Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Jólahugvekja Siðmenntar 2020

Tryggvi Gunnarsson, athafnarstjóri, flutti jólahugvekju Siðmenntar á X-inu 977 á aðfangadagskvöld. Hlusta má á hugvekjuna í spilaranum hér að ofan, eða lesa hana í heild sinni hér fyrir neðan.

Kæri hlustandi.

Nú gleðjast allar þjóðir á Norðurhveli jarðar því daginn er tekið að lengja aftur. Vetrarsólstöðum er lokið og stysti og dimmast dagur ársins að baki. Þetta vitum við nú, og þetta vissu forfeður og -mæður okkar allt frá því þau lærðu að þekkja gang árstíðanna. Þau, líkt og við nú, skreyttu hús sín með sígrænum greinum, kveiktu ljós til að reka burt skammdegið og gerðu sér glaðan dag með fólkinu sem það elskaði.
Jólahátíðin hefur vissulega tekið mýmörgum stakkaskiptum gegnum aldirnar og árþúsundin, en í grunninn er inntakið hið sama. Nú fögnum við því að dagurinn lengist, heimurinn verður bjartari og lífið auðveldara.

Og við þurfum svo sannarlega á því að halda, að lífið verði auðveldara.

Ég vona svo innilega, áhlýðandi góður, að þetta hafi verið yndislegt ár þar sem draumar þínir hafa allir ræst. Að þú hafir liðið átakalaust gegnum mánuðina með bros á vör og sért nú að setjast til borðs með ástvinum þínum, híbýlin tandurhrein, sósan fullkomin, og að undir trénu bíði pakkinn sem inniheldur nákvæmlega það sem þú vissir ekki að þig langaði í en mun gleðja ótæpilega og bæta líf þitt óendanlega.
Þér óska ég gleðilegra jóla.

Við ykkur hin, hin 99,9 prósentin, hef ég þetta að segja: Þið getið þetta! Jú, þið getið þetta víst! Þetta er alveg að verða búið. Þetta leiðinda ár allra leiðinda ára 2020 er alveg að verða búið og það kemur aldrei, aldrei aftur.

Það er erfitt að hugsa til þess nú í svartasta skammdeginu hversu erfitt þetta ár hefur verið. Hamfarahlýnun, snjóflóð, heimsfaraldur, brennandi heimsálfur, óeirðir, efnahagsþrengingar, atvinnuleysi, og nú síðast hræðilegar aurskriður og eyðilegging. Hugur okkar er vissulega hjá fólkinu sem missti allt sitt þegar aurinn æddi niður hlíðarnar fyrir ofan Seyðisfjörð. Fólkið sem ekki fær að halda jólin heima hjá sér.
Og hugur okkar er líka hjá fólkinu í áhættuhóp sem ekki fær að hitta fjölskyldu sína í kvöld vegna veirunnar. Reyndar heldur ekki á morgun og heldur ekki fyrr en bóluefnið er komið.
Já, hugur okkar er hjá öllum þeim sem upplifa einsemd og söknuð í kvöld.

Maður er manns gaman segir í 47. versi Hávamála. Ég held að kórónavírusinn hafi reyndar afsannað það. Þar ætti miklu frekar að standa að maður er manns nauðsyn. Nánd og mannleg snerting er okkur jafn nauðsynleg og matur og skjól.

Hvern hefði til dæmis grunað að hægt væri að sakna handabandsins. Við vissum svo sem að það yrði erfitt að vera án faðmlagsins, en að sakna einhvers svo lítilfjörlegs sem handabands, að leggja hönd á öxl einhvers, að gefa eina góða klassíska fimmu, eða bara standa grímulaus við hliðina á einhverjum sem maður hefur ekki skilgreint sem einstakling í sama sóttvarnahólfi.

Ég hætti mér inn í stærstu húsgagnaverslun landsins í aðdraganda jóla og þar, á meðan ég beið í röð eftir að borga eitthvað dót sem ég þurfti í raun ekki og bar asnalegt nafn, straukst bláókunnug mannvera við öxlina mína er hún gekk framhjá. Ég vissi ekki hvort ég ætti að öskra á hana að við værum öll almannavarnir, eða leggjast undir spritt brúsann í anddyrinu, sturta mig, klára brúsann og biðja svo um annan. Það var reyndar þriðji möguleikinn, sem ég og valdi: að standa steinrunninn og hugsa til þess að fyrir utan unnustu mína og son minn er þetta sú manneskja sem ég hef upplifað mesta líkamlegu snertingu frá á seinni hluta ársins 2020. Mér finnst svona eftirá að hyggja að ég þyrfti að senda henni jólakort.

