Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Stjórnarskráin og trúfrelsið

STJÓRN Siðmenntar sendi athugasemdir við frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Þar var lagt til að 62. grein stjórnarskrárinnar verði numin úr gildi og tengslum ríkis og þjóðkirkju verði einfaldlega skipað með lögum. Einnig verði þriðja efnisgrein 64. greinar felld niður, enda ekki eðlilegt að ríkið innheimti fyrir kirkjuna frekar en önnur félög í landinu. Í greinargerð þingnefndarinnar sem fjallaði um málið kemur fram að Siðmennt hafi gert athugasemdir, en ekki kemur fram hverjar athugasemdirnar voru og þaðan af síður var tekið mark á þeim í lokagerð frumvarpsins sem Alþingi samþykkti.


Það var orðið tímabært að endurskoða aldargömul mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Í frumvarpinu sem samþykkt var fyrir þinglok eru stigin nokkur skref í átt til nútímalegra mannréttinda sem almennt eru viðurkennd í alþjóðlegum sáttmálum sem Íslendingar eru aðilar að.

En skref þessi eru sorglega stutt. Það á einkum við um trúfrelsiskaflann. Þar eru aðeins gerðar smávægilegar orðalagsbreytingar en kaflinn þarfnast gagngerrar endurskoðunar ef hann á að standa undir nafni.

Félagið Siðmennt hefur aðallega beitt sér í trúfrelsismálum og gengst m.a. fyrir borgaralegri fermingu ár hvert. Félagið sendi athugasemdir um trúfrelsiskaflann en engin þeirra var tekin til greina.

Í áliti Siðmenntar er tekið undir þau orð í greinargerð með frumvarpinu (bls. 15) að trúfrelsi teljist vera meðal allra mikilvægustu borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda. Því var lagt til að þessum réttindum verði gerð skil í sama kafla og öðrum mannréttindum, en ekki í sér kafla þó það hafi þótt viðeigandi árið 1874.

Úrelt forréttindi þjóðkirkjunnar

Siðmennt telur það alvarlegasta galla frumvarpsins að ekki skuli vera hróflað við þeim forréttindum þjóðkirkjunnar sem bundin eru í 62. grein stjórnarskrárinnar, en þar segir: „Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“ Þegar þessi ákvæði voru sett árið 1874 var staða þjóðkirkjunnar allt önnur en hún er nú. Þá gegndi hún veraldlegu þjónustuhlutverki sem ríkið og fleiri aðilar hafa nú tekið við. Kirkjan gegndi lykilhlutverki í menntun, sálgæslu og skrásetningu sem skólar, heilsugæsla, sálfræðingar, lögfræðingar, félagsmálastofnanir, Hagstofa Íslands o.fl. hafa tekið við. Gera má ráð fyrir að trúarog lífsskoðanir fólks hafi verið einsleitari en nú þegar þjóðfélagið er margþættara, vísindin öflugri og tengsl við önnur menningarsvæði mikil og vaxandi.

Lögvernduð forréttindi kirkjunnar raska eðlilegu jafnvægi í trúmálum og skoðanamyndum, ekki síst efnahagslegu forréttindin. Stjórnarskrárákvæðið sem gilt hefur frá 1915, um að enginn sé skyldur tila greiða gjöld til annarrar guðsdýrkunar en þeirrar sem hann sjálfur aðhyllist, hefur komið að takmörkuðu gagni vegna forréttindanna sem lesa má út úr 62. greininni. Auk safnaðargjalda hefur ríkið styrkt þjóðkirkjuna um hundruð milljóna króna á ári gegnum almenna skattheimtu (m.a. laun presta) og það gjald greiða menn óháð því hvort þeir eru í þjóðkirkjunni eða hvort þeir trúi yfirleitt á nokkurn guð. Einnig er trúarbragða- og siðfræðikennsla í skólum einhæf og þröngsýn vegna yfirburðastöðu evangelísku lúthersku þjóðkirkjunnar.

Það eru alvarleg mistök að samþykkja nýja stjórnarskrá með ákvæði um löngu úrelt sérréttindi þjóðkirkjunnar. Samkvæmt tveimur skoðanakönnunum Gallups á Íslandi sem gerðar voru 1993 og 1994 er meirihluti þjóðarinnar fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju (55% 1993 og 62% 1994, af þeim sem afstöðu tóku). Búast má við að þessari skoðun vaxi fiskur um hrygg eftir því sem hugmyndir um almenn mannréttindi og þar með talið raunverulegt trúfrelsi ná rótfestu í þjóðarsálinni. Búast má við því að langur tími muni líða áður en stjórnarskránni verður breytt á ný og því er sorglegt að samþykkja nýja stjórnarskrá fyrir 21. öldina sem byggir á 19. aldar skilningi á trúfrelsi.

Siðmennt lagði til að núgildandi 62. grein stjórnarskrárinnar verði numin úr gildi og tengslum ríkis og þjóðkirkjuverði einfaldlega skipað með lögum. Einnig að þriðja efnisgrein 64. greinar verði felld niður, enda ekki eðlilegt að ríkið innheimti fyrir kirkjuna frekar en önnur félög í landinu. Í þessu felst stytting á stjórnarskránni sem er af hinu góða. Þessar athugasemdir komu mér vitandi ekki til umræðu í þinginu, hvað þá að þær væru teknar til greina.

Einnig vakti Siðmennt athygli á ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópu um rétt foreldra til að menntun barna þeirra samræmist trúar- og lífsskoðunum þeirra (sbr. greinargerð með frumvarpinu, bls. 10) og var lagt til að þessu ákvæði yrði fundinn staður í stjórnarskránni. Það var ekki heldur gert.

Hvenær fá þingmenn málið?

Hvers vegna þegja þingmenn þegar það kemur ítrekað fram í skoðanakönnun að meirihluti þjóðarinnar vill aðskilja ríki og kirkju? Hvað segja þeir sem nú eru að bjóða sig fram til þings? Ætla þeir að þegja líka?

Þeir sem vilja koma nútímalegu trúfrelsi á dagskrá í stjórnmálaumræðunni þurfa að láta t il sín taka. Þeir geta notað bæði Siðmennt og nýstofnuð samtök til aðskilnaðar ríkis og kirkju, SARK, til að samstilla kraftana.

Höfundur er formaður Siðmenntar, félags áhugafólks um borgaralegar athafnir.

Morgunblaðið 18. mars, 1995

Til baka í yfirlit