Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða vegna afhendingar Húmanistaviðurkenningar Siðmenntar 2008

Ræða sem Hope Knútsson, formaður Siðmenntar, flutti við afhendingu Húmanistaviðurkenningar Siðmenntar 2008

Það er með mikilli ánægju að Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, veitir í dag, fjórða árið í röð, húmanistaviðurkenningu Siðmenntar fyrir framúrskarandi starf í þágu mannréttinda eða mannúðar á Íslandi.

Ég vil byrja á því að segja nokkur orð um hvað Siðmennt er og fyrir hvað félagið stendur. Siðmennt var formlega stofnað árið 1990. Félagið er málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum og stendur fyrir félagslegum athöfnum fjölskyldna. Frá 1988 hefur Siðmennt haldið undirbúningsnámskeið og séð um borgaralegar fermingar árlega. Í ár getum við stolt upplýst að Siðmennt býður einnig uppá allar aðrar helstu athafnir fjölskyldna, en það eru gifting, nafngjöf og útför, allar í veraldlegum og húmanískum anda. Við teljum það mikilvægt að geta boðið þennan valkost og höfum við þjálfað athafnarstjóra til þess að annast þessar athafnir. Þá hefur félagið gengist fyrir umræðufundum um ýmis mál er tengjast manngildisstefnu, þ.e. siðrænum húmanisma, og má þar nefna málefni eins og lýst er í stefnu félagsins, t.d. kennslu um trúarbrögð og heimspeki í skólum, mannréttindi samkynhneigðra, um að taka dauðann í sátt, sorg og sorgarviðbrögð, um erlend félög siðrænna húmanista o.fl. Helsta baráttumál félagsins í dag er ósk félagsins um jafna stöðu allra trúarbragða og lífsskoðunarfélaga sem m.a. hefur í för með sér aðskilnað ríkis og kirkju á Íslandi og að Siðmennt öðlist sömu lagalega stöðu og önnur lífsskoðunarfélög.

Siðmennt ákvað árið 2005 að úthluta árlega húmanistaviðurkenningu Siðmenntar. Árið 2005 hlutu Samtökin ´78 viðurkenninguna , árið 2006 Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður og í fyrra veitti Tatjana Latinovic henni viðtöku, en hún er formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna.
Einstaklingar, félagasamtök eða aðrir sem hafa lagt talsvert af mörkum í þágu mannréttinda á Íslandi eiga möguleika á að hljóta viðurkenninguna.
Stefna húmanismans birtist m.a. í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna, en í stefnuskrá Siðmenntar segir m.a.:

Siðmennt reynir að yfirstíga skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð. Siðmennt vill fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.

Sá sem hlýtur húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2008 eru félagasamtök sem eru hluti af alþjóðahreyfingu sem hefur sinnt óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi í um 150 ár. Starfsemin á sér stað nánast um heim allan og eru landsfélög nálægt 200 að tölu. Burt séð frá miklu hjálparstarfi um víða veröld hefur starf Rauða kross Íslands einnig vakið mikla athygli hér á landi. Þekkt eru skyndihjálparnámsskeið samtakanna um áraraðir, en mest áberandi eru sjúkrabifreiðarnar sem eru gefnar og reknar af Rauða krossinum. Samtökin reka athvörf fyrir geðfatlaða einstaklinga og Konukot, skjól heimilislausra kvenna, leggur til fangaaðstoð og fatasöfnunin er þekkt meðal allra Íslendinga svo eitthvað sé nefnt. Umfangsmikið net sjálfboðaliða er á vegum samtakanna sem heimsækir aldraða og sjúka eða fólk sem er einmanna.

Þá hefur einnig þótt vera til fyrirmyndar sú neyðaraðstoð og neyðarvarnir sem Rauði krossinn veitir við stóráföll og viðburði er snerta mikinn fjölda fólks. Minnisstæð eru fagleg viðbrögð samtakanna við jarðskjálftunum á Suðurlandi í sumar. Teymi fagaðila var mætt á staðinn einungis nokkrum klukkustundum eftir atburðinn og veitti mikilvæga aðstoð. Í fjármálakreppunni undanfarnar vikur hefur Rauði krossinn ekki heldur látið sitt eftir liggja og vakið athygli á neyðarnúmeri sínu (1717) fyrir fólk í vanda vegna andlegs álags.

Rauði krossinn vakti athygli þjóðarinnar á því nýverið að hælisleitendur hafa sömu mannréttindi og aðrir. Tilefni þessarar yfirlýsingar var að gerð var húsrannsókn í aðsetri hælisleitenda hérlendis af lögreglu. Samtökin hafa einnig mótað sér sérstaka stefnu varðandi aðstoð við útlendinga hér á landi og verið málssvari þeirra.

