Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Fyrirmyndarferming í Ráðhúsinu

FÉLAGIÐ Siðmennt gekkst fyrir borgaralegri fermingu í 7. sinn sunnudaginn 26. mars sl. Undanfarin ár hafa athafnirnar verið í menningarmiðstöðinni Hafnarborg í Hafnarfirði en nú var hópurinn of stór til að rúmast þar. Leitað var eftir stærra húsnæði og varð niðurstaðan Ráðhús Reykjavíkur. Fermingarbörnin voru 29 og gestirnir rúmlega 300 svo Tjarnarsalurinn fylltist. Athöfnin var einstaklega falleg og virðuleg.


Íslenska orðið ferma er þýðing á latneska orðinu „confirmare“ sem merkir að styðja og styrkja. Tilgangur með borgaralegri fermingu er að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinganna til lífsins og búa þau undir fullorðinsárin. Leitast er við að kenna þeim að bera virðingu fyrir manninum, menningu hans og umhverfi.

Með kirkjulegri fermingu staðfestir einstaklingurinn skírnarheit og játast kristinni trú. Mörg ungmenni eru ekki reiðubúin til að vinna trúarheit, sum ekki kristin og önnur ekki trúuð eða trúa á guð á sinn hátt. Fyrir þau er borgaraleg ferming góður kostur.

Í borgaralegri fermingu felst námskeið sem lýkur með hátíðlegri athöfn. Hún getur komið í staðinn fyrir kirkjulega fermingu en dæmi eru um börn sem hafa fermst bæði borgaralega og kirkjulega. Borgaraleg ferming snýst lítið um trúarbrögð og ekkert tekið fyrir sem er andstætt kristinni trú eða öðrum trúarbrögðum. Leitast er við að virða trúfrelsi allra.

Fermingarathöfnin er verk barnanna sjálfra og foreldra þeirra. Foreldraráð sér um undirbúning í samvinnu við Siðmennt. Foreldrar stjórna athöfninni og afhenda skírteini um að hafa lokið námskeiðinu. Fengnir eru utanaðkomandi ræðumenn til að ávarpa börnin og leggja þeim lífsreglurnar. Í þetta sinn kom það í hlut Ingibjargar Sólrúnar borgarstjóra og fórst henni það vel úr hendi. Hún lýsti yfir ánægju með þetta nýja hlutverk Ráðhússins og bauð alla velkomna. Hún deildi með okkur skemmtilegum endurminningum frá því er hún var sjálf unglingur á fermingaraldri.

Fermingarbörnin flytja ávörp, lesa ljóð sem sum eru frumsamin, leika á hljóðfæri og fleira þess háttar og gera það ótrúlega vel. Þeim gefst þar tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Þau koma glæsilega og frjálslega fram og hafa mikilvægan boðskap að flytja okkur eldri kynslóðinni.

Mér finnst það mannbætandi og ánægjulegt að vera viðstaddur þessar athafnir, en þær eru öllum opnar meðan húsrúm leyfir. Ég vil því segja við Þórdísi Pétursdóttur, sem lét hér í blaðinu (1. apríl) í ljós áhyggjur yfir því að verið væri að afskræma kristilega athöfn og særa þá sem trúa þegar borgaraleg ferming fór fram í Ráðhúsinu: Komdu á næstu athöfn að ári liðnu og sjáðu með eigin augum hvað þar fer fram. Okkur þætti vænt um það því við viljum ógjarna að fólk beri ugg í brjósti að ástæðulausu.

ÞORVALDUR ÖRN ÁRNASON,

formaður Siðmenntar, félags áhugafólks um borgaralegar athafnir,

Heiðarholti 4, Keflavík.

FRÁ borgaralegri fermingu í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Morgunblaðið 8. apríl, 1995

Til baka í yfirlit