Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Heilbrigði þjóðar. Ræða flutt við þingsetningu 2012

Flutt í athöfn Siðmenntar fyrir alþingismenn í Silfursal Hótel Borgar vegna setningar Alþingis þriðjudaginn 11. september 2012.  Svanur Sigurbjörnsson samdi og flytur.

Kæru alþingismenn og aðrir gestir

Þennan dag fyrir 11 árum síðan vaknaði ég í þáverandi heimili mínu, í háhýsi í New York borg, við þá frétt að stór herflugvél hefði flogið inn í annan af tvíburaturnunum á Manhattan.  Um 17 mínútum síðar flaug önnur flugvél inn í hinn turninn. Tvíburaturnarnir loguðu og af þeim lagði þykkan reykmökk. Skelfing greip um sig og allt lamaðist. Í ljós kom að flugvélarnar voru ekki hervélar, heldur breiðþotur fullar af fólki, fólki sem átti sér einskis ills von. Tvær aðrar árásir með farþegavélum áttu sér stað þennan dag í Pennsylvaniu og Washington D.C. og samtals létu nærri þrjú þúsund manns lífið í þessum fjórum árásum. Að kveldi þessa dags var erfitt að kyngja þessu sem veruleika.

Um leið og ég vil minnast fórnarlamba þessara hræðilegu hryðjuverkaárása á friðsama borgara, þá er það ekki aðeins vegna dagsetningarinnar að ég nefni þetta í tengslum við yfirskrift hugvekju minnar, heilbrigði þjóðar, til ykkar kæru þingmenn.

Ég tel að þarna hafi átt sér stað afleyðing alvarlegs heilbrigðisvanda.  Þennan sérstaka heilbrigðisvanda vil ég kalla siðferðismein og lækningin miðast að því að koma á siðferðisheilbrigði.

Er ég með því að tala um siðferðismein að tala um geðsjúkdóma í bland við siðferðisbresti manna eins og oflætissjúklinginn sem tæmdi bankareikning eiginkonunnar til að kaupa sér notaðar nærbrækur úr dánarbúi Elvis Presley?  Eða sturlaða manninn með geðklofa  og aðsóknaræði sem hrinti manneskju fyrir bíl á förnum vegi? Nei, siðferðismeinum fylgir ekki svo bráð hvatvísi og veruleikaskerðing en vissulega er stundum vart hægt að greina þarna á milli.

Er ég þá að tala um vissar persónuleikaraskanir sem Bandaríska geðlæknisfélagið hefur skilgreint sem andfélagslegar persónur og eru stundum, í sinni alvarlegustu mynd, sérstaklega innan afbrotafræðinnar, kallað að vera psychopati?  Psychopatar virðast erfa af stórum hluta glæpahneigð sína en gott umhverfi og heilsteypt fjölskylda getur haft mikil áhrif þannig að þeir verði ekki afbrotamenn.

Ég er að tala um siðferðismein sem eins konar form af faraldursfræðilegum smitsjúkdómum. Ég er að tala um siðferðisbresti í stórum hópum eða hreyfingum innan þjóðar sem berast til þeirra með smiti blekkjandi hugmynda.  T.d. tálsýnina um hina fullkomnu arísku þjóð útvaldra.  Ónæmiskerfi siðferðisins; rökhugsunin og ábyrgðartilfinningin með skýrri siðferðissýn og vænan pakka af rökvillu-mótefnum getur varist lævísum árásum smitandi hugmynda sem sýkja siðferðið.

Það er siðferðislega sjúkt að nota saklaust fólk í flugvél sem leið til að sprengja upp hús með enn fleira af saklausu fólki.  Það er sjúkdómur af faraldursfræðilegum mælikvarða þegar slíkt er talið réttlætisverk og slíkum hugmyndum plantað í huga venjulegs fólks, sem svo fremur ódæði af þjónustulund, teljandi sig hetju í leiðinni.

