vinaleið er og eru heimildir mínar úr fórum Þjóðkirkjunnar. Því ættu þið ekki að velkjast í vafa um raunverulegt eðli Vinaleiðar. Frá því hugrakt foreldri hér í Garðabæ kvartaði undan trúboði kirkjunnar í formi Vinaleiðar hefur kirkjan orðið margsaga um eðli hennar.

Að hluta til hefur kirkjan tekið mark á gagnrýninni og breytt þeim reglum sem settar voru fram í upphafi þar sem þær hreinlega stönguðust á við viðtekna venju um störf fagaðila með skjólstæðingum sínum. Kirkjan hefur farið nokkra hringi til þess að aðlaga trúboð sitt þeirri réttmætu gagnrýni sem fram hefur komið.

Sérkennilegast hefur þó verið að fylgjast með því þegar sumir kirkjunnar menn hafa reynt að neita því staðfastlega að um trúboð sé að ræða. Minnir það margt um það þegar ónefndur lærisveinn Jesú afneitaði honum staðfastlega í þrígang.

Ég ætla því að byrja á að varpa fram staðhæfingum kirkjunnar sjálfrar um Vinaleiðina.

Hvað er Vinaleið?
Á vefsíðu Þjóðkirkjunnar segir eftirfarandi um Vinaleið: Vinaleið er kristileg sálgæsla og forvarnarstarf sem felst í stuðningi við nemendur, foreldra og starfsfólk skólanna. 1

Á sama stað segir:
Oft er hlutverki og starfsemi kirkjunnar skipt í fjórar megingreinar:

1. Helgihald, boðun orðsins, tilbeiðsla, bænalíf
2. Fræðsla, trúboð
3. Kærleiksþjónusta, líknar- og hjálparstarf
4. Stjórnun, samskipti, starfsmannamál, fjármál…..

Um hlutverk djákna í opinberum skólum segir á vef kirkjunnar:

– djákni er fulltrúi þjóðkirkjunnar og kristinnar trúar
– djákni veitir kristilega sálgæslu og stuðning
– djákni er tengiliður milli skóla, heimila og kirkju
– djákni hefur bæna- og helgistundir fyrir nemendur og starfsfólk skólanna bæði í skólunum og í kirkjum safnaðarins
– djákni aðstoðar kennara og starfsfólk að taka á erfiðum málum og undirbúa þau.
– djákni veitir áfallahjálp
– djákni leiðbeinir inni í bekkjum s.s. um góðan bekkjaranda, góða siði tillitsemi, umburðarlyndi, ræðir við börnin um kristin gildi, lífið og dauðann, svarar spurningum sem upp koma við andlát aðstandenda, stöðvar einelti o.s.fr.
– djákni aðstoðar kennara við sérstök verkefni í kristnum fræðum s.s. kynning á kirkjuhúsinu sjálfu og kirkjulegum munum.
2

Samkvæmt erindinu “Formleg staða sálgæslunnar“ eftir Þorvald Karl Helgason, biskupsritara, er morgunljóst að sálgæsla felur í sér kristilegt trúboð. En í erindinu segir m.a.:

“Markmið sálgæslunnar er ekki hvað síst sjáanlegt í í skriftum hjá prestinum sem boðar fyrirgefningu syndanna í Jesú nafni. Þar er lagður grunnur að endurnýjun í lífi einstaklingsins er leiðir til betra lífs, sátt við Guð og heim.”

“Sálgæsla er það að veita umhyggju, stuðning, hlustun, skilning, á kristnum forsendum.”

“Sálgæslan er ein af meginstoðum kirkjulífsins, sá andi sem svífur yfir vötnunum og hefur áhrif bæði á tilbeiðslu, prédikun, boðun og fræðslu. Hún hefur það víðtæka markmið að veita manneskju leiðsögn á vegi trúarþroska og trúarstyrkingar, í ljósi sögu manneskjunnar og á lífsgöngu hennar, sérstaklega hvað varðar spurninguna um tilgang lífs og dauða, spurningar er snerta innstu þræði mannlífsins.”

