Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Skýrsla formanns – febrúar 2005

2004 var erfitt ár hjá Siðmennt en ekki man ég nú eftir neinu auðveldu ári heldur! Mörg verkefni eru í biðstöðu og mikill kraftur og tími fara í leit að styrkjum og viðurkenningu sem lífsskoðunarfélag á sama grundvelli og trúfélög. En auðvitað gerðist ýmislegt jákvætt, spennandi og gefandi á árinu hjá okkur.


Verkefnin sem stjórnin vann að síðasta árið eru eftirfarandi:
• Við sóttum um skráningu sem trúfélag í annað skipti eftir að hafa fengið neitun fyrir tveimur árum síðan. Þetta var gert til að prófa lög sem við teljum að standist ekki stjórnarskrá Íslands. Við teljum, og höfum fengið ábendingar um, að Siðmennt sem lífsskoðunarfélag uppfyllir öll þau skilyrði sem koma fram í lögunum. Við höfðum líka fengið hvatningu og ábendingar um að það hefðu verið mistök hjá yfirvöldum að hafna fyrstu umsókn okkar og að við munum fá þessa skráningu og þann fjárstuðning sem trúfélög fá, ef að við sækjum um aftur. Okkur var sagt að aðilar sem stóðu gegn okkur 2002 myndu ekki gera það núna. Umsókn okkar í annað skipti var ítarlegri, auk þess sem við fengum stuðningsbréf frá Human Etisk Forbund (HEF) systurfélag okkar í Noregi, sem fór nákvæmlega sömu leið fyrir 23 árum og var viðurkennt sem trúfélag. Seinna fékk HEF norsku lögunum breytt þannig að öll trúfélög voru skilgreind sem lífsskoðunarfélög.
Umsókn Siðmenntar var lögð inn í lok mars 2004 og þrátt fyrir fyrirspurn okkar um gang mála, hefur erindi okkar ekki enn verið svarað. Stjórnin telur að það hafi tekið yfirvöld óeðlilega langan tíma að svara þessu erindi og er að íhuga næsta skref.

• Glæsileg og vel heppnuð Borgaraleg fermingarathöfn var haldin í apríl í fyrra með 85 ungmennum. Við fengum ýmis konar aðstoð frá nokkrum félögum í Samfélagi trúlausra, sem er virkur umræðuhópur Siðmenntar. Stjórnin þakkar Óskari Ásgeirssyni sérstaklega fyrir að taka athöfnina upp á DVD og bæta bæði glærum og ljósmyndum frá athöfninni inn á diskinn. Þess má geta að í vetur eru 93 ungmenni í fermingarhópnum þar af eru fjögur af þeim sem búa erlendis og taka þátt í fjarnámi eða í sama námskeiði hjá systurfélagi okkar í Noregi. Nemum í fjarnámi fjölgar stöðugt. Þetta er langstærsti fermingarhópur hingað til og við finnum sárt fyrir plássleysinu í stærsta sal Háskólabíós. Það er greinilegt að innan skamms þurfum við að halda tvær athafnir á ári hverju. Fermingarathöfnin er ein besta auglýsingin okkar og það er mjög slæmt að þurfa að takmarka fjölda gesta sem hvert fermingarbarn getur komið með.

• Undirbúningur að ráðstefnu Atheist Alliance International (AAI) sem verður haldinn á Íslandi sumarið 2006 er hafinn. Ráðstefnan sjálf verður 24.-26. júní 2006. Bráðabirgðadagskrá er komin, hótelherbergi frátekin og úrval af skoðunar- og skemmtiferðum eru í boði. Karólína Geirsdóttir, gjaldkeri Siðmenntar, sem hefur fagþekkingu á þessu sviði hefur séð um undirbúninginn enn sem komið er. Auglýsing um þetta hefur verið sett á heimasíðu AAI og verður auðvitað sent víðar á næstunni. Við höfum þegar fengið fyrirspurnir frá nokkrum mjög áhugasömum aðilum. Þetta verður stór atburður í sögu trúleysis á Íslandi og stórt verkefni næsta ár.

