Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Þórunnar Ólafsdóttur við fermingarathöfn Siðmenntar í Háskólabíó 2. apríl

Í hvert sinn sem ég lít stjörnuhimininn augum hugsa ég um afa minn. Hann kenndi mér að þekkja stjörnurnar og að þekkja og bera virðingu fyrir náttúrunni. Ómetanlegur lærdómur sem mun fylgja mér allt lífið. Hann trúði því á svo einlægan og fallegan hátt að mér væru allir vegir færir.

Svo einlægan, að ég fór að trúa því sjálf. Fyrir það verð ég honum ævinlega þakklát. Þegar afi kvaddi þennan heim var ég stödd í rútu í miðri Sahara eyðimörkinni um niðdimma nótt. Í þykku myrkrinu sem lá yfir eyðimörkinni skinu stjörnurnar skærar en nokkru sinni fyrr.

Ég horfði á stjörnuhimininn, þetta ótrúlega sköpunarverk sem afi hafði kennt mér að þekkja og dáðst að, og hugsaði hversu dýrmætur minnisvarði hann væri. Miklu dýrmætari en nokkur veraldlegur hlutur. Því sama hvar ég er stödd í heiminum, þá þarf ég ekki annað en að líta upp til að sjá undrið sem sjálfur stjörnuhimininn er. Hann minnir mig á afa. En hann minnir mig líka á það sem ég gleymi stundum – að ég get allt sem ég ætla mér.

En ég á ekki þennan stjörnuhimin ein. Þið eigið jafn mikið í honum og við afi. Og restin af heiminum á jafn mikið í honum og við öll. Hann er sameign allra jarðarbúa. Frá upphafi mannkyns hafa verið skapaðar minningar undir þessum sama stjörnuhimni. Hann umlykur staðinn sem er heimili okkar allra og hann hefur mismunandi þýðingu fyrir okkur öll – en munið að hann er okkar allra.

Undir þessum stjörnuhimni búa sjö milljarðar manns. Svo mikill fjöldi, að það krefst umhugsunar hversu mörg núll eiga heima fyrir aftan töluna sjö. En í rauninni skiptir það ekki öllu máli. Því það er okkur ekki hollt að hugsa eingöngu um stærð og fjölbreytileika mannkynsins í tölum. Hver einn og einasti íbúi þessarar plánetu á sér nafn, líf, drauma, vonir og þrár. Enginn þeirra er mikilvægari en annar. Við myndum öll eina heild.

Oft virðist kannski langt á milli okkar og þeirra sem búa annars staðar en á litlu eyjunni sem við köllum Ísland. En sama hvar við erum fædd erum við öll samsett af holdi og blóði og allskonar tilfinningum. Við erum öll gædd allskonar hæfleileikum og eiginleikum og erum ólík eins og við erum mörg. Og við komum hvert öðru við.

Kæru fermingarbörn!

Kæru foreldrar, systkini, ömmur, afar, ættingjar og ástvinir. Hjartanlega til hamingju með daginn.

Það er mér sannur heiður að fá að segja nokkur orð við ykkur á þessum stóra degi sem verður ykkur vonandi kær og eftirminnilegur um ókomna tíð.

Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég var beðin um að ávarpa ykkur hér í dag var „vá, þvílíkur heiður“.

En um leið hugsaði ég um ábyrgðina sem fylgdi því. „Hvað ætli ég geti sagt þeim sem þau vita ekki nú þegar? Hvað er hægt að segja við svona fjölbreyttan og kraftmikinn hóp með ólíka drauma um framtíðina? Hvernig tekst mér að kveikja áhuga þeirra allra?“

Ég get ekki svarað þeirri spurningu. Svo ég ákvað að bara tala beint frá hjartanu, um það mikilvægasta sem ég hef lært í þessu lífi og tel öllu öðru mikilvægara.

Ef ég á að gefa ykkur eitt heillaráð á þessum degi, þá er það að kynnast heiminum. Ekki láta ykkur nægja að hlusta á frásagnir annarra af stórfengleika hans eða göllum. Það er hægt að læra ótalmargt um heiminn í bókum, af frásögnum og á netinu. En vináttuna og skilninginn sem bíður ykkar úti í hinum stóra heimi þarf að sækja þangað. Ég hvet ykkur auðvitað til að lesa og leggja við hlustir. En sá sem upplifir veit ekki bara, heldur skilur.

Fetið ótroðnar slóðir, heimsækið fjarlæg lönd. Ekkert mun móta ykkur sem einstaklinga eins og skilningur og sjálfsprottinn kærleikur til þess sem er þarna handan sjóndeildarhringsins.

Áður fyrr var okkur nær ómögulegt að vita hvað gekk á hinu megin á hnettinum. Að minnsta kosti ekki fyrr en löngu eftir að atburðirnir áttu sér stað. Nútímatækni gerir það að verkum að við getum fylgst með nánast hverju sem er í rauntíma. En heimurinn er engu að síður ógnarstór og ómögulegt að kynnast honum án þess að leggja lykkju á leið sína og kynnast samferðafólki okkar.

Nálægðin sem netið skapar setur vissulega ákveðna pressu á okkur öll. Úr öllum áttum berast fréttir og upplýsingar. Við fylgjumst með stríðsátökum í beinni útsendingu. Við horfum upp á eymd og ofbeldi um allar koppagrundir, og stundum hugsum við kannski „mikið er heimurinn orðinn að hræðilegum stað“.

