Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Þátttaka í borgaralegri fermingu slær öll met!

Nú hafa 322 börn skráð sig í borgaralega fermingu Siðmenntar árið 2016. Aldrei fyrr hafa þau verið svo mörg en um er að ræða 8% barna sem eru á fermingaraldri. Stjórn Siðmenntar er afar ánægð með þátttökuna sem sýnir að það er mikilvægt að börn eigi valkosti m.a. þegar kemur að fermingarfræðslu.

Fermingarfræðslan hefst í fyrstu viku janúar en börnin sækja námskeið einu sinni í viku yfir 12 vikna tímabil. Einnig er boðið upp á helgarnámskeið fyrir börn utan af landi. Þá verða sérstök námskeið á Akureyri og í Árborg vegna mikillar þátttöku. Umsjón kennslunnar er í höndum Jóhanns Björnssonar en auk hans verða 8 kennarar á námskeiðum vetrarins.

Námskeiðin hafa hlotið afburða góða einkunn bæði barna og foreldra þeirra. Þar er mikil áhersla lögð á að þjálfa þátttakendur í að hugsa gagnrýnið og skapandi ásamt því að auka færni í að takast á við siðferðileg álitamál. Þátttakendur fá síðan tækifæri til þess að bregðast við og taka afstöðu til ýmissa mála á gagnrýninn hátt og af siðferðilegum heilindum. Þessi mál eru m.a.: hvernig er að vera unglingur í auglýsinga- og neyslusamfélagi, fordómar og fjölmenning, hamingjan og tilgangur lífsins, skaðsemi vímuefna, sjálfsmynd unglinga og samskipti kynjanna, sorg og áföll, samskipti unglinga og fullorðinna, hverju getur maður trúað?

Móðir eins fermingarbarns sem býr erlendis hefði þetta að segja um námskeiðið sem sonur hennar tók þátt í síðastliðinn vetur:

„Við höfðum heyrt um ferminguna frá vinum og kunningjum en vissum í sjálfu sér ekki hvað námskeiðið fól í sér. Það kom okkur skemmtilega á óvart þegar við sáum hvernig verkefnin voru sett upp fyrir krakka sem búa erlendis. Að skrifa bréf vikulega var vissulega stressandi fyrir strákinn og ekki síður fyrir fjölskylduna sem sat og skeggræddi verkefni vikunnar yfir matartímum, á hóteli, í bílnum og nánast hvar sem er. Vinir og vandamenn bættust inn í umræðuna og umræðurnar eignuðust sjálfstætt líf í hvert skipti sem við ræddum þetta við aðila utan fjölskyldunnar (vinnufélaga, vini, skólafélaga og ættingja).”

Hún bætti svo við að „við fjölskyldan erum ótrúlega ánægð með námskeiðið ykkar“.

Nánari upplýsingar um Siðmennt og borgaralega fermingu gefa:
Jóhann Björnsson, s: 8449211
Bjarni Jónsson, s: 8968101

Myndir frá borgaralegri fermingu 2015

Til baka í yfirlit