Og að lokum er enn vitnað í biskupsritara:

“Í kristinni sálgæslu er umfram allt verið að auka sem mest tengingu við grunn kristinnar trúar, vísa í táknmál trúarinnar, og ekki hvað síst með skírskotun í hjálpræðissöguna, til lífs, dauða og upprisu Krists.” 3

Á grundvelli þeirra gagna sem vitnað er í hér að ofan getur engum dulist að stefna kirkjunnar er að sækja sér sálir meðal óharðnaðra skólabarna með trúboði. Engum dylst heldur eiginlegt hlutverk og starf djákna og presta í skólum – nefnilega trúboð. Þessu hefur Siðmennt mótmælir harðlega sem trúboði innan veggja opinberra stofnanna. Opinberir skólar eiga að vera hlutlausar menntastofnanir þar sem börn eru vernduð fyrir hvers kyns áróðri.

Við höfum verið spurð að því hvort t.d. starfssemi íþróttafélaga í skólum væri ekki af sama meiði og ætti einnig að banna. Því er til að svara að svo er ekki og erum við kannski komin að einu af grundvallaratriðunum. Siðmennt leggst gegn starfssemi í skólum sem byggir á gildishlöðnum grundvallaratriðum. Til slíkrar starfssemi teljast trúarhreyfingar og stjórnmálaflokkar en hvoru tveggja byggja á ákveðnum gildum.

Við höfum reynt að tengja umræðuna um trúboð í skólum við starfssemi stjórnmálaflokka og beðið fólk um að setja t.d. Sjálfstæðisflokkinn eða Samfylkinguna í stað kirkjunnar. Er það æskilegt að tekin verði upp einhliða kennsla í skólum um grunngildi þessara flokka? Þá meina ég ekki í kennslu í einum áfanga í félagsfræði í 10. bekk heldur að slík fræðsla hefjist þegar í leikskólum? Ég trúi því að það séu afar fáir sem mæla slíku bót, með fullri virðingu fyrir gildum og starfi ofannefndra flokka.

Kirkjan hefur markvisst sótt með trúboð sitt í leikskóla og grunnskóla. Sérstakir starfsmenn kirkjunnar heimsækja leikskóla árið út og inn með sinn boðskap. Hluti af fermingarstarfi kirkjunnar er búið að samþætta lögbundnu starfi grunnskóla og meira að segja er hluta af lögbundnum kennslutíma ýtt til hliðar fyrir fermingarfræðslu eins trúfélags!

Siðmennt telur að trúaruppeldi barna sé einkamál hvers og eins og þau séu fyrst og síðast á ábyrgð foreldra. Foreldra geta síðan sótt sér stuðning og leiðbeiningu ef þeir það vilja hjá kirkjunni sinn á sínum forsendum.

Siðmennt telur þetta rangt og það brjóti gegn öllu velsæmi.

Fyrir nokkrum dögum var ég fulltrúi Siðmenntar á hádegisfundi í Kennaraháskóla Íslands að ræða Vinaleiðina. Ég hóf mál mitt þar á eftirfarandi fullyrðingum:

– Siðmennt er ekki á móti trúboði!

– Siðmennt er ekki á móti Vinaleið kirkjunnar!

– Siðmennt er ekki á móti kristni né öðrum trúarbrögðum!

– Siðmennt er ekki á móti trúaruppeldi!

Grundvöllur lífsgilda húmanista byggir á mannréttindayfirlýsingum Sameinuðu þjóðanna og Evrópu og er trúfrelsi eitt af grundvallaratriðunum. Siðmennt er hinsvegar á móti því þegar ofantalin starfssemi brýtur á rétti annarra. Út á þetta gengur málflutningur okkar og eru þau rök grunnur að gagnrýni okkar á, ekki bara Vinaleið heldur, alla óeðlilega starfssemi trúfélaga í opinberum skólum.

Við höfum verið sökuð um árásir á starfsmenn kirkjunnar vegna Vinaleiðar. Við höfum verið sökuð um að vilja neita börnum og unglingum um samtal við fullorðið fólk sem vill þó hlusta. Við höfum verið sökuð um að leggjast gegn uppbyggilegri starfssemi. Enn og aftur eru þetta rangindi.