• Siðmennt tók þátt í að endurvekja Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju (SARK) með því að aðstoða við að undirbúa kraftmikið málþing um aðskilnað ríkis og kirkju 1. júní 2004. Ég og Sigurður Hólm, varaformaður Siðmenntar, erum í stjórn SARK. Sigurður er einnig vefstjóri SARK og hannaði nýja vefsíðu. Um 45 manns sóttu þetta málþing og tóku virkan þátt í umræðunni sem var stundum mjög heit. Þetta sparaði okkur hjá Siðmennt vinnu, því það var á dagskrá okkar að halda sambærilegt málþing.

• Stjórnin hefur lagt mikla vinnu í mál sem við köllum óeðlileg tengsl trúar og skólastarfs. Bréf var sent til allra í fræðsluráði og leikskólaráði varðandi íhlutun trúarhópa í skólarstarfi. Félagið hefur mörg staðfest dæmi um slíkt og skoða má þau á vefsíðu okkar. Einnig sendum við bréf til Jafnréttisnefndar og fréttatilkynning var send á alla fjölmiðla. Varaformaðurinn var í kjölfarið beðinn um að koma í viðtal á Bylgjunni ásamt Gunnari Þorsteinssyni, forstöðumanni í Krossinum. Símakönnun sem Bylgjan gerði á eftir sýndi mikinn stuðning við okkar sjónarmið. Einn leikskólastjóri hafði samband við okkur og kvartaði yfir trúboði í leikskólum og hrósaði okkur fyrir að vekja athygli á málinu. Leikskólaráðið hafnaði fullyrðingu okkur um að trúboð sé stundað í leikskólum. Fræðsluráðið svaraði aldrei erindinu þrátt fyrir að fulltrúar Siðmenntar hafa farið þrisvar á fundi með Stefáni Jón Hafstein, formanni Fræðsluráðs. Þrátt fyrir munnlega stuðningsyfirlýsingu frá honum bar erindi okkar engan árangur. Jafnréttisráðgjafi Reykjavíkur tók okkar mál upp í nefnd um fjölmenningarstefnu borgarinnar og í kjölfar hefur verkefnisstjóri frá Skrifstofu Borgarstjóra lagt okkur lið til að reka á eftir svari frá fræðsluyfirvöldum Reykjavíkur og að eitthvað verði gert. Síðan þá hafa leikskólaráð og fræðsluráð verið sameinuð og heitir nú Menntaráð Reykjavíkurborgar. Fulltrúar Siðmenntar voru boðaðir á fyrsta fund þess 3. febrúar s.l. Við afhentum öllum í ráðinu möppu sem hafði að geyma ýmsar upplýsingar um trúboð í skólum og tillögur Siðmenntar til úrbóta. Í möppunni var einnig nýleg skýrsla frá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þar sem stjórnvöld í Noregi eru áminnt og leiðréttingar krafist á ýmsum mannréttindabrotum sem eru framin i kristinfræðikennslu þar í landi. Þess má geta að Norska kristinfræðikennslan er næstum því eins og hin Íslenska. Bjarni Jónsson flutti einstaklega sterka ræðu á fundinum og ákveðið var að láta lögmann Reykjavíkurborgar fara yfir málið með tilliti til skýrslu Sameinuðu þjóðanna og hvort hún á við hérna. Siðmennt vakti sérstaklega athygli á því að öll þau dæmi sem Siðmennt hefur undir höndum brjóta gegn Fjölmenningarstefnu Reykjavíkurborgar. Siðmennt ætlar að hefja umræður við ráðamenn menntamála á Alþingi með það fyrir augum að breyta námsskrá í átt til fjölmenningar og trúfrelsis. Í stað þess að einskorða kennslu við kristinfræði er heillavænlegt að kenna almenna siðfræði, heimspeki og gagnrýna hugsun.

