Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Að loknum landsfundum stjórnmálaflokkanna – Mikilvægum áföngum náð!

Siðmennt hefur barist fyrir því rúm 3 ár að fá samþykkt lög á Alþingi sem viðurkenni veraldleg lífsskoðunarfélög á við þau trúarlegu.  Einnig hefur Siðmennt stutt Samtökin ’78 í því að fá hjónabandslöggjöfina undir einn hatt.  Fleiri mikilvæg mál hafa verið á dagskrá og þá ekki síst félagslegt og fjárhagslegt jafnræði allra lífsskoðunarfélaga, sem þýðir í raun að staðan þjóðkirkja sé lögð niður og ekkert lífsskoðunarfélag fái að njóta forréttinda hjá hinu opinbera.

Hér er yfirlit yfir þær ályktanir sem stjórnmálaflokkar landsins hafa látið frá sér að loknum landsfundum nýlega.   Mikilla tíðinda sætir frá sumum þeirra.

 

Hjónabandslöggjöfin og samkynhneigðir

Fyrst skulum við skoða baráttuna fyrir því að í landinu ríki aðeins ein hjúskaparlög, þ.e. að samkynhneigðir verði ekki lengur meðhöndlaðir sem annars flokks þegnar með því að kalla hjónaband þeirra „staðfesta samvist“ .  

Það er gleðilegt frá því að segja að Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn hafa allir ályktað að

  • Sameina eigi hjónabandslöggjöfina í ein lög.  

Í stefnuskrá Frjálslynda flokksins er ekki ritað sérstaklega um þetta en sagt í almennri yfirlýsingu að samkynhneigðir eigi að njóta sömu mannréttinda og jafnréttis og aðrir (fann ekkert nýrra á vefsíðu þeirra).

Samfylkingin ályktaði til viðbótar:

  • Að flokkurinn skuli taka til við að endurskoða hjónabandslögin varðandi eðli þess sem borgaraleg stofnun þannig að hugsanlega eigi lagalegi hluti þess að vera alfarið í höndum sýslumanna.

Þessi tillaga var sett á dagskrá hjá Sjálfstæðismönnum en okkur er ekki kunnugt um afdrif hennar.  Ýmsir guðfræðingar í flokknum andmæltu henni hart á spjallvef flokksins.  Nokkrir guðfræðingar í Samfylkingunni andmæltu þessu einnig.

Jafnræði lífsskoðunarfélaga.

Leggja niður þjóðkirkjuskipanina

Aðeins Frjálslyndi flokkurinn hefur það í stefnuskrá sinni frá stofnun flokksins að stefna skuli að aðskilnaði ríkis og kirkju.  Flokkurinn hefur lítið unnið að þessu mikilvæga máli, en formaður þess hafði þó smíðað tillögu þess efnis sem fékk ekki brautargengi á Alþingi í tíð stjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Stórtíðindi!

Vinstri grænir ályktuðu á sínu landsþingi í ár að:

  • Stefna skuli að aðskilnaði þjóðkirkju og ríkisvalds. Mikilvægt er að stuðla að víðtækri sátt í þjóðfélaginu um samstarf ríkis og trúfélaga.

Þeir eru nú stærsti stjórnmálaflokkurinn sem hefur sent frá sér ályktun um aðskilnað þjóðkirkju og ríkisvalds.

Önnur mikilvæg mál lífsskoðanafrelsis og jafnræðis

Vinstri grænir og Samfylkingin hafa samþykkt á landsfundum sínum í ár, eftirfarandi:

  • Hætta skal sjálfkrafa skráningu barna í trúfélag móður
  • Veraldleg lífsskoðunarfélög öðlist sömu lagaleg réttindi og þau trúarlegu.  Þetta mun þýða að Siðmennt fái skráningu sem lífsskoðunarfélag og fái að njóta sóknargjaldakerfis ríkisins.
  • Virða beri réttindi foreldra til þess að ráða trúaruppeldi barna sinna.  Trúboð eða trúarlega starfsemi eigi því ekki að leyfa í leik- eða grunnskólum.

Vinstri grænir ályktuðu að auki:

  • Afnema skuli 125. grein almennra hegningarlaga um guðlast.   Samfylkingin beindi þessari tillögu til framkvæmdarstjórnar.

Samfylkingin ákvað að skoða nánar lög um helgidagafrið og guðlastslögin hjá framkvæmdastjórn.  Sömuleiðis var tillögu um að leggja niður 62. grein stjórnarskrárinnar um að hin evangelísk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja, vísað til framkvæmdarstjórnar.  Málið var talið of skammt komið í umræðunni til að greiða um það atkvæði, en finna mátti á mörgum landsfundarfulltrúum að málið átti hljómgrunn.

Hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn ályktuðu um þessi mál og þeir hafa ekki látið frá sér aðrar yfirlýsingar en að styðja eigi við þjóðkirkjuna og önnur trúfélög.  Ekkert minnst á að laga þurfi þá mismunun sem ríkir eða viðurkenna veraldleg lífsskoðunarfélög.

Nýju flokkarnir; Borgarahreyfingin (xO), Fullveldissinnar (xL) og Lýðræðishreyfingin (xP), taka ekki afstöðu til þessara mála enda yfirlýst stofnaðir til að taka á afmarkaðri stórmálum.

Samantekið

Vinstri grænir hafa tekið forystu í þessum flokki mannréttinda með mjög víðtækum ályktunum og eru nú líkt og Frjálslyndi flokkurinn með aðskilnað ríkis og kirkju á stefnuskránni.  Það er sérlega ánægjulegt nú að þeir tveir flokkar, Vinstri grænir og Samfylkingin, sem nú sitja í ríkisstjórn og samkvæmt skoðanakönnunum virðast líklegastir til að fá stuðning kjósenda til að halda áfram ríkisstjórn sinni eftir kosningarnar 25. apríl, eru nú komnir með mjög mikilvægar ályktanir í átt til bættra mannréttinda og jafnaðar lífsskoðunarfélaga.  Sjálfvirkum skráningum barna í trúfélög verði hætt, börn fái frið frá trúboði í skólum og veraldleg lífsskoðunarfélög (aðeins Siðmennt til nú) fái skráningu.

Blikur eru einnig á lofti með að guðlastslög verði afnumin.  Bretar afnámu sín guðlastslög fyrir rúmu ári og við ættum að taka þá til fyrirmyndar.  Síðast en ekki síst er ánægjulegt að fjórir stærstu flokkar landsins hafa lýst yfir stuðningi við eina hjónabandslöggjöf.  Áberandi er nú að fólk er að öðlast þekkingu og skilning á því hvað lífsskoðunarfélag er og vita að trúfélögin eru ekki þau einu sem fjalla um siðferði og halda athafnir fyrir fjölskyldur. 

Það eru bjartari tímar framundan fyrir Siðmennt og mannréttindi í landinu.   Áfangasigrar eru í höfn en efndirnar eiga eftir að eiga sér stað á Alþingi.  Baráttan heldur áfram!

Til baka í yfirlit