Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur við borgaralega fermingu í Reykjavík, 20. mars 2021

Ræða Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur við borgaralega fermingu í Reykjavík, 20. mars 2021

Bergrún Íris Sævarsdóttir hélt ræðu við borgaralega fermingu í Reykjavík þann 20. mars 2021. Bergrún er margverðlaunuð myndlistarkona og barnabókahöfundur.

 

Til hamingju með daginn ykkar!

Þegar ég sagði sex ára syni mínum að ég yrði hér í dag, að tala í fermingarathöfn, þá spurði hann mig hvað ferming væri. Þegar ég hafði gert mitt besta til að útskýra þennan merkilega dag í lífi ykkar sem hér sitjið, þá sagði hann brosandi: „Já, ég skil, ferming er svona eins og að giftast?!“

Honum var fúlasta alvara og í staðin fyrir að leiðrétta hann strax þá velti ég þessu fyrir mér í smá stund. Ferming er nefnilega dálítið eins og að giftast sjálfum sér. Í dag getur þú tekið ákvörðun um að elska sjálfa þig að eilífu, lofað að koma vel fram við þig og sýna þér virðingu, að hlusta á innsæið þitt og leyfa þér að vera þú. Þegar þú berð virðingu fyrir þér þá tekurðu sjálfkrafa réttar og góðar ákvarðanir. Þú fylgir ekki plani annarra í blindni, leyfir engum öðrum að ákveða hvað þú gerir í lífinu. Þú meiðir ekki eða níðist á öðrum því innst inni veistu að þú ert ekki þannig manneskja. Þú hlustar alltaf fyrst og fremst á hjartað þitt, eða magann því sumir finna innsæið í maganum. Ég fæ til dæmis alltaf stressmagapínu, svona klukkutíma áður en ég á að standa á sviði. Í stað þess að þagga niður í tilfinningunni þá hlusta ég á hana, viðurkenni að ég sé stressuð eða hrædd. Svo nota ég tilfinninguna sem hvatningu því hún merkir að ég sé að fara að gera eitthvað sem skiptir máli, og þá líður mér vel.

Það er ekki alltaf auðvelt að hafa stjórn á tilfinningunum sínum, hvort sem það er gleði, stress eða reiði. Stundum kemur það fyrir að einhver fer rosalega í taugarnar á mér en þá reyni ég að loka augunum og ímynda mér þá manneskju eins og hún var þegar hún var lítið barn. Við vorum nefnilega öll einu sinni lítil og krúttleg, saklausir óvitar sem gerðu fullt af mistökum, og það var allt í lagi. Það er enginn alveg fullorðinn eða fullkomin. Við erum bara að læra á heiminn, dag frá degi, og öll gerum við mistök. Þegar þú lærir eitthvað nýtt skaltu hafa litla barnið í huga. Sjáðu fyrir þér lítið barn sem er að læra að labba. Við myndum aldrei skamma barnið, gagnrýna það í hverju skrefi og segja því að drífa sig. Þvert á móti myndum hvetja barnið áfram og gleðjast yfir litlu skrefunum, vitandi að á morgun bætast fleiri skref við. Það sama getum við gert fyrir okkur sjálf þegar við lærum á hljóðfæri, lærum nýja íþrótt, æfum okkur í samskiptum eða stærðfræði. Í stað þess að skamma okkur fyrir mistökin skulum við fagna hverju skrefi. Persónulega elska ég mistökin mín. Ég eyddi allt of mörgum árum í að vanda mig við hvert einasta blýantsstrik, stroka út, henda blaðinu, byrja aftur. Á endanum átti ég nokkrar fínar teikningar, en þær voru svo ofboðslega vandaðar og ofunnar að þær voru gjörsamlega hundleiðinlegar. Þegar ég hins vegar lærði að teikna svolítið brussulega, og leyfa mér að teikna hraðar og hráar myndir, þá fyrst urðu teikningarnar mínar fullar af lífi. Þetta gildir um allt sem við tökum okkur fyrir hendur. Listaverk, samskipti, ritgerðir, nám og ferðalög - allt þetta lifnar við þegar þú leyfir leik og gleði að stjórna, þegar þú sleppir því að dæma þig í sífellu, stroka út og byrja upp á nýtt. Ég hef lært eitthvað mikilvægt af öllum mínum mistökum. Sum mistök hafa kennt mér hvaða tól og tæki ég vil nota í vinnunni og hver ekki, önnur mistök sýna mér hvernig ég get skipulagt mig betur.

