Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Könnun: Fleiri kristnir (68,8%) en trúaðir (46,6%). Rúmur fjórðungur viss um tilvist guðs

Um 46% Íslendinga telja sig trúuð ef marka má niðurstöður í könnun Maskínu. Um 30% segjast ekki vera trúuð og hartnær 24% geta ekki sagt til um hvort þau séu trúuð eða ekki.

Hlutfall þeirra sem trúa á guð er samt mun lægra því af þeim sem telja sig trúaða segja 61% að þau trúi á guð á meðan fjórðungur segist ekki hafa vissu fyrir því að guð eða æðri máttur sé til. Þannig virðist sem að rúmur fjórðungur (28%) Íslendinga sé visst um tilvist guðs (0,61 x 0,46).

Þrátt fyrir að innan við helmingur Íslendinga segist trúaður (46%) segjast fleiri en tveir af hverjum þremur játa kristna trú (68,8%). Fleiri eru semsagt kristnir en trúaðir.

Þessi niðurstaða kann að virðast mótsagnakennd en þegar svörin eru skoðuð nánar kemur í ljós að skilgreining svarenda á því að vera kristinn er ansi víð.

Þegar þeir sem segjast „játa kristna trú“ eru spurðir hvaða skilgreining lýsi best hvað gerir þá kristna kemur í ljós að rétt rúmlega þriðjungur (36%) af þeim sem segist játa kristna trú segist trúa á „Guð, Jesú, upprisuna og eilíft líf – aðhyllist boðskap Biblíunnar“.*

Meðal þeirra sem játa kristna trú er algengast (43,4%) að þeir skilgreini trú sína á þennan hátt: „Ég er ekki með öllu viss um tilvist Guðs en trúi á boðskap kristninnar og siðferði hennar“**
Um 20% þeirra sem játa kristna trú segjast „trúlaus“ eða ekki trúa á guð.

Því mætti velta fyrir sér hvaða skilning fólk leggur í þá fullyrðingu að “játa kristna trú”.
____

* Af heildinni er því tæpur fjórðungur sem aðhyllist boðskap Biblíunnar
** Af heildartölunni eru það því um 30% sem efast um tilvist Guðs en vilja þó setja sig undir hatt kristninnar.

[contentblock id=konnun2015]

Til baka í yfirlit