Það er vissulega rétt að margt hræðilegt á sér stað í heiminum. En heimurinn er ekki verri en hann var. Og hann er ennþá stútfullur af ósköp venjulegu fólki sem við eigum svo margt sameiginlegt með. Fólk sem seinna meir verður kannski vinir okkar, makar eða samstarfsfólk.

Það sem hefur breyst er að nú á dögum við vitum meira um það sem gengur á. Við erum sífellt að horfa upp á hörmungar sem voru okkur fjarlægri fyrir tilkomu tækninnar. Heimurinn hefur alltaf átt sínar björtu og dökku hliðar, en aukin þekking okkar á skuggahliðum hans leiðir líka sífellt til úrbóta.

Fyrsta skref í að leysa vanda er að horfast í augu við hann. Og það er það sem við erum að gera þegar við fáum fréttir af öllu því sem gengur á. Fréttirnar vekja samkennd flestra og smátt og smátt erum við að átta okkur á hlutverki okkar í þessu öllu saman.

Okkar bíða mörg og flókin úrlausnarefni um heim allan. Það þarf að stöðva stríð, koma á kynjajafnrétti, uppræta fordóma, tryggja fólki rétt til að elska fólk óháð kyni og uppruna, lækna sjúkdóma, stöðva hungursneyð, draga úr mengun og svo mætti lengi telja.

Ég veit að þetta hljómar allt saman flókið og yfirþyrmandi, en hugsið þá um fyrri kynslóðir og árangurinn sem náðst hefur. Mannréttindi eru tiltölulega ungt hugtak í mannkynssögunni, þó baráttan gegn óréttlæti sé líklega jafngömul mannkyninu.

Það er afar stutt síðan konur höfðu ekki kosningarétt. Það eru örfá ár síðan fyrsta parið af sama kyni gekk í hjónaband. Síðan fólk á vinnumarkaði öðlaðist rétt til sumarfrís, lágmarkslauna og hvíldartíma. Ekkert af þessu kom af sjálfu sér. En við njótum góðs af sleitulausri mannréttindabaráttu fyrri kynslóða og við þurfum að halda þeirri baráttu áfram. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra.

Það besta sem þið getið gert fyrir ykkur sjálf er líka það besta sem þið getið gert fyrir þennan heim. Ef þið vandið ykkur við að vera manneskjur, komið fram við samferðafólk og náttúru af alúð og virðingu, þá mun ykkur takast að bæta heiminn.

Kannski ekki allan í einu, en mannréttindabarátta er eins og púsluspil. Einn kubbur í einu. Framlag hvers og eins skiptir máli. Stundum krefst mikillar þolinmæði að finna næsta bút og oft mátum við marga áður en sá rétti finnst. Sumir eru meira að segja týndir.

En á endanum hefst þetta. Það er ekki von mín, heldur einlæg trú.  Og þó að ykkur líði stundum eins og einu litlu sandkorni í þessum risastóra heimi, þá eruð þið ekkert minni eða lítilvægari en öll hin sandkornin sem mynda heildina. Ef slíkar hugsanir leita á ykkur, horfið upp í stjörnuhimininn og minnið ykkur sjálf á að ykkur eru allir vegir færir.

Hver sá sem velur að leggja sitt af mörkum til þess að skilja heiminn, kynnast samferðafólki sínu og tala upphátt um óréttlæti bætir heiminn. Hver sá sem ber virðingu fyrir fjölbreytileikanum, réttir fram hjálparhönd, beitir ekki ofbeldi, lætur forvitnina og fróðleiksþorstann ráða för í stað óttans við hið óþekkta, sá leggur sitt af mörkum.

Fordómar verða til í tómarúminu sem skapast þegar spurning sem kviknar er ekki spurð. Þegar svara er ekki leitað og ótti í bland við ímyndunarafl fær leyfi til að ráða för.

Ég vona að þið farið út í lífið með óbilandi trú á ykkur sjálf. En ég vona líka að trú ykkar á aðra verði jafn sterk. Ekkert sundrar íbúum heimsins eins og tortryggni okkar í garð hvers annars. Leyfið ykkur að trúa því að fólk sé gott. Ef einstaklingur frá Akureyri skaðar aðra manneskju þýðir það ekki að Akureyringar séu vont fólk. Það þýðir einfaldlega það að einstaklingur frá Akureyri tók slæma ákvörðun.

Ef íbúi heimsins skaðar annan íbúa heimsins, þýðir það ekki að heimurinn sé vondur staður. Það þýðir að einn af þeim 7 milljörðum manns sem byggja þennan heim tók slæma ákvörðun

Ég vona þið verðið fólkið sem talar þegar brotið er á ykkur eða öðrum. Segið það sem ykkur býr í brjósti, jafnvel þó að röddin bresti og hjartað slái hratt.

Ég vona þið standið með þeim sem hefja upp raust sína gegn óréttlæti og að þið þorið að breyta rétt.

Ég vona að þið þorið að gera mistök. Þau kenna manni svo margt.

Ég vona að þið verðið fólkið sem býður samferðafólki ykkar inn í hlýjuna þegar stormur eða stríð geysar úti.

Ég vona að þið verðið fólkið sem leitar ekki aðeins svara, heldur líka nýrra spurninga.

Ég vona að þið verðið hamingjusöm, sterk og hugrökk og ég vona að þið leyfið samferðafólki ykkar að njóta góðs af því.

Ég vona að í svartasta náttmyrkri ævi ykkar skíni stjörnurnar svo skært, að þið minnist þess að ekkert er ykkur ofviða.

Ég vona að þið njótið fermingardagsins og megi allir ykkar dagar verða lærdómsríkir, bjartir og mikilvægir.

Til baka í yfirlit