Við erum öll svelt. Svelt af mannlegum samskiptum og svelt af tækifærum til að sýna samúð, samhug og samkennd.
Og ég sé þennan sult allt í kringum mig og hvernig fólk grípur hvert tækifæri til að seðja hungrið. Í hópum á samfélagsmiðlum keppist fólk við að bjóða fram aðstoð við jólagjafakaup fyrir börn bláókunnugs fólks í fjárhagsvanda og slá svo skjaldborg um þá sem opna sig með sálarmein sín. Skólabörn neita að sitja aðgerðalaus hjá er vísa á vinum þeirra úr landi. Íbúar austur á héraði skilja eftir lykla að húsum sínum hjá Rauða krossinum og bjóða hverjum þeim Seyðfirðingi sem á þarf að halda að gista þar. „Svo er ísskápurinn líka fullur af mat. Takið það sem þið þurfið,“ bætir það við. Þetta fólk þekkist ekki neitt. En sammannleg samkennd einfaldlega kallar á þessi viðbrögð. Þessa samheldni.

Sjáið bara allt heilbrigðisstarfsfólkið okkar sem enn stendur vaktina. Alla kennarana sem enn standa í framlínunni og umturna öllum sínum kennsluaðferðum svo skólarnir og samfélagið allt gangi áfram. Björgunarsveitirnar sem fara út í hvaða veðri sem er án þess að hika.

Takk kæra fólk, fyrir hönd okkar hinna: Takk kærlega.

Eins og þjóðagersemin Kristján Kristjánson, KK, orti: Þá bræður hörfa og herja vítisöfl, til eru höfðingjar við Íslands bláu fjöll, sem heldur vilja deyja, en lifa í þeirri smán, að hafa ekki gefið sem þeir gátu verið án.

Verum meira eins og þetta fólk. Leitum uppi tækifærin að hjálpa og sýna samkennd.
Því þessi fítónskraftur, þessar sólstöður, búa innra með okkur öllum.

Mig langar að segja ykkur sögu sem inniheldur bæði þakklæti og samkennd út óvæntustu átt.

Þetta er saga sem amma mín heitin sagði mér þegar ég var barn og er sönn. Eða sönn eins og allar góðar sögur eru, og ég biðst afkomendur málhafandi aðila afsökunar fyrirfram ef eitthvað hefur skolast til í minni mínu.

En þegar amma mín var ung stúlka átti hún heima á Stað í Súgandafirði. Þangað getur verið erfitt að komast að vetrarlagi, og enn erfiðara er sagan okkar gerist. Næstu kaupstaðir voru og eru eru annars vegar Suðureyri og hinsvegar Flateyri, en til að komast þangað þurfti að fara yfir Eyrarfjall og það lék sér enginn að því að vetrarlagi.

Oft var margt um manninn í kotinu og sérstaklega um jólin, en þá voru allir sem þurftu húsaskjól velkomnir. Sagan gerist einmitt og auðvitað um jól.
Það var ekki alveg sami lúxusinn á jólamatnum þá og nú, en kannski einmitt þess vegna varð hann enn mikilvægari. Það sem meira er þá voru jólin eini tími ársins sem amma mín fékk epli. Fyrir henni var eitt epli öll jólin, öll jólin eitt rautt epli.
Þetta var reyndar einn kassi af eplum sem allir deildu sín á milli. Kassinn var sendur á Flateyri að sunnan og var svo sóttur af heimilisfókinu á Stað í aðdraganda jóla. Þá var hátíð. En það var yfir fjallveg að fara, munið. Eyrarfjall. Eða það var ekki einu sinni vegur. Bara slóði upp dalverpið, meðfram ánni, Þverá. Svo upp hlíðina sem endaði í brattri skriðu, Jökulbotnum, þar sem skaflinn hvarf ekki fyrr en í ágúst, ef hann hvarf nokkru sinni. Svo yfir Klofningsheiði og aftur niður með hinni alræmdu Skollahvilft.

Þetta var svaðilför sem farin var reglulega en það gerði sér það enginn að leik um vetur.

Þessi jólin var afskaplega snjóþungt og erfitt veður. Pósturinn tafðist og kassinn barst ekki inn á Flateyri fyrr en rétt fyrir jól. Og þar sat hann fastur því hríðin sá til þess að ófært var frá Súgandafirði.

Þið getið rétt ímyndað ykkur vonbrigði ömmu minnar og hinna barnanna. Ég á erfitt með að finna eitthvað að leggja að jöfnu við þetta í dag. Kannski að tilkynna börnum að það fái engar gjafir í ár. Eða fái ekki að horfa á sjónvarp fyrr en í júlí. Ég veit það ekki. En vonbrigðin voru djúp og sár er börnunum var tilkynnt að engin yrðu jóla eplin í ár.

