Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Þórarins Eldjárns á BF 2008

Borgaraleg ferming – 27. apríl 2008

Ágætu fermingarbörn, fjölskyldur og vinir.

Til hamingju með þennan mikla gleðidag. Hann er svo sannarlega bjartur og fagur….

Þó verð ég að segja að birtan er enn meiri hér inni.

Ég fæ eiginlega ofbirtu í augun þegar ég lít hérna yfir salinn.

Eins lengi og menn muna og sjálfsagt miklu lengur hefur það tíðkast meðal allra þjóða, hvar sem er á jarðarkringlunni, að staldra við og halda það hátíðlegt með sérstakri athöfn eða vígslu þegar bernskunni lýkur og við taka unglings- og fullorðinsár. Formið á þessum athöfnum er jafn mismunandi eins og siðirnir eru margir. Það er líka misjafnt hvenær talið er rétt að líta svo á að þessi umskipti hafið orðið eða séu að verða. Þetta er ekki bara eitthvað eitt sem gerist í einu vetfangi, hver og einn tekur sér þann tíma sem hann þarf.

 

Þið megið sem sagt alls ekki halda að þið sem eruð strákar og stelpur í dag munið vakna upp á morgun sem karlar og kerlingar. Þið eruð að kveðja bernskuna enekki æskuna.

Það er aðallega verið að taka stefnuna með táknrænum hætti. Íhuga hvar maður hefur verið og hvert maður ætlar. Þannig má komast að því hvar maður er staddur hér og nú sem auðvitað er það sem alltaf er mikilvægast.

Hér á okkar slóðum í veröldinni er þessi athöfn eða vígsla kölluð ferming. Og nú er komið að ykkur. Reyndar á íslenskt mál ýmis önnur orð yfir þetta. Eitt af þeim er tekt. Það er talað um að fólk sé milli tektar og tvítugs. Þannig verðið þið að lokinni athöfninni hér í dag. Eins er það að fermast kallað að ganga fyrir gafl. Slíkt orðalag getur verið varasamt, ég vissi um dreng sem ætlaði að nota þetta en mismælti sig aðeins og sagðist hafas verið að ganga af göflunum.

Eins og fram hefur komið er orðið ferming upphaflega komið í íslenskt mál frá kirkjunni. Það er dregið af latneska orðinu confirmatio sem þýðir staðfesting. Að ferma er að staðfesta. Þeir sem fermast í kirkju eru að staðfesta skírnarsáttmálann um leið.

Þess vegna finnst sumum að ekki eigi að kalla þessu nafni veraldlega athöfn eins og þá sem hér fer fram.

Ég sé hinsvegar ekkert athugavert við að nota þetta orð þó kirkja eða trú sé ekki með í spilinu. Það þýðir bara staðfesting og þið getið litið svo á að þið séuð að staðfesta ákveðinn sáttmála við sjálf ykkur.

Þar að auki er líka til önnur merking í þessum orðum, að ferma og ferming. Þá eru þau dregin af nafnorðinu farmur. Við fermum skip, flugvélar og flutningabíla. Að sumu leyti er líka verið að ferma ykkur á þann hátt. Sú ferming stendur þó í raun yfir alla okkar daga. Kannski getum við orðað það þannig að í dag sé verið að ganga frá farmskýrslunni í ykkur.

Staðfesting á sáttmála og farmur. Það er sem sé hvort tveggja.

En hver er þá þessi sáttmáli?
Og hver er farmurinn?

Jú sáttmálinn er við sjálf ykkur og innihald hans er ekki flókið: Hann er sátt um sátt. Þið ætlið að vera sátt við sjálf ykkur. Þið ætlið að reyna að haga lífi ykkar þannig að þið getið verið sátt við sjálf ykkur. Það er ekki alltaf auðvelt en við verðum að reyna. Til að geta verið sátt við sjálf ykkur þurfið þið fyrst og fremst að gæta þess að bera alltaf virðingu fyrir sjálfum ykkur. Það er algjör forsenda þess að aðrir beri virðingu fyrir ykkur og um leið alveg nauðsynlegt til að þið getið borið virðingu fyrir öðrum. Gagnkvæm virðing er nauðsynleg í öllum samskiptum manna. Ef hún væri alstaðar fyrir hendi væri margt öðruvísi í veröldinni en það er nú.