Hvers vegna er Siðmennt að gagnrýna meinta uppbyggilega starfssemi Vinaleiðar?

Siðmennt heldur því fram, fullum fetum, að Vinaleið sé óviðeigandi trúboð. Það er ekki Siðmennt sem setur þann stimpil á þessa starfssemi. Kirkjan er einfær um slíkt eins og lesa má í gögnum hennar og ég las úr hér áðan. Við teljum að kirkjan brjóti fjölmörg lög og reglur og eru þessar þær helstu:

1. Kirkjan brýtur gegn trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar en þar stendur í 64. grein: Enginn má neins missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna…. Á það má benda að þetta ákvæði verndar ekki bara réttinn til að trúa heldur einnig til að trúa ekki og að hafa aðra lífsskoðun. Það er beinlínis andstætt stjórnarskránni að við opinbera skóla skuli vera starfsmenn trúfélaga.

2. Kirkjan brýtur einnig gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en í 65. grein hennar segir: Allir skulu jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, …..

3. Við teljum að þessi starfssemi geti brotið gegn ákvæðum laga um barnavernd og er þar til að taka að t.d. er ekki heimilt að senda börn til viðtala án leyfis foreldra.

4. Einnig brýtur starfssemin gegn mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna en Human-Etisk Forbund, systursamtök Siðmenntar í Noregi, hefur rekið svipað mál fyrir dómsstólum og hefur fengið álit Mannréttindanefndar SÞ um að trúarlega starfssemi samrýmist ekki skólastarfi í almennum skólum. Málið er til meðferðar í Mannréttindadómsstólnum í Strassborg og verður tekið fyrir á þessu ári.

5. Við teljum að starfssemi kirkjunnar í skólum brjóti gegn lögum um grunnskóla en þar segir: Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, trúarbragða eða fötlunar.

6. Einnig teljum við að brotið sé gegn aðalnámsskrá grunnskóla en þar segir: Mikilvægt er að skólinn sýni nærgætni og skilning þegar fjallað er um málefni sem tengjast heimilum, t.d. neyslu- og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir.

Og síðar: Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun

7. Að lokum teljum við að brotið sé gegn siðareglum kennara en í nokkrum greinum þeirra segir m.a:

2. Kennurum ber að virða réttindi nemenda og hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi, efla sjálfsmynd þeirra og sýna sérhverjum einstaklingi virðingu, áhuga og umhyggju.

3. Kennurum ber að hafa jafnrétti allra nemenda að leiðarljósi í skólastarfi.
Kennarar eiga að vinna gegn fordómum og mega ekki mismuna nemendum t.d. vegna kyns, þjóðernis eða trúarbragða.

8. Kennarar skulu virða ákvörðunarrétt forráðamanna ósjálfráða nemenda og hafa ekki samband um málefni nemanda við sérfræðinga utan viðkomandi skóla, nema slíkt sé óhjákvæmilegt til að tryggja velferð og rétt barnsins.

Ein athyglisverðustu ummæli um Vinaleiðina sem ég hef séð til þessa er tilraun biskupsins til að réttlæta hana í viðtali í þættinum Kompási um daginn. Hann sagði:

Vinaleið er nýbreytni, tilboð af hálfu kirkjunnar um sálgæslu gagnvart grunnskólabörnum, sem vel að merkja, gagnvart grunnskólabörnum sem eru í Þjóðkirkjunni.

Bíddu nú við!! Tókuð þið eftir því að hann talar um að Vinaleið sé eingöngu fyrir þau börn sem eru í Þjóðkirkjunni!! Er þetta ekki gott dæmi um mismunun? Eru þá þessi uppbyggilegu samtöl ekki ætluð börnum frá heimilum sem hafa aðrar lífsskoðanir? Það vita það allir að hvorki börn frá þeim heimilum sem t.d. byggja lífsskoðanir sínar á íslamstrú eða húmanisma mundu aldrei samþykkja slík viðtöl. Hvað yrði þá um skóla eins og t.d. Fellaskóla í Reykjavík þar sem meirihluti barna er af erlendu bergi brotið? Ættum við að hleypa þar inn einhverju öðru trúfélagi?