Það er siðferðissjúkdómur þegar stór hluti þjóðar telur kempur sínar ósigrandi snillinga sem eigi skilið að hljóta hálf ævilaun verkamanns í starfslokasamningi, bara af því að þeir geta það og áhættuhegðun þeirra og flottheit sé normið sem sönnum víkingum sæmir. Það er siðferðissjúkdómur þegar gott þykir að kaupa sér atkvæði, stela öllum hugbúnaði, vinna svart, útdeila sérréttindum, ganga illa um umhverfi sitt, leggja í einelti, þiggja óverðskuldaða bitlinga, verja sérhagsmuni á kostnað heildarinnar og svo framvegis. Illa grunduð hjarðhegðun getur haft hræðilegar afleiðingar eins og við þekkjum svo vel af margri hörmunarsögunni af afvegaleiddum fjöldahreyfingum í mannkynssögunni. Valdafrekir siðblindingjar hafa þannig marg oft náð að sýkja huga fólks eða neyða það til fylgilags við afleita lífssýn.  Á hinn bóginn höfum við sem betur fer fjölmörg dæmi um fólk af miklum siðferðisstyrk, sem baráttufólk í öflugum fjöldahreyfingum eða sem foringjar hafa lyft grettistaki í mannréttindum og eflt siðferðisheilbrigði þjóða í leiðinni. Siðferðisheilbrigði þjóða hefur því átt bæði hæðir og miklar lægðir og sagan hefur sýnt að það má ekki sofna á verðinum. Það sem ávinnst getur hæglega tapast.
Hvað er annars heilbrigði þjóðar? Er nokkur vegur að vega og meta slíkt? Er ein þjóð heilbrigðari en önnur? Litast það ekki bara af þeim sem talar, ættjarðarást viðkomandi og óskhyggju um að heimahagarnir séu alltaf bestir?  Það er hætt við því og svo er ekki auðvelt að telja til sannfærandi mælikvarða á heilbrigði þjóðar.

Heilbrigði þjóðar má skipta niður í nokkra þætti.

    • Í fyrsta lagi líkamlegt heilbrigði einstaklinganna. Hvað þeir leggja til sjálfir og hvert ástand þeirra er.
  • Í öðru lagi geðheilsu þeirra en segja má að geðheilsa sé mikið til líkamleg og háð starfrænni heilsu heilans, mikilvægasta líffæris okkar.
  • Í þriðja lagi siðrænt heilbrigði einstaklinganna og siðferði hópa eins og ég hef minnst á. Siðferði getur verið óháð efnahag, líkamlegri heilsu og geðrænni heilsu, en sveiflast oft með þessum þáttum engu að síður og ekki endilega í þær áttir sem við búumst við. Efnahagslegt ríkidæmi getur til dæmis skapað félagslega einangrun og siðferðisbresti. Ríkir taka oftar líf sitt en fátækir. Mikil líkamleg hreysti eða fegurð getur ýtt undir misnotkun á líkamanum og einblíni á hégóma. Afvegaleidd lífssýn þjóðfélagshópa á útlit getur leitt til geðsjúkdóma á borð við lystarstol, kvíða og þunglyndis og siðferðismeina á borð við einelti.
  • Í fjórða lagi má tala um félagslegt heilbrigði hópsins, þjóðfélagsins. Óháð því hversu vel hver einstaklingur hugsar um sjálfan sig eða hvernig honum er ástatt, þá markast heilbrigði þjóðfélagsins af samskiptahæfni, friðsemd og uppbyggingu á aðstöðu, aðföngum, tækjum, öryggi og þekkingu sem þjóðfélagið í heild býr yfir. Heilbrigt stjórnkerfi og valdhafar hverrar þjóðar, sem leita faglegra úrræða. Félagslegt heilbrigði er náskylt því siðferðislega og veltur á því að til sé nægilegur siðferðisstyrkur til að taka höndum saman um framfarir.

Í stærra samhengi þess siðferðis- og félagslega verður ekki litið framhjá mikilvægi alþjóðasamfélagsins, ekki síst fyrir eyþjóð eins og okkur Íslendinga. Upplýsingaflæði og samstarf alls mannkyns skiptir æ meira máli og við þurfum að hugsa til alþjóðasiðferðis því að stórir hlutir eins og gróðurhúsaáhrifin og kjarnorkuvá, neyða þjóðir til samstarfs.  Í leiðinni uppgötva þjóðirnar að saman geta þær ekki aðeins forðast miklar hörmungar og stórslys, heldur einnig byggt stórkostlega hluti saman.  Við höfum alþjóðaheilbrigði nú að markmiði og það var 7. apríl 1948 að World Health Organization, WHO var stofnað af Sameinuðu þjóðunum.  Það var öflugri arftaki smærri heilbrigðisstofnunar Þjóðabandalagsins frá 1919.  Heilbrigðisástandi þjóða er gjarnan lýst í þremur stigum;

  1. Stig farsótta og hungursneiða.  Mest öll Íslandssagan lýsir því ástandi. Lífslíkur á slíku stigi eru um 20 til 40 ár eftir árferði, uppskeru og tilfallandi faröldrum. Um fimmtungur allra nýbura deyja og nær þriðjungur eru dánir fyrir 5 ára aldur.
  2. Stig víkjandi farsótta og mannfjöldasprengingu. Bólusetningar, skolplagnir, aðgangur að vatni, skipulögð vísindalega heilsugæsla og iðnvæðing.
  3. Stig hrörnunarsjúkdóma og sjúkdóma af mannavöldum, það er, menningarsjúkdómar nútímans. Hlutfall fæðinga lækkar. Fleiri gifta sig eða eru í sambúð, menntunarstig hækkar, einkum meðal kvenna.

