Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Lífsspeki siðrænna húmanista

Grein þessi er skrifuð í tilefni þeirrar höfnunar sem síðari umsókn Siðmenntar fékk röksemdalaust ekki alls fyrir löngu og aðrir hafa síðan samþykkt, einnig án röksemda. Þetta er tilraun til að útskýra sumar þær hugmyndir sem í umsókninni fólust

Ég tel nauðsynlegt að útskýra nokkur hugtök sem siðrænir húmanistar og aðrir „trúleysingjar“ styðjast mikið við, eins og ég skil þau og skilgreini. Ef við notum hugtök án þess að okkur sé merking þeirra fullkomlega ljós, þýðir það einnig að lífsspeki okkar í þessum málum getur verið óljós og jafnvel ruglingsleg, við misskiljum hvort annað og það sem algengara er, aðrir misskilja okkur.

Evrópuþing siðrænna húmanista í Róm mánaðarmótin nóvember/desember 2003 var haldið í skjóli samtaka siðrænna húmanista á Ítalíu sem ber skammstöfunina AAAR.

A= Associatione. A=Ateista. A=Agnostica. R=Rationalista. Ekki færri en þrjú hugtök dugði til að sameina ítalska húmanista/trúleysingja.

 

Ateista (Atheism á ensku) merkir að þú ert viss um það að ekkert yfirnáttúrulegt sé til. „A“ merkir neitun og „the“ er sama og „de“, stytting úr deus, guð. Hér er ekki ráðrúm fyrir efa eða afstæðishyggju, þú veist að það er gegn allri skynsamlegri hugsun að gera ráð fyrir möguleika á því yfirnáttúrulega og samkvæmt vísindum er náttúran eins eðlis (mónísk). Við höfum oft þýtt ateisma sem guðleysi sem er góð þýðing að mati mínu

Agnostica (Agnosticism á ensku) er þannig skilgreindur í orðabók: „einhver sem neitar því að maðurinn hafi þekkingu á endanlegum sannleika, sá/sú sem hvorki vill samþykkja eða afneita tilvist persónulegs guðs“. Raunar finnst mér að orðinu „persónulegur“ sé ofaukið í skilgreiningunni því að með því væru margir búddistar og ásatrúarmenn, svo og hindúar, gerðir að agnostíkerum. En agnostisismi fellur hins vegar prýðilega að þeirri afstæðishyggju og efahyggju sem nú er mjög sterk í vestrænni hugsun. Agnostíker getur afgreitt trúmál á einfaldan hátt: Meðan vísindi hafa ekki sannað tilvist guðs, trúi ég ekki á tilvist hans. Agnostisismi er stundum þýddur sem trúleysi en ég efast um að sú þýðing sé nógu góð. Efahyggja væri e.t.v. betra orð en er þó ekki nógu gott. Nokkrar tillögur um betri þýðingu?

Rationalista merkir skynsemisstefna. Gott og gamalt orð. Aðeins með rökhugsun og rannsóknum vísinda getum við komist að nýjum sannindum. Einkum ber að varast það sem nefnt er „guðlegur innblástur“. Rétt er að taka fram að rationalisti getur líka verið trúaður á æðri mátt en þá er hann/hún annað hvort (eða bæði) tvíhyggjumaður (dúalisti) og/eða fylgismaður náttúruguðfræðinnar; Dúalismi = náttúran er tvíeðla, annars vegar lýtur hún lögmálum rökhyggju og vísinda; hins vegar er til æðri máttur sem kemur vísindum ekkert við. Náttúruguðfræðin sem varð sterk um aldamótin 1800 og styrktist aftur um 1900: heimurinn er sköpun guðs sem síðan lét náttúrulögmálin og frjálsan vilja mannsins sjá um framhaldið! Guð er ekkert að skipta sér af daglegu lífi okkar! Þessi tegund guðfræði var um skeið rík í íslensku kirkjunni en kemur nú á dögum greinilegast fram í söfnuðum únitara og úniversalista sem einkum sækja fylgi sitt til enskumæalndi landa.

Rationalisti er því aðeins guðleysingi/trúleysingi sé hann jafnframt mónisti, náttúran hefur aðeins eitt eðli, ekkert yfirnáttúrulegt er til eftir því sem ég veit best. Ég, til dæmis, er fyrst og fremst rationalisti og mónisti. Skiptingin í ateisma og agnostisisma er smámál fyrir mér, skiptir mig litlu máli, þótt oftast hafi ég fremur hallast að ateisma.

Hvar erum við þá komin með siðræna húmanismann okkar? Að mati mínu er hann fysrt og fremst mónismi, það er grundvallaratriðið. Síðan getur hver og einn stuðst við ateisma, agnostisisma og rationalista, alla vega tvennt í senn. (Það er dáliítið erfitt að vera í senn agnostíker og ateisti!)

En er siðrænn húmanismi aðeins mónismi? Svarið er neitandi. Upphafsorðin í inngangsbók H.J. Blackhams, Humanism, helsta hugmyndafræðings ensks siðræns húmanisma á seinni hluta 20. aldar, lýsa að mati mínu siðrænum húmanisma í hnotskurn: „Humanism proceeds from an assunption that man is on his own and this life is all and an assumption of responsiblity for one’s own life and for the life of mankind – an appraisal and an undertaking. Less than this is never humanism. And this is only a skeleton, a personal frame, but not the person“. (bls.13). Mónismi er hér vissulega til staðar en ekki síður áhersla á persónulega ábyrgð bæði gagnvart sjálfum sér og mannkyninu öllu. Við skuldbindum okkur siðferðilega og því notum við hugtakið siðrænn.

Við í Siðmennt höfum lengi barist fyrir því að fá skilgreiningu á því hver sé munurinn á lífsskoðun og trú en árangurslaust. Það er eins og enginn aðili utan samtaka okkar geti svarað þessari spurningu hvort sem spurningin kemur fram í einkaviðræðum eða í opinberum erindum. Hér skal gerð tilraun til að svara þessari spurningu með hliðsjón af því sem að framan er ritað.

Ateismi og mónismi án siðrænna tengsla er ekki trú, „aðeins“ lífsskoðun. Agnostismi er hins vegar trú og siðrænn mónismi (húmanismi) er það enn þá frekar. Agnostismi felur þannig auðveldega í sér leit að yfirnáttúrulegu og þau siðrænu gildi sem Siðmennt hefur á stefnuskrá sinni falla auðveldlega innan ramma trúarlegrar hefðar.

Síðari umsókn Siðmenntar um skráningu sem trúfélags mótaðist af þessum viðhorfum um leit og siðræn gildi og til viðbótar má nefna tvennt: Efahyggju og leit að sannleika því að hvers virði er trú án þessara tveggja þátta?

Árnagarði, 28. júní, 2005.

Gísli Gunnarsson

Til baka í yfirlit