Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2012 – Sólrún Ólína Sigurðardóttir flytur ávarp

Eftirfarandi ræðu flutti Sólrún Ólína Sigurðardóttir í fermingarathöfn Siðmenntar þann 22. apríl 2012 í Salnum í Kópavogi.

Kæru fermingarbörn, foreldrar og fjölskylduvinir.
Innilega til hamingju með borgaralegu ferminguna.

Það er mér sannur heiður að fá að taka þátt í þessum hátíðardegi með ykkur.

Hvað skal ræða um við svo stóran, fallegan og prúðbúinn hóp eins og ykkur á einum af þeim dögum lífs ykkar sem þið munið væntanlega muna allt ykkar líf – líkt og hann hafi gerst í gær?

Það er ýmislegt sem hægt er að ræða um við ykkur til að hjálpa og leiðbeina í gegnum lífið sem framundan er.

Það eru hólar og hæðir hjá öllum þ.a.e.s. stundum gengur okkur vel og stundum illa. Stundum erum við ofsalega glöð og stundum leið og jafnvel reið, það er bara lífið.
En hvað væri þá gott að hafa í farteskinu til að grípa í þegar illa gengur?

Ég myndi segja að gott væri að temja sér jákvæðni, að byrja daginn til dæmis á því að spjalla við spegilinn, líta í hann þegar við erum að bursta tennurnar og segja við sjálfan sig: Frábær dagur í dag, mér mun ganga vel í dag og einnig segja: Ég er skemmtileg/skemmtilegur, ég er sæt/sætur og brosa framan í spegilinn.

Ég tel að ef við byrjum daginn á því að vera jákvæð þá muni dagurinn verða skemmtilegri en ef við myndum líta í spegilinn og segja ég er ömurleg/ömurlegur eða þetta verður leiðinlegur dagur í dag. Þó að við spjöllum við spegilinn og dásömum sjálf okkur þá er ekki þar með sagt að við eigum að mæta í skólann eða vinnuna og segja við alla: Ég er frábær, ég er hrikalega sæt/sætur, heldur geymum við þessar setningar og sýn í hjarta okkar fyrir okkur sjálf.

Annað sem ég held að komi einstaklingum langt í lífinu er að vera hugrakkur, en sú dyggð er ein af mínum uppáhalds. Þegar ég heyrði þetta orð fyrst þá var ég ekki alveg viss hvað það þýddi svo ég fletti því upp í orðabók og þar stendur: Að vera hugrakkur er að vera kjarkmikill og djarfur. En hvað þýðir það? Jú að vera djarfur er til dæmis að taka af skarið og hjálpa þegar það er verið að leggja einhvern í einelti og aðstoða þann sem fyrir því verður, eða í íþróttum, til dæmis fótbolta eða handbolta að taka af skarið þegar ekkert gengur hjá liðinu og hlaupa upp og skora mörk.
Kjarkmikill er að taka ákvörðun fyrir sjálfan sig, til dæmis að segja nei við vímuefnum. Einnig þora að vera maður sjálfur og fylgja hjartanu.

„Vertu þú sjálfur“ söng Helgi Björnsson fyrir mörgum árum síðan og einnig hefur Páll Óskar sungið „Ég er eins og ég er, hvernig á ég að vera eitthvað annað“.

Ég tel að það sé mikilvægt að vera við sjálf með kostum okkar og göllum. Við þurfum að sættast við okkur sjálf eins og við erum, þá er ég að meina að sættast við nefið, hárið, lærin eða tærnar þó okkur finnist þessir líkamspartar ekkert flottir. Við verðum bara að sætta okkur við þá, þeir eiga jú eftir að fylgja okkur allt okkar líf. Fjölbreytileikinn er líka miklu skemmtilegri fyrir alla heldur en ef við færum öll í lýtaaðgerð og yrðum öll eins. Væri það skemmtilegt líf? Njótið þess að vera þið sjálf, það er töff.

Það er enginn sem fer í gegnum lífið án þess að verða á, gera mistök eða vitleysur í lífinu. Stundum gengur okkur illa og við gerum vitleysur og einhverja hluti sem við sjáum eftir. En það má líka gera vitleysur. Stundum getur komið gott úr þeim og ef það kemur ekki gott úr vitleysunni þá bara pössum við okkur á því að gera þær ekki aftur. En við verðum samt að muna að ef gert er á hlut einhvers annars þá er um að gera að biðjast afsökunar, sættast og halda áfram.
Kannski getum við lært af mistökunum?

Það er ekki sjálfgefið að fæðast með tíu fingur og tær. Njótið þess að hjálpa öðrum ef þið getið og verið tilbúin að leggja ykkur fram og gera hlutina eins vel og þið getið. Hvort sem er í náttúrufræðiverkefninu í skólanum eða fara með ruslið út í tunnu. Verið glöð að hafa möguleika á því að vinna þau verkefni sem þið eruð beðin um þó að sum þeirra séu ekkert sérlega skemmtileg.

Lítið í kringum ykkur í dag. Fylgist með því hvaða fólk verður með ykkur í dag, þetta er fólkið ykkar, þetta er fjölskyldan ykkar og vinir, þetta er fólkið sem stendur ykkur næst og ef eitthvað bjátar á í lífinu þá er þetta fólkið sem þið getið leitað til. Það mun vonandi leggja sig allt fram við að aðstoða ykkur í gegnum erfiðleikana.

Ég tel að þið séuð nú þegar farin að tileinka ykkur þau hugtök sem skipta máli í lífinu. Þið eigið bara eftir að þróa þau og rækta betur. Fyrir það fyrsta stigu þið út úr norminu og ákváðu að ferma ykkur borgaralega og ég hugsa að í kjölfarið hafið þið fengið ýmsar spurningar þar sem þið hafið þurft að svara og rökstyðja af hverju þið völduð þessa leið. Það þarf hugrekki, sjálfstæði og víðsýni til taka slíka ákvörðun.

Að lokum, foreldrar verið tilbúin að hlusta og taka á móti börnunum ykkar þegar þau fara út af sporinu og leiðbeina þeim í stað þess að vera með boð og bönn.

Kæru fermingarbörn ég ráðlegg ykkur að skrifa ykkar eigin lífsbók. Sankið að ykkur því sem ykkur finnst spennandi hvort sem er í áhugamálum eða vinnu, þið gætuð jafnvel blandað því saman. Verið dugleg að hrósa hvort sem er foreldum eða vinum. Takið einnig á móti hrósi og geymið í hjarta ykkar. Verið með fólki sem ykkur líður vel með og þið treystið – það fer best með ykkur.

Til hamingju – njótið dagsins og lífsins
Sólrún Ólína Sigurðardóttir er hjúkrunarfræðingur með diplóma í kynfræði.

Til baka í yfirlit