Frá því að umræða um Vinaleiðina hófst í haust hefur ein af mörgum rökum kirkjunnar breyst mikið. Nú er stöðugt hamrað á því að starfssemin sé á grundvelli skólans en ekki trúboð. Þetta er náttúrulega enn eitt hálmstráið til þess að lægja öldurnar og er auðvitað öfugmæli.

Er Siðmennt á móti aukinni þjónustu í skólum?

Margt hefur verið staðhæft um skoðun Siðmenntar í þessu máli sem er beinlínis rangt og er kannski rétt að staldra við og skoða nánar.

Það er talað um að mjög fáir hafir kvartað undan þjónustunni og því sé ekkert mark takandi á gagnrýninni. Þetta eru vond rök. Það skiptir ekki máli hvort um sé að ræða lítinn eða stóran hóp manna – og spyr ég – hver er réttur minnihluta? Hvenær er hópur manna það stór að taka þurfi mark á skoðunum hans? Duga 3%, 12%, 20% eða 49% eða á yfirhöfuð nokkuð að virða rétt minnihluta?

Einnig er því haldið fram að mikill meirihluti landsmanna tilheyri kristnum trúfélögum og að í námsskrá sé talað um að starf skólans eigi að byggjast á “kristilegu siðferði” og þar af leiðir að slíkt eigi að vera stefna í skólastarfi.

Hér gildir það sama – virða skal rétt ALLRA í skólakerfinu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það eru ekki allir kristnir – heldur aðhyllast aðra lífsskoðun og eru t.d. trúlausir eða annarrar trúar! Hvar er umburðalyndið? Að kenna siðferði er gott mál en að kenna kristilegt siðferði er í besta falli móðgun við hluta foreldra nemenda í skólum og í versta falli mannréttindabrot. Og hvaða kristilega siðferði á að kenna? Kristin trúfélög eru mörg og oft á tíðum með mismunandi siðferði í gangi. Hvert er hið rétta kristilega siðferði?

Því er haldið fram að Siðmennt sé á móti aukinni þjónustu í skólum. Það er rangt. Við teljum fyrir það fyrsta að þrátt fyrir menntun sína í sálgæslu þá geti djáknar og prestar ekki talið sig meðal fagstétta á sviði sál- og félagslegrar aðstoðar eins og reynt er að gera. Það þarf meira en 3-ja eininga kúrs í sálgæslu við guðfræðideildina til. Fagstéttirnar sem kirkjan mælir sig við eru sálfræðingar, félagsráðgjafar, sérkennsluráðgjafar, hjúkrunarfræðingar og kennsluráðgjafar með margra ára sérfræðinám að baki.

Því hefur verið haldið fram að Vinaleið sé ókeypis viðbótarþjónusta. Samkvæmt mínum upplýsingum er það rangt. Djákni við skóla í Mosfellsbæ fær sín laun greidd af sveitarfélaginu. Sótt var um styrk frá Garðabæ, um einhverjar milljónir, en þar sem einkahlutfélagið Sund hljóp undir bagga og greiddi kostnaðinn var styrkumsókn hafnað. Styrkur hefur verið greiddur af Sveitarfélaginu Álftanesi í verkefnið o.s.frv. Ég spái því að þróunin verði á þá leið að skólum verði boðið uppá “ókeypis” þjónustu en síðan verði kostnaði varpað að hluta eða að fullu yfir á sveitarfélög á nokkrum misserum eða árum. Hvar á þá að skera niður? Er ekki fjármunum betur varið í að styrkja starf eiginlegra faghópa?

Mig langar til þess að forvitnast meðal stuðningsmanna trúboðs í skólum: Hvar er umburðarlyndið sem þið kennið öðrum? Hvert er umburðarlyndi gagnvart þeim sem hafa aðrar lífsskoðanir en þið? Finnst ykkur virkilega að þið takið tillit til lífsgilda múslima, votta JPMóva, húmanista og annarra sem neyðast til þess að sitja undir trúboði ykkar? Hvar er virðingin fyrir mannréttindum? Hafið þið sett ykkur í spor foreldris sem hefur aðra lífsskoðun en þið? Er ekki rétt að sýna því lágmarks virðingu?