Rauði krossinn hefur, í samvinnu við stjórnvöld, staðið að móttöku flóttamanna hérlendis. Hófst það með komu hóps Ungverja á sjötta áratugnum og á síðasta áratug, með komu fólks í einum 7 hópum, frá löndum Balkanskaga vegna stríðsins þar. Síðan þá hafa tveir hópar kvenna með börn sín, komið frá Kólumbíu og nú í haust kom hópur kvenna og barna frá Palestínu. Í alla staði hefur vinna Rauða krossins við þessi verkefni verið til fyrirmyndar og vakið aðdáun og umræðu langt út fyrir landsteinana.

Ég hef aðeins tæpt stuttlega á hluta af einstöku starfi Rauða krossins og er grundvöllur starfsins mannúðarstarf og verndun heilsu og lífs, sem samrýmist hugmyndum húmanismans eins og lýst hefur verið hér í upphafi.

Það er mér það mikil ánægja að veita Rauða krossi Íslands Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar árið 2008 fyrir einstakt og óeigingjarnt starf í þágu mannúðar og heilsuverndar á Íslandi.

Húmanistaviðurkenning Siðmenntar er táknræn eðlis og samanstendur af viðurkenningarskjali og hógværri gjöf sem er listaverki eftir Elísabetu Ásberg og heitir „Flæði“.

Starfsfólki og stjórn Rauða kross Íslands óska ég til hamingju! Við fögnum innilega því mikla og einstaka hjálparstarfi sem þið sinnið dags daglega.
Fræðslu- og vísindaviðurkenning Siðmenntar 2008

Það er með mikilli ánægju að Siðmennt veitir í dag, í fyrsta sinn, Fræðslu-og vísindaviðurkenningu Siðmenntar fyrir mikilvægt framlag í þágu fræðslu um vísindi á Íslandi.

Ég vil byrja á því að segja hvers vegna Siðmennt lætur sig varða fræðslu um vísindi á Íslandi. Eitt af þremur megin viðfangsefnum félagsins er þekkingarfræði, sem er ein af undirgreinum heimspekinnar rétt eins og siðfræðin. Innan húmanismans er fjallað um eðli og uppsprettu þekkingar og skyld hugtök eins og skynjun, huglægni, hlutlægni, raunhyggju, rökhyggju og afstæðishyggju.

Í stefnu félagsins segir:

• Siðmennt telur að uppgötvanir í vísindum og nýjungar í tækni geti stuðlað að betra lífi. Þróun siðferðis þarf að vaxa jöfnum skrefum með þróun vísinda og þau þarf að nota til uppbyggingar, en ekki niðurrifs og eyðileggingar. Húmanisminn tekur mið af því að áreiðanleg þekking um okkur sjálf og heiminn verði til við stöðugt ferli athugunar, rannsóknar og endurskoðunar. Vísindin gefa okkur aðferðir og tæki, en mannleg siðferðisgildi verða að vísa leiðina.

• Siðmennt hvetur til gagnrýnnar hugsunar og telur að nýjar hugmyndir eigi að standast fræðilega rannsókn; að öðrum kosti eigi að vantreysta þeim.

Undanfarna tvo áratugi hefur fólkið í landinu lagt æ meira við hlustir á boðskap sjálfskipaðra gúrúa í óhefðbundunum heilsufræðum. Þessi illa skilgreindu fræði hafa fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum, bæði á prenti og í ljósvakamiðlum, oftast án nokkurrar gagnrýninnar skoðunar eða álitsgjafar fólks sem kann grunnvísindum góð skil.

Þrátt fyrir að stór hluti þjóðarinnar eigi að baki 10 til 14 ára skólagöngu og vaxandi hluti hennar þrjú til sex ára háskólanám að auki, fer þekkingu fólks á þekkingarfræði hrakandi. Fólk veit ekki hverju það á að trúa og hvernig það eigi að greina á milli tilbúnings og þekkingar sem fengin er á hlutlægan máta með áratugalöngu vísindastarfi. Mörk vísinda og gervivísinda eru máð út af djörfum heilsugúrúum með því að kasta rýrð á hefðbundin vísindi, en í leiðinni eigna sér vísindaleg hugtök sem notuð eru í bland við heillandi austrænar goðsagnir um líkamsstarfsemina.

Allt þjónar þetta óskhyggjunni um náttúrulegar lausnir og sjálfshjálp eftir leiðum fornra spekinga sem eiga að hafa búið yfir ótal leyndarmálum sem gúrúar nútímans hafa enduruppgötvað. Bransi þessa kukls veltir nú milljörðum dollara um heim allan og ungt fólk eyðir mörgum árum úr ævi sinni og talsverðum fjármunum í að nema gagnslaus gervifræði í skólum sem jafnvel eru kallaðir háskólar í vissum ríkjum Vestur-Evrópu.

Undanfarin ár hafa áhyggjufullir einstaklingar og lítil félög reynt að spyrna við fótum gegn þessari þróun á meðan ríkisstjórnin hefur aftur á móti létt á banni við alls kyns kukli og gefið því losaralegan lagaramma án virks eftirlits.

