Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Alþingi færir lífsskoðunarfélögum aukið jafnræði með nýju lögum

Alþingi samþykkti í dag breytingar á lögum um skráð trúfélög sem innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, lagði fram sem stjórnarfrumvarp á síðasta þingi. Þau munu nú heita Lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Samþykkt breytinganna er mikið mannréttindamál en stærsta breyting frumvarpsins felst í því að veraldlegum lífsskoðunarfélögum er gert kleift að sækja um skráningu sem lífsskoðunarfélag. Þar með viðurkennir Alþingi að jafnræði skuli vera á milli veraldlegra og trúarlegra lífsskoðana hvað ýmsa grunnþætti varðar en frumvarpið snertir þó ekki á þeim lagalegu og fjárhagslegu forréttindum sem Þjóðkirkjan ein nýtur.

Þá er einnig mikið fagnaðarefni að nýju lögin kveða á um að nýburar séu ekki sjálfkrafa skráðir í trú- eða lífsskoðunarfélag móður, nema að faðirinn sé í sama félagi. Foreldrar með ólíka skráningu í trú- eða lífsskoðunarfélag þurfa að ákveða það saman hvort þau ætli að skrá barn sitt í eitthvert slíkt félag og þá ef að þau gera það, verða þau að komast að samkomulagi um það.

 

Siðmennt mun í framhaldi gildistöku laganna senda inn umsókn til ráðuneytis um skráningu sem lífsskoðunarfélag og tryggja þannig 300 félagsmönnum Siðmenntar jafnræði á við fólk sem skráð er í trúfélög.

Siðmennt hefur unnið að þessu máli í yfir tíu ár og fagnar því niðurstöðunni mjög. Þeir þingmenn sem lögðu málinu lið á undanförnum árum og greiddu því síðan atkvæði eiga þakkir fyrir og ekki síður hrós skilið fyrir að vinna mannréttindum lið.

Frumvarpið: http://www.althingi.is/altext/141/s/0132.html

Til baka í yfirlit