Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Hugsun er farsælli en trú

(Um borgaralega fermingu)

Eins og kunnugt er starfa ýmis trúfélög hér á landi og kyrja nær öll eitthvert tilbrigði við sama kristilega stefið. Það fólk sem þarna á í hlut lætur mikið til sín heyra. Samt sem áður er trúleysi í hraðri sókn í landinu, sein fram kemur í því að einungis örlítið brot þjóðarinnar sækir kirkju reglulega. Þetta er þróun sem á sér stað alls staðar í Evrópu, einnig í kaþólsku löndunum þar sem trúarhiti var til skamms tíma heldur meiri. Það skýtur því nokkuð skökku við að aldrei heyrist neitt í hinum stóra trúlausa meirihluta. Ein megin ástæða þess er vafalaust sú að margir telja það óþarft, tíminn vinni ótvírætt með þeim. Það er heldur mikil einföldun. Aðrir álíta að ekki sé hægt að ræða um trúarbrögð; trú byggist ekki á skynsamlegum rökum heldur tilfinningu. En einmitt það er ekki síst umræðu vert. Getur einhver trúarsetning verið heilög, þ.e. hafin yfir mannlega skynsemi? Er einhvern tíma réttlætanlegt að troða dómgreind sinni ofan í skúffu? Nei, og sérstaklega ekki þegar um er að ræða jafn jarðbundin trúarbrögð og kristnin er. Ekki hafa svo fáar styrjaldir verið háðar í hennar nafni. Og ef við lítum til Íslands, þá mun þjóðkirkjan og það sem henni tilheyrir kosta nálægt miljarði króna ár hvert. Hægt væri að gera ýmislegt við þá upphæð.

Trúleysingjar hafa mjög merkilegan málstað fram að færa. Þeir leggja áherslu á manninn og möguleika hans í stað forsjár þokukennds almættis. Það er miklu heilbrigðari og farsælli lífsskoðun, sérstaklega á viðsjárverðum tíma sem nú.

Annars var þessari grein ekki ætlað að vera almennt trúmálaspjall, heldur að kynna fyrirbrigði sem nefnist borgaraleg ferming. Eins og nafnið bendir til er borgaraleg ferming hugsuð sem valkostur við kirkjulega fermingu, á sama hátt og borgaraleg gifting er valkostur við kirkjulega giftingu. Hingað til hefur hið rússneska kerfi verið við lýði, þ.e. maður getur valið prestinn eða sleppt öllu saman, og það er ekki raunverulegur valkostur að gera eitthvað ekki.

Í Noregi hefur borgaraleg ferming tíðkast í 35 ár og nú ferm ast þar 10% barna borgaralega ár hvert, þ.e. nokkur þúsund börn, á um 90 stöðum. Þar er því sterk hefð komin á. í Danmörku er þetta einnig vel þekkt; þar er gengið milli unglinganna í skólum og þau spurð hvort þau vilji kirkjulega eða borgaralega fermingu. Svipaða sögu er að segja í ýmsum öðrum löndum.

Því hefur verið slegið fram að ferming sé trúarleg athöfn og geti ekki verið borgaraleg. Það er misskilningur, við breytum inntaki hennar úr kirkjulegu í borgaralegt. Kirkjan breytti jólunum eftir sínu höfði, úr heiðinni hátíð ljóssins í fæðingarhátíð Krists. Ekki verður amast við því hér, fjarri því, fólk á að halda upp á jólin eins og það kýs, trúarlega eður ei, með eða án gjafa o.s.frv. Athyglisvert er að orðið jól mun vera úr heiðni. íslenska kirkjan hafði ekki fyrir að breyta því eins og sú enska (Christmas).

Giftingar eru einnig til í ýmsum tilbrigðum. Þær þekktust löngu fyrir tíð kristninnar og hafa verið tíðkaðar í samræmi við stund og stað, þ.e. á ótal vegu. Hér á ís landi eru þær aðallega tvenns konar, kirkjuleg og borgaraleg.

Orðið ferming er dregið úr latínu, þar sem það merkir styrking. Borgaralegri fermingu er einmitt ætlað að styrkja einstaklinginn, en ekki í trú, heldur í því að lifa og starfa á sem heilbrigðastan og gæfuríkastan hátt í nútímasamfélagi. Unglingsárin eru valin til þess þar sem einstaklingurinn er þá að hverfa úr hinum verndaða heimi barnsins og taka á sig skyldur og réttindi fullorðinsáranna.