Um hvað er verið að ræða?
Það er kannski í lokin rétt að gera að umfjöllunarefni það sem málið snýst um. Það snýst fyrst og fremst um börnin okkar, aðstöðu þeirra og velferð. Í þjóðfélagi nútímans virðist tími foreldra með börnum sínum fara minnkandi – og því þarfnast börn stuðnings. Hlutverk menntayfirvalda er að sjá til þess að uppfylla og fylgja eftir þeirri þjónustu sem kveðið er á um í lögum. Ég fullyrði að við öll hér inni, sama hvaða lífsskoðanir við aðhyllumst, erum sammála um að veita börnum okkar sem bestu skilyrði til þess að komast í gegnum lífið.

En hvers vegna er ekki hægt að veita slíka þjónustu án trúarlegar og gildishlaðna formerkja? Af hverju er kirkjan að blanda sér í skólastarfið með þessum hætti? Af hverju hættir kirkjan á að hleypa upp skólastarfi á þennan hátt? Ég held að svarið liggi í því að kirkjan sé að herða róðurinn til þess að frelsa fleiri sálir og til þess þarf trúboð. Það er ekki að ástæðulausu að kirkjan sækir að börnum því þau eru varnarlaus gegn slíku starfi.

Ég geri það að tillögu minni að yfirmenn kirkjunnar sýni manndóm og dragi presta sína og djákna út úr almennu skólastarfi hvort sem það heitir heimsóknir til 2ja ára barna á leiksskólum, fermingarfræðsla eða Vinaleið. Ef ekki – er aldrei að vita hvenær kirkjan neyðist til að hverfa úr skólastarfi með dóm á bakinu.

Hvað vill Siðmennt?
Siðmennt vill að sveitarfélögin uppfylla lögin um skyldur sínar í skólastarfi. Í þeim er lögð sú skylda á herðar sveitarfélaga að sjá um ákveðna þjónustu þ.a.m. sálræna- og félagslega aðstoð. Það er örugglega freistandi fyrir sum þeirra að fela einhverjum öðrum slíka starfssemi og telja fólki síðan trú um að verið sé að uppfylla lagaskylduna! Við krefjumst þess að þjónustan sé veitt eins og lög kveða á um með fagfólki sérmenntuðu til þess.

Siðmennt hefur í gegnum árin gagnrýnt kristnifræðikennslu í skólum en hefur lagt til að þess í staðinn verði kennd almenn siðfræði, gagnrýnin hugsun, heimspeki og trúarbragðafræði. Við teljum að slík kennsla falli að þörfum allra barna en ekki einungis sumra.

Siðmennt krefst þess að starfssemi Vinaleiðar ásamt annarri starfssemi kirkjunnar í leikskólum sem og öðrum opinberum skólum verði tafarlaust hætt. Eins og rakið hefur verið er Vinaleið einungis hluti af trúboði kirkjunnar í skólum og getið þið lesið meira um það á heimasíðu Siðmenntar.

Kirkjan má sinna sínu trúboði, aðstoða foreldra með trúaruppeldi barna sinna, setja á fót eins margar vinaleiðir og henni þóknast bara að hún láti vera að stunda það í skólum og öðrum opinberum stofnunum. Til þess hefur hún gnægð fjár og mikið af lítt notuðu húsnæði.

Siðmennt krefst þess að skóli og kirkja verði aðskilin.

BJ – 010307

_________________________

  1 Kærleiksþjónusta í grunnskólum: Vinaleið
Sjá: http://www.kirkjan.is/kirkjustarf/?safnadarstarf/vinaleid

  2 Kærleiksþjónusta í grunnskólum: Vinaleið
Sjá: http://www.kirkjan.is/kirkjustarf/?safnadarstarf/vinaleid

  3 Formleg staða sálgæslunnar
Þorvaldur Karl Helgason, biskupsritari.
Erindi hjá Endurmenntunarstofnun HÍ, föstudaginn 28. feb. kl 17-18.

Til baka í yfirlit