Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

SARK ályktar um jafna stöðu lífsskoðunarfélaga

Aðalfundur SARK (Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju) var haldinn í dag og ný stjórn kosin. Á fundinum var samþykkt mjög góð ályktun þar sem tekið er undir baráttu Siðmenntar að trúlaus lífsskoðunarfélög fá jafna lagalega stöðu og trúfélög.

Hér fyrir neðan ályktunin:

 

 

Aðalfundur Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju (SARK), haldinn að Hótel Lind í Reykjavík laugardaginn 18. febrúar árið 2006, gerir svofellda

Ályktun
SARK fagnar aukinni umræðu um og fylgi við þá grundvallarstefnu sína að aðskilja beri ríki og kirkju. SARK telur einsýnt að aðskilnaðarstefnan eigi sér mjög mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar og að aðeins sé tímaspursmál hvenær ríkjandi stjórnvöld og forysta Þjóðkirkjunnar svokölluðu láti loks undan síga gagnvart æ háværari röddum um að hrinda þessu jafnréttis- og réttlætismáli í framkvæmd.

Samtökin telja að við núverandi endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins hljóti Stjórnarskrárnefnd að taka skýra afstöðu til þessa mannréttindamáls. Niðurstaðan getur að mati samtakanna aðeins orðið sú, að 62. grein stjórnarskrárinnar verði að víkja, en þar er hinu lútersk evangelíska trúfélagi Þjóðkirkjunni veitt ólíðandi forréttindi.

Samtökin skora á Stjórnarskrárnefnd að nota tækifærið til að stíga stórt skref til þeirra mikilvægu umbóta sem í aðskilnaðinum felst. Samtökin leggja áherslu á jafnrétti fólks og stofnana, virðingu fyrir trú og siðum allra og réttinum til að standa utan allra trúflokka með óskert mannréttindi.

Það hlýtur að vera Stjórnarskrárnefnd og stjórnvöldum yfirleitt mikið umhugsunarefni að Þjóðkirkjan nær nú aðeins til 84% landsmanna og að um 48 þúsund Íslendingar séu nú utan Þjóðkirkjunnar, í ýmsum trúfélögum eða utan trúfélaga. Einn af hverjum sex landsmönnum tilheyra ekki forréttindakirkjunni en það samsvarar 10 þingmönnum af 63.

SARK bendir á að aðskilnaður ríkis og kirkju mun alls ekki standa trúariðkun fyrir þrifum og raunar er því öfugt farið. SARK leggst þannig ekki gegn ríkisframlögum til trúmála svo fremi sem þau eru á algerum jafnréttisgrunni og að fólk utan trúfélaga fái raunverulegt val um hvert sóknargjöld í þeirra nafni renna. SARK styður jafnframt fram komnar hugmyndir um að lífsskoðanafélög fái opinbera skráningu sem jafnast á við trúfélagaskráningu.

Samtökin fara þess vinsamlegast á leit við fjölmiðla að kynna fyrir lesendum sínum ofangreint efni.

kv., f.h. SARK,
Friðrik Þór Guðmundsson,
fráfarandi oddviti (formaður)
864 6365

Sjá nánar www.sark.is

Til baka í yfirlit