Þegar horft er til þessa þátta sést að það er afar margt sem hefur áhrif á heilsu okkar mannanna og þá er eftir ótalið allt það í lífríkinu og úr ranni náttúruaflanna sem getur haft mikil áhrif á heilbrigði einstaklinga og þjóða.

Við Íslendingar eru á 3. stigi heilbrigðis, en glímum nú við þá mótsögn að velgengnin er einn stærsti óvinur okkar um leið og hún er besti vinur okkar.

Mitt í velgengninni heyrum við af barni varla komið á unglingsaldur sem tekur líf sitt vegna vanlíðunar eftir einelti. Fjöldinn allur af fólki kemur á bráðamóttökur landsins eftir misheppnaðar sjálfsvígstilraunir. Rannsóknir víða um heim sýna að sjálfsvígstíðni er meiri eftir því hversu mikil félagsleg ósamheldni er á fólki;  karlar stytta sér líf oftar en konur, ríkir oftar en fátækir, mótmælendur oftar en rómversk-kaþólskir eða gyðingar, einhleypir oftar en giftir eða einstaklingar í sambúð. Ég spyr því, hvernig getum við styrkt böndin á milli okkar, dregið úr einangrun fólks og límt okkur meira saman?  Ég held að margt megi læra af Norðmönnum í þeim efnum en viðbrögð þeirra við voðaverkum Breiviks voru einmitt að þjappa sér saman. Við Íslendingar eigum ekki að þurfa íslenskan Breivik til að læra þá lexíu.

Þrátt fyrir efnahagshrunið voru innviðir þjóðfélagsins af 3. stigi og því verður ekki breytt nema með hörmungum á þeirri stærðargráðu að samgöngur og flutningar stöðvist til landsins í mörg ár, stofnanir landsins eyðileggist og matarframleiðsla leggist í rúst.  Þrátt fyrir hátækni og notalegheit 3. stigsins er engin trygging fyrir siðferðilegu og félagslegu heilbrigði.  Við getum verið:

  • Óöguð og gráðug þjóð. Það getur birst í slæmri geðheilsu, aukinni offitu og aukinni slysatíðni. Uppkoma nýrra menningarsjúkdóma eins og skorpulifur, lifrarbólgu C og B. Aukin fíkniefnaneysla.  Dæmi um velgengni aukins aga er að nú reykja aðeins um 14% landsmanna, niður frá rúmum 30% árið 1987.
  • Uppstökk, ofbeldisgjörn og glæpahneigð þjóð, t.d. í formi ofbeldisfullra mótmæla, tilefnislausra voðaverka á götum úti, líkamsárása á embættismenn og hárreista og óreglu á fundum og samkomum. Ríkið sé álitið baggi og afskiptafrek stofnun sem rétt sé að hunsa og svindla á eins og hægt er. Aukning smáglæpa og innbrota. Uppkoma skipulagðrar glæpastarfsemi.. Ef að við ætlum ekki að sigla í sama ástand og New York 7.-9. áratugarins ættum við e.t.v. að læra af New York 10. áratugarins. Við verðum að byrgja brunninn.
  • Þjóð fjármálaspillingar. Grafið undir velferðarkerfinu með auknum mútum, skattsvikum, vinnuleti, svartri vinnu og bótasvikum. Þiggja allt það sem býðst, sama hvaðan það kemur og sama hversu mikið úr samhengi við réttindi annarra það er. Nýta sér allar lagaglufurnar.
  • Eigingjörn og siðspillt þjóð. Hver sé í sínu horni og samskipti fari í auknu mæli fram í gegnum fjarskipti og fjölmiðla.  Minnkuð þátttaka í samfélagsverkefnum og stjórnmálum. Hver ali önn fyrir sínu og líti á þjóðfélagið sem samansafn keppinauta sem reyni hvað sem til að fá sínu fram.  Sóðaskapur, minnkuð skilvísi, minna traust milli ókunnugra, óvandað málfar og óskýrmælgi, óstundvísi, hávaðasemi, hvatvísi, samstöðuleysi, ójöfnuður og stéttskipting eru merki siðferðislegrar hnignunar.
  • Barnalega trúgjörn og fáfróð þjóð um eðli sannreyndrar þekkingar. Gervimenntun, gervifræði, gerviþekking, gervivísindi og kukl geta blómstrað í þjóðfélagi sem veit ekki lengur hvaðan það kom og hvernig það komst þó á pall meðal þróuðustu þjóðfélaga heims. Blekkingar fá að vaxa nánast sjálfala í tómarými ógagnrýnnar hugsunar og afskiptaleysis fagfólks og þeirra sem vita af þeim.  Þessar blekkingar geta orðið dýrkeyptar á alla vegu, með skemmd á þekkingargrunni, tímatapi, heilsutjóni og fjárhagstjóni.  Gervilausnir eru ekki kletturinn sem við viljum byggja framtíðina á.
  • Valdspillt þjóð. Þrátt fyrir lýðræði í grunninn blómstar valdagráðugt fólk á meðal okkar.  Þátttaka þess í stjórnmálum eða stjórnun fyrirtækja miðast að því að upphefja sig og sína mun frekar en að því að gera gagn öllum til handa. Þjóðfélag sem er blint á svona einstaklinga lendir í því að dýrka þá og koma þeim á staði sem geta reynst samfélaginu hættulegir. Valdabröltið kostar svo mikla fjármuni og tefur svo mikið fyrir úrlausn þjóðfélagsmála að framfarir láta á sér standa. Valdafíklar hafa sjaldnast áhuga á heilbrigðismálum, nema fyrir hendingu, ef að þau geta lyft þeim upp á einhvern hátt.

