Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Sameiginleg yfirlýsing trúar- og lífsskoðunarfélaga vegna bálstofu

Sameiginleg yfirlýsing trúar- og lífsskoðunarfélaga vegna bálstofu

Eftirfarandi fréttatilkynning var send út fyrir helgi, þar sem fimm trúar- og lífsskoðunarfélög, með rúmlega 20 þúsund manna félagafjölda, lýsa sameiginlega yfir stuðningi við þær hugmyndir að óháður aðili taki við þjónustu við bálfarir hér á landi:

Ásatrúarfélagið, Fríkirkjan í Reykjavík, Óháði söfnuðurinn, Siðmennt – félag siðrænna húmanista og  búddistasamtökin SGI á Íslandi lýsa yfir stuðningi við að óháður aðili taki við þjónustu við bálfarir á Íslandi nú þegar ljóst er að byggja þarf nýja bálstofu.

Á Íslandi eru skráð yfir fimmtíu trúar- og lífsskoðunarfélög sem telja samtals 285.642 einstaklinga. Alls 5.973 einstaklingar tilheyra öðrum trúar- og lífsskoðunarfélögum en þeim sem eru skráð og 83.243 einstaklingar  standa utan trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Bálstofan í Fossvogi hefur verið starfrækt frá árinu 1948 þegar Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma (KGRP) tóku við rekstri hennar af Bálfarafélagi Íslands, félagi frumkvöðla, sem gerði fyrstu bálstofuna á Íslandi að raunveruleika. Ofnar bálstofunnar eru úr sér gengnir og ljóst er að reisa þarf nýja bálstofu. KGRP vill reisa nýja bálstofu í Hallsholti í Gufuneskirkjugarði og fá til þess fjármagn úr ríkissjóði.

Hvergi er tilgreint í íslenskum lögum að bálstofa skuli rekin af ríkinu eða trúar- eða lífsskoðunarfélagi. Því er ekkert því til fyrirstöðu að ný bálstofa verði rekin af óháðum aðila. Eins þykir skjóta skökku við að fela einu trúfélagi umfram önnur að ráðast í slíka framkvæmd með fjármagni úr ríkissjóði. Farsælla þykir að þjónusta sem þessi verði í framtíðinni veitt óháð starfsemi trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Dómsmálaráðuneytið lætur nú framkvæma úttekt á fyrirkomulagi bálfara hér á landi og mun dómsmálaráðherra leggja mat á hverskonar fyrirkomulag muni henta best til framtíðar.

Formenn undirritaðra trúar- og lífsskoðunarfélaga hvetja ráðherra til að taka ákvörðun sem endurspeglar fjölbreytileika íslensks samfélags, virðir valfrelsi, trú og lífsskoðanir þeirra sem hér búa og nýti það tækifæri sem fyrir dyrum stendur til að færa þjónustu við bálfarir í hendur óháðs aðila.

Virðingarfyllst,

Björg Valsdóttir, formaður Óháða safnarðarins,
Eygló Jónsdóttir, formaður Búddistasamtakanna SGI á Íslandi,
Hilmar Örn Hilmarsson, Allsherjargoði Ásatrúarfélagsins
Hjörtur Magni Jóhannson, forstöðumaður og safnaðarprestur Fríkirkjunnar í Reykjavík
Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar – félags siðrænna húmanista

Til baka í yfirlit