Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Giftingin ákaflega vel heppnuð

Fyrsta giftingin á vegum Siðmenntar fór fram í dag í Fríkirkjunni í Reykjavík. Það var álit okkar í Siðmennt sem vorum viðstödd og þeirra gesta og aðstandenda sem við töluðum við að athöfnin hefði heppnast í alla staði ákaflega vel. Margir voru klökkir að henni lokinni og það var klappað áður en hin nýgiftu hjón gengu út kirkjugólfið.


Af sjálfsögðu var falin í þessu nokkur þversögn að halda trúlausa athöfn í kirkju en þessi viðburður bar umburðarlyndi og skilningi manna á meðal fagurt vitni. Ekki var reynt að breyta neinu inni í kirkjunni að því undanskyldu að á miðju altarinu var blómavöndur í stað kross.

Með þessari athöfn er brotið blað í sögu Siðmenntar og hjónin eru frumkvöðlar í því að gifta sig veraldlega hjá lífsskoðunarfélagi sem aðhyllist ekki trú á æðri mátt. Það var sérstaklega við hæfi að Jóhann Björnsson kennslustjóri Siðmenntar í borgaralegri Fermingu undanfarinn áratug skyldi vera fyrsti athafnarstjóri félagsins í veraldlegri giftingu. Hann hefur unnið mikið og ötult starf fyrir félagið og af stakri hugsjón kennt mörgum ungmennum gagnrýna hugsun og lífsspeki sem á eftir að gagnast þeim um allan aldur.

Það er trúlega einnig í fyrsta sinn sem manneskja er nefnd (ekki skírð), fermd borgaralega og svo gift borgaralega (hjá sýslumanni) og veraldlega (hjá Siðmennt).

Siðmennt óskar brúðhjónunum, aðstandendum þeirra og vinum innilega til hamingju með daginn og samgleðst þeim yfir þessum tímamótaviðburð í lífi brúhjónanna og fyrir húmanista á Íslandi.

Til baka í yfirlit