Einn þeirra einstaklinga sem hafa borið höfuð og herðar yfir sinnuleysinu í kringum sig og þorað að gefa þessari þróun rétt nafn og rétta lýsingu í opinberum fjölmiðlum er Pétur Tyrfingsson sálfræðingur. Í leiðinni hefur hann frætt fólk út á hvað vísindi ganga og hvers vegna útbreiðsla ranghugmynda um heilsuvernd, greiningar og meðferðir skaðar þjóðfélagið. Í eftirminnilegu Kastljósviðtali síðasta vetur talaði Pétur hreint út um málið og í fyrsta sinn í okkar minni kom þarna fram heilbrigðisstarfsmaður og fulltrúi heilbrigðisstéttar, sem dró ekkert undan og gaf þjóðinni heilsteypta mynd af því hvað væru vísindi og hvað gervivísindi. Stjórn Siðmenntar telur að með þessu hafi Pétur sett mikilvægt fordæmi fyrir heilbrigðisstéttir þessa lands og gefið tóninn fyrir því að góð vörn er oft besta sóknin.

Til verndunar faglegri nálgun og starfsháttum í allri fræðavinnu og heilsuvernd á Íslandi þarf fleiri Pétra. Ef það mætti klóna fólk myndum við mæla með því að það mætti framleiða nokkra fullbakaða Pétra Tyrfingsyni fyrir landið.

Fyrir hans mikilvæga framlag til varnar og eflingar vísindalegrar þekkingafræði á Íslandi vill stjórn Siðmenntar veita Pétri Tyrfingssyni Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar árið 2008. Hann fær viðurkenningarskjal og táknræna bókargjöf frá félaginu í tilefni þessa.

Bókargjöfin samanstendur af tveimur bókum sem tengjast frjálsri hugsun og heilsuvernd á Íslandi.

Sú fyrri er bókin Líf og lækningar – Íslensk heilbrigðissaga, eftir Jón Ólaf Ísberg. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag.
Þessi bók er full af fróðleik og athyglisverðum staðreyndum úr heilbrigðissögu þjóðarinnar sem er ákaflega athyglisverð í ljósi einangrunar landsins og örbirgðar um margar aldir. Framfarirnar hafa verið gífurlegar, en merkilegt nokk, þá hafa sumir hlutir ekkert breyst á sumum sviðum síðustu hálfa öldina. Til að skilja nútíðina fyllilega þarf að beina sjónaukanum af fortíðinni og við erum viss um að bókin á eftir að reynast Pétri vel við greinaskrif sín.

Sú síðari er bókin Andlegt sjálfstæði – Robert G. Ingersoll og Pjetur G. Guðmundsson, sem ritstýrt er af Óla Gneista Sóleyjarsyni fyrir útgáfufélagið Raun ber vitni og er fyrsta bókin í ritröðinni Sígild trúargagnrýni. Bókin inniheldur sex erindi eftir einn þekktasta mælskumann Bandaríkjanna á 19. öldinni, Robert G. Ingersoll, sem frægur var fyrir gagnrýni sína á trúarbrögð víða um heim. Þýðandi fjögurra af þessum erindum Ingersolls er höfundur fyrsta erindisins í bókinni, en það er verkalýðsleiðtoginn og ritstjóri Alþýðublaðsins, Pjetur G. Guðmundsson. Erindið nefndi hann Trú og trúleysi og flutti í ríkisútvarpinu í febrúar 1936. Var það eitt af níu erindum sem flutt voru í sérstakri trúmálaviku sem Útvarpsráð efndi til. Erindi Pjeturs er sérlega vandað og það er aðdáunarvert hversu þroskaða hugsun hann hafði á þessum málum og hversu vel upplýstur hann var í ljósi þess hve flæði upplýsinga var lítið í þá daga samanborið við í dag. Þau vandamál og mótsagnir í trúmálaumræðu þjóðarinnar, sem hann kynnir til sögunnar eiga mörg hver jafnt við í dag, sjötíu og tveimur árum síðar.
Pjetur G Guðmundsson, líkt og nafni hans Tyrfingsson er án efa ein af hetjum íslandssögunnar.
Um hann segir dótturdóttir hans Ágústa Þorkelsdóttir í stuttu æviágripi í bókinni:
„Pjetur G. Guðmundsson var ætíð á undan samtíð sinni í hugsun… Hann trúði því að með bættri menntun og þekkingu alþýðunnar mætti brjóta niður múra vesældar og fátæktar. Hann taldi ljóst að ekki dyggðu eingöngu hærri laun og bætt heilsa, [heldur einnig] gagnrýnin og frjáls hugsun.“

Við heiðrum Pétur Tyrfingsson sem með sanni má segja að haldi upp nafni frjálsrar hugsunar á Íslandi í dag og stórn Siðmenntar efast ekki um að nafni hans Guðmundsson hefði fagnað hér með okkur við þetta tækifæri.

Til hamingju!

Til baka í yfirlit