Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Landsfundur húmanista í Noregi

Landsfundur húmanista í Noregi var haldinn 19.-21. október 2018. Þrír fulltrúar frá Siðmennt sóttu fundinn og segir Auður Sturludóttir, varaformaður Siðmenntar hér frá:

Slagorð norsku húmanistahreyfingarinnar (HEF) er „Humanisme – fordi alt vi har er hverandre.“ Allt sem við eigum er hvert annað. Í október fóru þrír fulltrúar Siðmenntar í helgarferð til Osló til þess að vera með í „Landskonferansen“, ráðstefnu þar sem félagar frá öllum landsvæðum Noregs söfnuðust saman til þess að ræða málefni sem brenna á norskum húmanistum ásamt nokkrum erlendum gestum. Á heimasíðu HEF er húmanisminn útskýrður og vitnað í fyrstu grein mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna: „Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku, og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan.“ Lykilorð húmanismans eru ábyrgð, skynsemi og siðferði. Við finnum hamingjuna í samfélagi við aðra og með velferð allra að leiðarljósi er mikilvægt að bera virðingu fyrir öðrum, virða mörk annarra og hjálpa öðrum þegar á þarf að halda. Samfélagið krefst þess af okkur að við hlustum á aðra til þess að okkar rödd fái líka að heyrast. Okkur ber líka að huga að kynslóðum framtíðar og taka ábyrgð á því hvernig jörð við arfleiðum þær að.

Landsráðstefna HEF velti upp mikilvægum spurningum sem tengjast þessari húmanísku lífssýn. Trond Enger, aðalritari HEF, setti ráðstefnuna og gaf tóninn fyrir umræðuefnin. Fjögur málefni voru á dagskrá: Popúlismi, líftækni, transhúmanismi og áskoranir á alþjóðavettvangi.

Samtök af þeirri stærðargráðu sem HEF er geta beitt sér í alþjóðlegri umræðu, en húmanistar í Noregi standa styrkum fótum með marga meðlimi. Trond Enger kynnti einmitt níutíuþúsundasta meðlim samtakanna sem sagði frá því hvers vegna hún skráði sig í HEF en hún fann sig hjá þeim vegna siðrænu gildanna sem samtökin standa fyrir. Einnig var kynnt nýtt myndband HEF, mjög falleg kynning þar sem hendur leika aðalhlutverkið, margs konar hendur af ólíkum uppruna, með ólíkar þarfir og mismunandi hæfileika. https://www.youtube.com/watch?v=9pmhKo_rXfA

Í Noregi og á Íslandi er staða mannréttinda nokkuð góð, þar sem við búum við trú- og tjáningarfrelsi. Húmanistar berjast þó fyrir mannréttindum út fyrir landsteinana og víða í heiminum er traðkað á réttindum fólks. Það er á ábyrgð okkar sem höfum til þess tækifæri að spyrja gagnrýninna spurninga, hjálpa til í alþjóðlegri réttindabaráttu og benda á vandamálin þar sem þau eru til staðar. Alþjóðasamtök húmanista, IHEU, beita sér á vettvangi Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna.

Popúlismi er vaxandi vandamál í heiminum og ansi oft eru innflytjendur settir skör neðar en innfæddir í þjóðfélaginu. Til þess að komast að því hvaða reglur við viljum sameinast um og hvernig skuli skilgreina gott siðferði er nauðsynlegt að ræða málin til hlítar með góðum rökum og ef til vill þarf að gera málamiðlanir stundum. En umræða er alltaf nauðsynleg til þess að samfélög þróist á siðrænum grundvelli.

Siðfræði kemur einnig við sögu í þeim stóru spurningum sem við stöndum frammi fyrir þegar vísindin eru annars vegar. Líftækni hefur þróast mjög hratt undanfarin ár svo umræðan hefur varla náð að fylgja. Transhúmanismi er hugmyndafræði um vélvæðingu mannslíkamans og möguleikann á því að bæta stöðu manneskjunnar.

Popúlismi

Það voru þeir Sylo Taraku, stjórnmálafræðingur frá Agenda hugveitunni og Bård Larsen, sagnfræðingur frá Civita sem fræddu áheyrendur um popúlisma. Sylo benti á að það er sundurleitni í þjóðfélaginu og fólk upplifir sig ekki sem hluta af þjóðarheild, heldur minnihlutahópum sem fá mismikla viðurkenningu í þjóðfélaginu. Tiltrú fólks á lýðræðið fer minnkandi og frelsi og jafnrétti er ógnað. Fólk upplifir eins og það eigi sér ekki málsvara í hefðbundnum stjórnmálum og þetta skapar andstöðu við elítuna. Nú vilja fleiri fá sterkan leiðtoga sem stendur vörð um nostalgísk gildi en alþjóðavæðing skapar óöryggi. Kröfunni um beint lýðræði er haldið á lofti því sérfræðingarnir njóta ekki trausts lengur. Þessi þróun getur haft þær jákvæðu afleiðingar að valdið færist til fólksins – sem á það vissulega skilið – en það er líka sú hætta til staðar að umræðan verði miskunnarlaus og að fjölmenningarhyggjan lúti í lægra haldi.

