Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming – valkostur

Vorið 1989 verður fyrsta borgaralega ferming á Íslandi. Þá verða börnin mín fyrstu Íslendingarnir sem fermast borgaralega (og vonandi fleiri sem kynnu að hafa áhuga). Borgaraleg ferming er valkostur við kirkjufermingu fyrir fólk sem er ekki trúað en vill samt ,marka tímamót í lífi unglings þegar hann/hún tekur við hlutverki fullorðinna. Borgaraleg ferming er hátíðleg athöfn sem fer fram í einhverju virðulegu húsi. Unglingarnir, sem fermast borgaralega, eru þá teknir formlega inn í samfélag fullorðinna og heita því að verða ábyrgir borgarar. Borgaraleg ferming er staðfesting á þeirri ákvörðun að vera siðferðislega þroskuð manneskja.

Þjóðkirkja tímaskekkja

Húmanistar víða í heiminum stunda borgaralegar fermingar jafnt sem borgaralegar giftingar og jarðarfarir. Í Noregi hefur borgaraleg ferming t.d. verið framkvæmd í 30 ár og nú fermast 10% norskra unglinga borgaralega. Kveikjuna að þessari hugmynd fékk ég fyrir nokkrum árum þegar Ari Trausti Guðmundsson skrifaði kjallaragrein í DV sem hét „Eru trúleysingjar á Íslandi?“ Þar kynnti hann Human Etisk Forbund í Noregi og starfsemi þess, m.a. borgaralega fermingu. Human Etisk Forbund öðlaðist opinberan fjárstuðning þar 1981 þegar lögum þar að lútandi var breytt.

Ég var í mörg ár í mjög svipaðri hreyfingu í New York, The Ethical Culture Society“: Þessi húmaníska heimshreyfing er viðurkennd sem trúarbrögð og hefur rétt alls staðar þar sem hún starfar til að framkvæma helstu helgiathafnir í lifi fólks á borgaralegan og fallegan hátt. Eftir að ég las grein Ara Trausta gerði ég mér grein fyrir því hversu mikið ég saknaði þessarar hreyfingar síðan ég kom til Íslands þar sem tímaskekkja eins og þjóðkirkja er lögboðin. Ég hef ekkert á móti öllum öðrum trúarbrögðum og virði rétt fólks til að trúa hverju sem því sýnist en ég tel að það sé ekki hægt að tala um raunverulegt trúfrelsi þar sem ein trú er tekin fram yfir aðra og studd sérstaklega, m.a. fjárhagslega. Mér finnst hugtakið þjóðkirkja ekki passa inn í nútímalýðveldi. Ég vil taka það fram að ég virði það mikilvæga starf sem hefðbundin trúarbrögð þjóna. Ég styð tilverurétt þeirra. En ég vil líka sjá valkosti. Ég hef unnið á Íslandi með það að leiðarljósi að stuðla að fleiri valkostum á sem flestum sviðum, m.a. í geðheilbrigðismálum, menntamálum, neytendamálum, trúmálum o.s.frv.

Eitthvað bogið við þetta

Ég virði krakka sem fermast trúarlega EF alvörutrú er á bak við það. En ég á mjög erfitt með að trúa því að þessi 98% unglinga, sem staðfesta trú sína 14 ára, séu að því í einlægni þegar minna en 2% þeirra halda áfram að iðka þessa trú. Það er eitthvað bogið við þetta. Það er meira en smákeimur af efnis og gróðahyggju í fermingarsiðum á Íslandi í dag. Unglingar mæla vinsældir sínar í þeirri upphæð peninga eða verðmæti sem þau fá í fermingargjafir. Fjölskyldur taka víxla og lenda i skuldasúpu til að halda fermingarveislur sem þær hafa ekki efni á. Er þetta ekki komið út fyrir öll skynsamleg mörk? Ég hef spurt alla 14 ára krakka, sem eru að fermast og ég þekki, hvort þeir telji sig trúaða og af u.þ.b. 30 hafa bara 2 játað því þegar ég spyr: Hvers vegna ertu þá að fermast? en algengustu svörin_„Ég vil fá peninga og gjafir.“ „Ég vil ekki vera útundan.“ Er þessi hræsni það sem kirkjan vill?

Frjáls fermingaraldur

Ég held að ein leið til að gera fermingar að alvörumáli sé að gefa fermingaraldurinn frjálsan. Fólk á að fermast þegar og ekki fyrr en það treystir sér til þess og það hefur meiri þýðingu í lífinu heldur en rjómatertuveislur og skíða og geislaspilaraeign.

Forseti Human Etisk Forbund í Noregi, Steinar Nilsen, og e.t.v. fleiri, koma hingað til landsins næsta ár til að aðstoða við borgaralega fermingu á Íslandi. Ég vil opna þetta tækifæri fyrir fleiri unglinga á aldrinum allt frá 11 ára upp i jafnvel 18-19 sem hafa áhuga á þessum kosti. Yfirleitt er haldið stutt námskeið um siðfræði sem hjálpar krökkum til að átta sig á jákvæðum viðhorfum um mannleg gildi í lífinu. Víðast í Noregi hafa bæjarfélög lagt til húsnæði undir borgaralega fermingu og sinfóníuhljómsveit, t.d. í Ósló, leikur endurgjaldslaust við þessa athöfn.

Ég hvet fólk, sem finnst þetta vera eitthvað sem vantar á Íslandi og vill taka þátt í undirbúningi þess, vinsamlegast til að hafa samband við mig svo að við getum byrjað í haust að undirbúa þetta.

Hope Knútsson

Til baka í yfirlit