Nú hefur dálítill hópur tekið sig saman um að efna til borgaralegrar fermingar í Reykjavík og verður sú fyrsta vorið 1989. I upphafi verður haldið námskeið fyrir unglingana, þar sem þau koma saman nokkrum sinnum, eina klukkustund í senn. Eftirtalin umræðuefni verða á dagskrá:

1. Kynning til hvers borgaraleg ferming.

2. Unglingar fyrr og nú.

3. Jafnrétti.

4. Samskipti foreldra og unglinga.

5. Að vera saman.

6. Siðfræði.

7. Réttur unglinga í þjóðfélaginu.

8. Stríð og friður.

9. Umhverfismál.

10. Mannréttindi.

11. Vímuefni.

12. Að vera virkur þátttakandi í þjóðfélaginu.

Námskeiðið verður líkast til haldið 1 einhverri kennslustofu miðsvæðis í Reykjavík. Fyrst á dagskrá hvers fundar verður framsöguerindi, en síðan koma umræður þar sem lögð verður áhersla á þátttöku sem flestra. Alltaf verður nýr frummælandi við hvert umræðuefni og hefur valist til þess prýðilegt fólk, það

besta sem okkur foreldrunum gat dottið í hug. Þeir koma úr ýmsum áttum (tveir af Alþingi, tveir úr háskólanum o.s.frv.) og hafa mismunandi lífsskoðanir. Hins vegar hafa þeir það sameiginlegt að vera velviljaðir borgaralegri fermingu og hafa unnið að sínum málaflokki.

Að námskeiðinu loknu, í apríl 1989, verður síðan höfð lokaathöfn í virðulegum húsakynnum. Lögð verður áhersla á að aðstandendur fermingarbarnanna sæki hana, bæði foreldrar og aðrir. Við athöfnina verður hljóðfæraleikur, upplestur og einn eða fleiri leikmenn, valdir af foreldrum, munu halda 58 mínútna ræðu. Að lokum verður unglingunum afhent skírteini til staðfestingar á þátttöku þeirra. Eftir það fer hver til síns heima. Veisluhöld hafa menn eftir sínu höfði.

Hér á Íslandi hafa fermingar verið fyrst og fremst tilefni til veisluhalda. Það sést best á því að aðstandendur fermingarbarnanna láta langfæstir sjá sig við athöfnina sjálfa en fjölmenna í veisluna. Það þykir þeim fermdu allt í lagi, því þeir fá gjafirnar engu að síður og fyrir þeim eru þær aðalatriðið.

Ef teknir eru út hinir jákvæðu þættir í kirkjulegum fermingum þá eru þeir heillaóskirnar sem unglingurinn fær og þau vináttu og ættarbönd sem styrkjast í veislunum. Hvort tveggja verður einnig til staðar í hinum borgaralegu fermingum. Hins vegar mætti ýmislegt vera á annan veg en verið hefur, auk boðskaparins. Þar á meðal er samkeppni foreldranna um að hafa sem stærsta og íburðarmesta veislu og metingurinn milli fermingarbarnanna um gjafir sínar. Einn fær kannski „bara“ 35 þúsund krónur þegar annar fær 100 þúsund og auk þess stereogræjur, sem hann hefur reyndar engan áhuga á að nota. Þá segir sá fyrrnefndi: „Fólkinu mínu finnst ég bara svona annars flokks.“ Hinn síðarnefndi hugsar með sér: Ég hlýt að vera eitthvað merkilegur. Hvorugur hefur rétt fyrir sér að sjálfsögðu.

Nú, þegar ný hefö er að sjá dagsins ljós með borgaralegri fermingu, ætti að hvetja þátttakendur í henni til að draga úr fjáraustrinum, bæði í veitingum og gjöfum. Jafnvel mætti ákveða hámarksupphæð sem gjöf ætti að kosta. Unglingarnir hafa ekkert við allt þetta dót og peninga að gera, hafa auk þess ekki unnið til þess. Ekki er heldur ástæða til að setja fjárhag fjölskyldna úr skorðum vegna fermingar. Þetta mikla tilstand þekkist yfirleitt hvergi annars staðar í heiminum og á ekkert frekar heima hér.

En nóg um það, lesandinn er vonandi betur að sér um hvað borgaraleg ferming er. Þeir sem áhuga hafa á að vera með að þessu sinni skulu hringja í síma 73734 (það er enn ekki of seint).

Helgi er sagnfræðingur í Reykjavík og er í stýrinefnd fyrir borgaralega fermingu.

Til baka í yfirlit