• Á vel sóttu og spennandi málþingi Vinstri Grænna um trúfrelsi 19. febrúar s.l. flutti Sigurður Hólm Gunnarsson, varaformaður Siðmenntar, ræðu um hvers vegna trúfrelsi sé mikilvægt. Eftir flutning framsöguerinda fóru fram mjög heitar umræður um trúfrelsi, ólíkar lífsskoðanir, og trúarbragðafræðslu í skólakerfinu þar sem mjög margir tóku til máls. Í kjölfar þess var sviðsljósi fjölmiðla beint að Siðmennt dag eftir dag með mikilli umfjöllun í sjónvarpi, útvarpi, dagblöðum, og á ýmsum vefsíðum um trúboð í skólum. Sigurður hefur komið fram í mörgum viðtölum og staðið sig með ágætum. Bæði félagsmenn og utanfélagsmenn hafa haft samband við okkur og þakkað okkur fyrir þetta þarfa framtak. Auk þess hefur nýtt fólk gengið í félagið. Í umfjöllun fjölmiðla hefur fengist staðfest opinberlega að trúboð er reglulega stundað í mörgum skólum hér á landi. Við erum stolt af því að hafa loksins vakið almenna umræðu um þetta mál í íslensku samfélagi. Sigurður hefur einnig fengið boð um að tala á fundum hjá ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka og hann hefur einnig verið fengin til að taka þátt í þemaviku í framhaldsskóla til að ræða trúfrelsismálið.

• Siðmennt ásamt fleiri aðildarfélögum Evrópsku Húmanista Samtakanna (PMF) skrifaði undir mótmælayfirlýsingu gegn ákvæði 51 (sem varð seinna ákvæði 52) sem innihélt setningu sem studdi Kristni sem aðal menningararfleið Evrópu í Stjórnarskrá Evrópu sem var samþykkt til bráðabirgða í apríl 2004. Mótmælin báru árangur og þetta ákvæði var fellt niður en baráttan er alls ekki búin vegna þess að stjórnarskráin bíður nú eftir að verða samþykkt í öllum 25 löndum Evrópusambandsins. Vatíkanið er ennþá að þrýsta mjög á nokkur aðildarlönd til þess að gera sáttmála milli páfa og ríkisvalds um réttarstöðu kaþólsku kirkjunnar og annarra kirkjulegra málefna til þess að missa ekki völdin. Slíkir sáttmálar fara augljóslega í kringum lýðræðið.

• Stjórninni finnst tímabært að leggja miklu meiri áherslu á Húmanisma nú þegar félagið er orðið 15 ára gamalt. Í staðinn fyrir að kynna Siðmennt einungis sem félag um borgaralegar athafnir, viljum við kynna siðrænan Húmanisma sem göfuga og jákvæða lífsskoðun. Við leggjum fram laga-og stefnuskrárbreytingartillögur í samræmi við þessa ákvörðun.

• Stjórnin hefur ákveðið að veita árlega Húmanistaverðlaun til að vekja athygli á Siðmennt, húmanisma og störfum og/eða afrekum í þágu manngildisstefnu. Þriggja manna undirbúningsnefnd hefur verið stofnuð og búið er að ákveða hvaða aðili fær þessi verðlaun í ár. Við fengum verkefnaskrá frá HEF sem fyrirmynd.

• Við erum að bæta vefsíða okkar í samræmi við þessar nýu áherslur um að kynna siðrænan Húmanisma betur.

• Í september sendi Siðmennt öllum fjölmiðlum fréttatilkynningu um “Fullt jafnrétti samkynhneigðra á Íslandi”. Það er stefnan okkar að senda oftar fréttatilkynningar um efni sem eru í brennidepli til þess að kynna félagið og siðræna lífsskoðun okkar betur. Í desember sendum við mótmælabréf varðandi skerðingu ríkisins á fjárframlögum til Mannréttindaskrifstofu Íslands. Bréfið var sent á alla alþingismenn og á alla fjölmiðla.

• Siðmennt sendi inn umsagnir á tveimur þingsályktunartillögum til Alþingis í desember: um stofnfrumurannsóknir og um vald og lýðræði.

Annað sem hefur gerst síðasta árið:
• Við fengum þrjár heimsóknir frá erlendum Húmanistum. Fyrst komu Írsk hjón í apríl og mættu á SAMT fund og sögðu frá stöðu trúleysingja á Írlandi sem er vægast sagt erfið. Í júní komu hjón frá Kaliforníu úr sama Húmanistafélagi og Dr. Michael Newdow sem fór í mál nýlega gegn ríkisvaldi í BNA um notkun frasans “under God” í bandaríska hollustueiðnum. Loks kom þekktur Húmanisti, Dennis Middlebrooks frá New York, í júlí. Nokkrir félagar í SAMT hittu þessa gesti á kaffihúsi og áttum við fróðlegt og ánægjulegt spjall við þá alla.