Ímyndið ykkur stiga, héðan og upp í átt að einhverju markmiði - Markmiðið er þarna uppi, og ég kemst ekki þangað nema ég smíði mér stiga. Hver einustu mistök eru þrep í stiganum sem ég er að smíða. Fyrsta bókin sem ég skrifaði var ekki fullkomin. Sumt hefði mátt vera betra, en það þýðir að næsta bók verður betri og þannig fer ég upp um þrep. Ef ég skrifa fullkomna bók, þá getur sú næsta ekki orðið betri. Þá verður ferillinn minn hundleiðinleg, flöt lína og ég missi af því að komast upp á topp. 

Þegar ég var að læra teikningu í Myndlistaskólanum í Reykjavík þá vorum við 12 saman í bekk. Ég var alls ekki besti teiknarinn. Það voru margir miklu betri en ég. En draumurinn minn var að búa til barnabækur. Svo héldum við útskriftarsýningu í stórum sal. Frábær listaverk prýddu veggina og ég vissi að mitt var ekki það besta á svæðinu. En þegar ritstjóri barnabóka hjá stærsta bókaútgefanda landsins mætti á svæðið gekk ég beint upp að henni, kynnti mig, rétti henni nafnspjaldið mitt og sagðist vilja vinna með henni. Viku síðar fékk ég símtal og fyrsta bókaverkefnið mitt.

Sumir virðast hafa meðfædda hæfileika, en treystið mér, því ég tala af reynslu - hæfileikar koma þér aðeins örlítinn hluta af leiðinni. Restin er vinnusemi, kjarkur, kurteisi og gleði. Það að það sé gaman að umgangast þig og gott að vinna með þér skiptir máli. Virðing og vinátta eru mikilvægari en allir heimsins hæfileikar.

Í dag er ég 36 ára og á marga dásamlega vini sem ég get leitað til í ýmsum aðstæðum. Á ykkar aldri var ég hins vegar mjög mikill einfari. Ég átti eina góða vinkonu, en að öðru leyti var ég oftast ein. Mér var ekki boðið í partý, með í bíó eða í kringluna. Mér var strítt fyrir að vera frekja, því ég var ákveðin og röggsöm. Svo var mér strítt fyrir að vera skrítin, því ég elskaði að skrifa ljóð. Mér var líka strítt fyrir að vera dramadrottning, lítil, flatbrjósta, strákaleg, stressuð og hávær. Það besta við að verða eldri er að fá yfirsýn og fjarlægð frá grunnskólaárunum. Í menntaskóla eignaðist ég vini fyrir lífstíð og síðan þá hef ég gert vin úr öllum þeim sem mér finnst heillandi og áhugaverðir.

Ég er hætt að biðjast afsökunar á því hvernig ég er. Ég er hætt að fela mig, reyna að breyta mér og vera minna skrítin, því það er í raun stærsti styrkleikinn minn. Það er örugglega til fullt af fólki sem hefur ekki áhuga á að vera vinir mínir - en vitiði hvað? Það skiptir engu máli. Álit annarra hefur ekkert með mig að gera. Ef þeim finnst ég ekki frábær þá þýðir það bara að við eigum ekki samleið. Ég vil frekar spara plássið í hjartanu mínu fyrir vin sem tekur mér eins og ég er. Ég elska að vera skrítin því það þýðir að ég ber virðingu fyrir sjálfri mér. Ég hleypi persónuleikanum mínum út, án þess að pússa hann til, án þess að ofhugsa hvert einasta orð sem ég læt út úr mér, hverja einustu línu sem ég teikna. Ég fagna því bara hvað ég er hávær, ákveðin, röggsöm og stundum stressuð.

Í dag er stór dagur í þín lífi. Það er ekki auðvelt að útskýra það hvað ferming felur í sér, því það er svo persónubundið - en fyrir framan mig sé ég hóp af ungu fólki sem ætlar að „giftast sjálfu sér“ eins og strákurinn minn myndi segja - Þú ætlar að vera með þér í liði og elska þig eins og þú ert. Í þér búa ótal tækifæri og möguleikar og ef þú fylgir innsæinu, treystir maganum og hjartanu, muntu alltaf taka góðar ákvarðanir í lífinu.

Mundu að bera virðingu fyrir þér og öðrum, elska mistökin þín og fagna hverju skrefi.

Takk fyrir mig.

Upptöku af ræðunni má sjá með því að smella hér

Til baka í yfirlit