Og farmurinn er í raun sömu ættar: Afstaðan til lífsins. Það skiptir öllu að þið séuð jákvæð, opin, víðsýn og umburðarlynd. Hvers vegna? Ég ætla ekki að rökstyðja það neitt frekar. Það nægir að telja upp andheitin, andstæðuna : Vilduð þið frekar vera neikvæð, lokuð, þröngsýn og umburðarlaus? Finnst ykkur slíkt fólk skemmtilegt? Ég held ekki. Ég bið ykkur samt að sýna því umburðarlyndi og virðingu.

———–

Lífið er ævintýri. Ævintýri í mörgum köflum eða kannski öllu heldur ævintýrasafn. Í dag hafið þið ákveðið að staldra við og halda hátíð. Það er að hefjast nýr kafli, nýtt ævintýri, þið eruð að leggja af stað í ævintýraferð.

Í ævintýrunum gömlu var það alltaf þannig að sá sem lagði upp í ferð þurfti fyrst og fremst tvennt: Nesti og nýja skó.

Þetta hafið þið fengið hvort tveggja og ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði.

Þið hafið fengið hollt og kjarngott nesti. Ofan á það sem þið hafið fengið heiman að og í skólum hafið þið tileinkað ykkur allar þær hollu og gagnlegu pælingar sem farið er í gegnum á námskeiðunum hjá Siðmennt. Allt er þetta farmurinn og kjölfestan. Í þetta nesti eigið þið eftir að sækja næringu í ferðinni.

Eins fer það ekki fram hjá neinum að það er mikið af nýjum skóm hér inni í dag. Þeir auka ekki lítið á birtuna. Og ég frétti líka að þeim sem vildu hafi meira að segja boðist námskeið í því hvernig á að ganga á vissri tegund af skóm. Það er líka táknrænt og sýnir hversu mikilvægt það er að geta fótað sig rétt í tilverunni. Ekki síst þegar maður er að stíga fyrstu skrefin á fullorðinsbrautinni.

Á þessum fótabúnaði eigið þið eftir að taka marga góða spretti. Stundum þarf að snúa við, stundum þarf að bremsa. Þá er gott að muna eftir sáttmálanum og staðfestingunni. Stundum þarf að huga að farminum, festa hann betur, kasta einhverju í sjóinn. Stundum þarf að afferma. Það gerist margt á langri leið. Það er ólgusjór framundan. En þá skiptir mestu að stefnan sé rétt og mann beri ekki of langt af leið.

Og hvað sem sprettunum líður skuluð þið muna að lífshlaupið er langhlaup en ekki spretthlaup.

Ég ætla að að leyfa mér að enda þetta spjall á því að fara með ljóð sem ég orti einu sinni einmitt um þetta. Það heitir Sprettur.

Margir þeir sem fyrst úr spori spretta
og sperrast við að setja og bæta met
þeir hætta eða dauðir niður detta
og draga að lokum varla hænufet.

En einmitt þegar aðdáendum fækkar
og áfram-köllin taka að gerast hol
þá er það sem gengi hinna hækkar
sem hægar fóru af stað – en áttu þol.

Um afrek sín þeir eru gjarna rengdir
á ýmsu kann að velta um þrek og byr.
Það fjúka met og millivegalengdir
en markið sjálft er hvergi í augsýn fyrr

en sést – og þá er lífið liðið hálft
að lokatakmarkið er hlaupið sjálft.

Enn og aftur: Innilega til hamingju með daginn. Til hamingju með nesti og nýja skó.

Til baka í yfirlit