Einn af gestum bæjarins þennan aðfangadag var eldri sjómaður. Stórskorið andlit hans var sjóbarið og erfitt lífið hafði gert augnaráð hans stingandi og miskunnarlaust. Hann var einstæðingur og sagði fátt. Eiginlega bara ekki neitt. Ég held að amma hafði aldrei heyrt hann tala. Hún og öll hin börnin voru hrædd við hann.
Börnin sátu og snökktu og reyndu að fela tárin. Ekki mátti eyðileggja jólin.
En þá brast eitthvað innra með gamla manninum. Án þess að mæla orð af vörum reis hann upp og arkaði beint út í storminn og skeytti ekki um varnarorð annarra gesta. Hann lokaði ekki einu sinni útidyrunum á eftir sér.
„Hann hefur ekki þolað vælið í krökkunum“ sagði einhver. „Hann hefur nú alltaf verið svolítið skrítinn þessi,“ hlakkaði í öðrum.
Amma, þrátt fyrir að vera bara barn, skynjaði að enginn bjóst við að sjá þennan mann á lífi framar.

Dagurinn leið á hefðbundinn átt. Úti lamdi hríðarbylurinn gluggana.

Rétt fyrir kl. sex var barið hraustlega að dyrum. Heimilisfólk jafnt sem gestir hrukku í kút. Það átti enginn heilvita maður að vera á ferð í þessum stormi. Fyrir utan stóð vera sem virtist vera að þremur hlutum úr ís, einum hlut úr ull. Og svo tvö stingandi augu. Já, og einn vel hrímaður eplakassi.
Hann hafði þá farið yfir fjallið, í storminum, og náð í kassann.
Ísinn var barinn utan af manninum, honum færð þurr föt og kaffi normal (kaffi með smá brennivíni), og að því loknu settist hann aftur á nákvæmlega sama stað og hann hafði staðið upp frá fyrr um morguninn. Án þess að segja orð.

Fyrir tilstuðla þessa manns fékk amma og öll hin börnin eplin sín, þau fengu jólin sín. Þessi maður sem lífi hafði fyrir löngu beygt að vilja sínum, sem var svo spar á orkuna að orðin urðu að munaði, hann gat ekki til þess hugsað að börnin yrðu án epla, án gleði, án jóla.

Amma var honum alltaf þakklát. Og í hvert skipti sem ég borða jólamatinn minnist ég sögunnar og þessa þakklætis. Ekki bara þakklætis fyrir bitann heldur fyrir það kraftaverk sem líf okkar og gjörvöll tilvera er.

Svo ég fái fallega hugmynd að láni frá Carl Sagan og geri að minni eigin, þá er í rauninni alveg ótrúlegt að við séum til, hér og nú. Bæði ég og þú, hlustandi góður. Heimurinn er svo gríðarlega stór. Hann samanstendur af óteljandi vetrarbrautum, enn fleiri sólkerfum og ennþá fleiri plánetum. Og á milli þeirra allra eru gríðarlegar fjarlægðir fylltar af köldu svörtu tómi.

Það er eiginlega ómögulegt fyrir okkur og hug okkar að ná utanum þessar vegalengdir og þessa kosmísku stærð.

En hugsið ykkur, bara takið smá augnablik núna og hugsið ykkur: Þrátt fyrir þetta allt, allt þetta ekkert, þá safnaðist nákvæmlega rétta efnið saman, réttu sameindirnar og efnasamböndin, á réttum stað og á réttri stund svo úr varð þú og ég. Skyni væddar verur sem færar eru um rökræna hugsun, tungumál, menningu, þakklæti, ást og samkennd.
Hugsið ykkur! Líkurnar á því að við séum hér og nú, þú að hlusta á mig, ég að tala til þín, þú sitjir með þeim sem þú situr með, horfir á þau sem þú horfir á, að þú einfaldlega dragir andann eru svo sannarlega og algjörlega á stjarnfræðilegum skala.

Við getum og ættum öll að vera þakklát. Fyrir að vera til og að nú fari daginn að lengja og nóttin að styttast. Njótið hvers munnbita af máltíðinni kvöld full þakklætis. Njótið þess að opna gjafir og fá þakkir fyrir gjafirnar frá ykkur. Faðmið þau sem þið megið faðma, hringið í öll hin og óskið þeim gleðilegra jóla. Njótið þess að íhuga í smá stund hvernig þið getið orðið að betri manneskjum og gert heiminn að betri stað fyrir fólkið sem þið elskið, þessi sem þið föðmuðu, þessi sem þið hringduð í og öll hin líka.

Njótið þess að 2020 er alveg að verða búið. 2021 er handan við hornið. Við getum þetta.

Gleðileg jól, öll sömul.

Sérstaklega þið sem ekki getið verið með ástvinum ykkar þessi jólin. Sérstaklega þið sem hafið misst og syrgt á árinu. Sérstaklega þið sem getið ekki verið heima hjá ykkur um jólin, og sérstaklega þið sem standið vaktina fyrir okkur hin í kvöld: Gleðileg jól.

Til baka í yfirlit