Bård Larssen ræddi mikilvægi lýðræðis og fullyrti að eina leiðin til að tryggja frelsi einstaklinganna sé með frjálslyndu lýðræði. Hann benti á að styrkur þess sé jafnframt veikleiki: Umburðarlyndi gagnvart þeim sem vilja eyðileggja það. Ógnunin við þetta lýðræði er að þjóðin skiptist í hópa (n. tribalisme) og að fólk verði jaðarsett. Stjórnmálin hafa breyst og það er ekki lengur notast við sömu skilgreiningarnar, eins og kapítalisma og sósíalisma, (Larsen heldur því fram að það sé barátta milli lýðræðis og einræðis) og nú eru átök milli Kristni og Islam. Stjórnmálamenn mega ekki vera siðapostular. Bård sagði að lokum að hans sýn sé sú að Evrópa geti ekki tekið við fleiri flóttamönnum án breyttra forsendna.

Líftækni

Kristin Halvorsen, Sigrid Bratlie og Elisabeth Gråbøl-Undersrud héldu afar fróðlega fyrirlestra um líftækni og siðferðilegar spurningar henni tengdar. Erfðabreytt matvæli hafa lengi verið í umræðunni og þrátt fyrir ýmsar efasemdir hefur ekki tekist að sanna að þessi aðferð við að auka uppskeru hafi reynst mannfólki eða náttúru skaðleg. CRISPR (Krisper)-erfðabreytingatækni er ný og byltingarkennd aðferð til að nota í þágu matvælaframleiðslu en einnig í framþróun læknavísindanna. Þar er þessi tækni mjög mikilvæg þar sem hún býður upp á mikla möguleika í að sigrast á erfiðum sjúkdómum eins og HIV og krabbameini eða malaríu. Í 4 milljarða ára hefur lífið á jörðinni þróast á forsendum náttúrunnar en nú getum við hugsanlega sest við stjórnvölinn. CRISPR aðferðin er frábært tækifæri til þess að móta sjálfbæra þróun og reyna að ná stjórn auðlindum okkar. En vissulega hvílir sú gríðarlega ábyrgð á okkur að taka siðferðilega réttar ákvarðanir þegar kemur að þessum tækninýjungum. Lagaramminn verður að taka tillit til ólíkra þátta og við þurfum að gera okkur grein fyrir mögulegum afleiðingum.

Stofnfrumurannsóknir hafa einnig vakið upp margar spurningar. Áður voru stofnfrumur unnar úr fósturvísum en með nýrri tækni má mynda þær úr húðfrumum. Rannsóknir hafa verið gerðar í sambandi við lækningu á Parkinson. Ófrjósemi mun hugsanlega ekki verða vandamál lengur þar sem vísindamönnum hefur tekist að rækta frjóvganleg músaegg úr stofnfrumum sem myndaðar voru út frá húðfrumum. Nú hafa fæðst músaungar sem voru búnir til úr genum tveggja feðra og því ljóst að möguleikarnir eru gríðarlegir í þessum efnum. Siðferðislegar spurningar snúa til dæmis að því hvaða rétt tilbúin fóstur hafa. Lambafóstur sem hafa klárað meðgönguna í gervilegi sýna okkur að kannski verði ekki nauðsynlegt fyrir börn framtíðarinnar að þroskast í móðurkviði. Fleiri möguleikar, eins og til dæmis sá að hægt verði að stöðva öldrun eða rækta fullkominn mannsheila úr stofnfrumum velta upp ótal siðfræðilegum spurningum og við þurfum að hvetja til mikillar og vandaðrar umræðu um þessi efni.

Transhúmanismi

Transhúmanismi snýst um að stjórna þróun mannsins og bæta manneskjuna bæði andlega og líkamlega með tæknilegri íhlutun. Æðsta takmark þessarar stefnu hlýtur að vera að sigrast á dauðanum og kannski er það aðeins mögulegt með því að skipta líkamanum út fyrir vél og hlaða meðvitundinni inn í tölvu. Þessari hugmyndafræði er ekki haldið fram af einsleitri eða sameinaðri hreyfingu, svo það er ekki einhlítt hvert er stefnt undir merkjum transhúmanismans. En mannskepnan hefur alltaf leitast við að bæta líf sitt með alls kyns tækni og þetta er í raun framhald af þeirri þróun. Líffæragjafir, gervilíffæri og ýmis meðul hafa í raun verið notuð til þess að stöðva eða breyta eðlilegum framgangi náttúrunnar. Það er hlutverk heimspekinnar að ræða hvað okkur þykir rétt og gott að gera þegar tæknin er komin svo langt að hægt er að spyrja hvar mennskan byrjar og hvar hún endar.