• Siðmennt fékk frábæra stuðnings- og vináttu gjöf frá HEF, systurfélagi okkar í Noregi. HEF sendi okkur 150 lítil og sæt alþjóðleg barmmerki Húmanista. Stjórnin hefur ákveðið að selja þau og leggja peningana inn á sjóð til að standa straum að hugsanlegum kostnaði við málsókn á hendur ríkisvaldinu ef Siðmennt fær ekki sömu réttindi og trúfélög eftir öðrum leiðum.

• Hin árlega sumargrillveisla SAMT var haldin í Heiðmörk, í fyrsta skipti í rigningarveðri, en 14 manns komu samt og skemmtu sér vel.

• Hulda Katrín Stefánsdóttir hætti í stjórninni í miðju kjörtímabil vegna anna og tveir fyrrverandi stjórnarmenn, Bjarni Jónsson & Jóhann Björnsson gerðust óformlegir bakhjarlar stjórnarinnar og mættu oftast á stjórnarfundi. Vinnuframlag þeirra var ómetanlegt og vonumst við að fá fleiri áhugasama í áframhaldandi stuðningshóp stjórnarinnar.

• Það var ánægjulegt að sjá tengil á vefsíðu Siðmenntar á heimasíðu Íslenska sendiráðsins. Einnig eru „kontakt“ upplýsingar um Siðmennt í upplýsingamöppu fyrir útlendinga sem Aljóðahúsið gefur út og á heimasíðu Alþjóðahússins.

• Við fáum oft hrós fyrir heimasíðu okkar.

• Við höfum fengið 20 nýja félaga síðasta árið. Nýir félagar virðast bætast við mánaðarlega. Nokkrir skráðu sig í félagið strax eftir málþing SARK um aðskilnað ríkis og kirkju í júní og fleiri skráðu sig fyrir nokkrum dögum síðan, þegar Siðmennt hafði verið mikið í sviðsljósinu vegna umræðunnar um trúboð í skólum.

• Það var ágætis viðtal við Sigurður Hólm í tímaritinu “Uppeldi” um trúarlega mismunun í skólakerfinu.

• Í desember skrifaði Þráinn Bertelsson rithöfundur mjög neikvæða grein um trúleysingja. Hann var harðlega gagnrýndur af hálfu félaga úr Samt, Siðmennt, Vantrú, og Skeptikus. Það kom fullt af greinum og í kjölfarið baðst Þráinn afsökunar á orðum sínum.

• Nokkrir grunnskóla-og leikskólakennarar hafa haft samband við Siðmennt og sagt frá andstöðu þeirra við að vera stundum þvingaðir í að taka þátt í trúáráróðursstarfsemi sem fer fram í skólum og þakkað okkur fyrir stuðning okkar í þessari mannréttindabaráttu. Við höfum velt því fyrir okkur hvort grundvöllur er fyrir hendi að hvetja til stofnunar einhvers konar vinnuhóps kennara sem vilja gera skóla hlutlausa gagnvart trúarbrögðum.

• Á hverju ári hafa nokkrir nemendur á framhalds- og/eða háskólastigi samband við Siðmennt til að afla sér upplýsinga fyrir verkefni sem þau eru að vinna um borgaraleg fermingu, aðrar borgaralegrar athafnir, eða samband ríkis og kirkju.

• Stjórn Siðmenntar fagnar því að nú blómstra nokkrir hópar fríþenkjara, trúleysingja, húmanista, rökhyggjumanna, og efahyggjumanna á Íslandi. Húmanismi og trúleysi eru að verða sýnilegri. Þetta finnst okkur jákvæð þróun vegna þess að það opnar augu almennings fyrir því að til eru ólíkar lífsskoðanir hér á landi. Þetta er ekkert nema eðlilegt! Það er fínt að fólk hefur úrval af samtökum til að velja á milli. Það hefur alltaf verið slagorð hjá okkur að það er dýrmætt að eiga val. Hóparnir hafa mismunandi áherslur en stefna að því að vinna saman að sameiginlegum markmiðum.

Baráttan fyrir raunverulegu trúfrelsi á Íslandi er löng og hörð en jafnframt afar mikilvæg. Það er stefna Siðmenntar að halda áfram að vekja athygli á þessum og öðrum mannréttindamálum á komandi árum.

Ég þakka áheyrnina,

Hope Knútsson

Til baka í yfirlit