Þessi neikvæðu öfl í þjóðfélaginu vega að heilbrigði hennar í víðasta skilningi þess orðs en þó að þetta sé dökk lesning eru góðir hlutir að gerast víða.  Ýmis félög og hagsmunasamtök hafa gefið mörgum samfélagslegt lím og þessi félög hafa þroskast verulega undanfarna áratugi. Þau eiga myndarlega fulltrúa og fjölmiðlar, stjórnmálaflokkar og nefndir Alþingis hlusta á ráðleggingar þeirra í auknu mæli. Þetta hefur aukið samfélagslega ábyrgð og gefið fleirum mikilvæg hlutverk í lífinu utan venjubundinnar vinnu.  Hættan er þó sú að á meðan broddborgarar vaxa í sínum hópum fari aðrir hópar niðurávið. Ef að glæpir, geðsjúkdómar, svindl og fíkniefnanotkun er sópað undir teppið förum við tvö skref afturábak á meðan við stígum þrjú skref fram.  Hætt er við misskiptingu auðs og gæða.  Tvískiptingu þjóðfélagsins.

Hugum að fjölskyldunni.  Fjölskyldufræðimaðurinn Curran komst að þeirri niðurstöðu í rannsóknum sínum að helstu einkenni heilbrigðrar fjölskyldu væru eftirfarandi:

Hefur góð tjáskipti, sýnir traust, stuðning, gagnkvæma virðingu, gefur sér tíma til samveru, nýtur saman gamansemi og bregður á leik, gætir jafnvægis í tengslum milli einstaklinga, innrætir ábyrgð, kennir siðferðisreglur, virðir einkalíf og einstaklingsþarfir hvers og eins, virðir það sem einn gerir fyrir annan, hefur samkennd í lífsskoðunum og leitar aðstoðar ef á þarf að halda.

Ég tel að við getum byggt mun betra þjóðfélag ef að við eru raunsæ og horfum ekki framhjá vandamálunum. Hlutverk alþingismanna er mikið í þeirri vegferð og ekki síst sem fyrirmyndir.  Samskiptamáti ykkar skiptir miklu máli og hvernig þið talið til þjóðarinnar því að þið eigið greiðari leið en margur annar í öflugustu fjölmiðlana.

Niðurstaða mín er sú að eitt stærsta verkefni tæknivæddrar velferðarþjóðar sé að byggja upp siðferðislegt heilbrigði sitt. Á því veltur svo margt og sker úr um hvort að við verðum hol skel eða innihaldsrík plóma, hrjáð eða hamingjusöm.

Ef okkur tekst að innræta með fleiri Íslendingum þá samfélagslegu ábyrgð sem John F. Kennedy hvatti til með orðum sínum, „spyrjið ekki hvað þjóðin getur gert fyrir þig, spyrjið hvað þú getur gert fyrir þjóðina„, þá höfum við komist áleiðis.

Kæru alþingismenn, vegni ykkur vel í störfum ykkar og samskiptum á komandi þingi. Megi fleiri hugsjónir rætast og hagur þjóðarinnar vænkast.

Takk fyrir áheyrnina.

Svanur Sigurbjörnsson

Til baka í yfirlit