Alþjóðasamstarf

Laugardagurinn var tileinkaður starfi húmanista á alþjóðavettvangi. Sú vinna felst að miklu leyti í að boða húmanísk gildi og berjast fyrir réttindum þjóðfélagshópa sem brotið er á. Alþjóðasamtök húmanista (International Humanist and Ethical Union – IHEU) eru öflug samtök sem beita sinni rödd á ýmsum vettvangi, Sameinu þjóðunum, í Genf, New York og París, auk ÖSE, Evrópuráðsins og Mannréttindanefnd Afríku.

Formaður IHEU og aðalritari bresku húmanistasamtakanna, Andrew Copson, hélt ræðu um stöðu trúarstofnana í ríkinu og hvernig andstæðingar trúfrelsis nota það sem rök að trúarhlutleysi ríkis hljóti alltaf að vera ómögulegt. Þeir sem andmæla trúarhlutleysinu segja að samfélagið muni þá verða sundurleitt og án góðra gilda. En rökin sem mæla með hlutleysi ríkja byggja alltaf á jafnræði, sanngirni, friði, nútímavæðingu, lýðræði og síðast en ekki síst frelsi til að trúa því sem maður vill og frelsi tjá skoðun sína án þess að ganga á rétt annarra.

Bob Curchill kynnti svo ársskýrslu um ástand trúfrelsis í heiminum. Það er margt sem mætti fara betur og IHEU sér um að safna gögnum frá aðildarfélögum um allan heim svo fylgjast megi með stöðunni. Í mörgum löndum er trúfrelsi svo skert að fólk er drepið fyrir að trúa ekki á guð og fyrir að vilja jöfn réttindi öllum til handa.

Elizabeth O‘Casey stjórnar mannréttindabaráttu IHEU á alþjóðavettvangi. Mannréttindi eru víða brotin í nafni trúar, menningar og hefðar en með húmanískri lífssýn má sigrast á slíku hugarfari. Vandamálin eru þó rótgróin og það reynist erfitt að uppræta ýmiss konar ofbeldi og mismunun á grundvelli kynhneigðar, kyns og lífsskoðana. O‘Casey situr við stjórnvölinn þegar kemur að samskiptum við alþjóðlegu stofnanirnar sem nefndar voru hér að ofan.

Síðasti fyrirlesturinn var haldinn af Abid Raja. Hann er norskur múslimi sem tók þátt í að stofna aþjóðlegan hóp þingmanna með fulltrúum allra trúar- og trúleysishópa. Þessi samtök hafa vaxið mjög hratt, enda eru markmið félagsins skýr og skynsamleg, að tryggja að friðsamlegar raddir fái meira vægi en raddir öfgasinnaðra trúarhópa. Áhersla hefur verið lögð á að ná til stjórnmálafólks um heim allan með marksvissum bréfaskrifum og árlegum fundum þar sem fulltrúar ólíkra landa mætast til að sameinast um að þrýsta á hin ýmsu ríki að tryggja trú og málfrelsi allra. Þessi vinna er mjög í anda húmanismans og sönnun þess að gildin sem sameina fólkið koma í raun frá okkur sjálfum og að sú hugsun sem gerir fólki kleift að setja sig í spor annarra kemur ekki frá einum trúarbrögðum umfram önnur. Þannig rammaði Abid Raja inn það sem HEF hefur að slagorði sínu: „Humanisme – fordi alt vi har er hverandre.“ Allt sem við eigum er hvort annað.

Tom Hedalen, formaður HEF, sleit ráðstefnunni með ræðu þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að alþjóðasamtökin ættu að hafa fleiri starfsmenn til að sinna því góða og nauðsynlega starfi sem þar fer fram. Húmanistahreyfingin er alþjóðlegt fyrirbæri sem ber skylda til þess að koma auga á þörfina fyrir aðstoð og veita hana af fremsta megni. Fyrir okkur í Siðmennt var það heiður að fá að vera með á þessari mikilvægu og áhugaverðu ráðstefnu, en erlent samstarf víkkar svo sannarlega út sjóndeildarhringinn og opnar augun fyrir því sem er að gerast í heiminum.

Nokkrir tenglar:

Heimasíða  HEF um ráðstefnuna:

https://human.no/artikler/landskonferanse/

Fritanken, norsk fréttasíða HEF:

https://fritanke.no/kommentar/ogsa-i-norge-har-vi-politikere-som-sier-de-kjemper-for-det-sanne-folket/19.10925

https://fritanke.no/reportasje/hedalen-lovet-a-styrke-hefs-internasjonale-arbeid/19.10928

Skýrsla  um stöðu trúfrelsis í heiminum:

https://freethoughtreport.com/

Auður Sturludóttir
Varaformaður Siðmenntar

Til baka í yfirlit