Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Yfirlýsing um mismunun á Íslandi!

Eftir talsverða vinnu frá byrjun nóvember er nú blásið til átaks til fræðslu og umræðu um þá fjárhagslegu og lagalegu mismunun sem á sér stað varðandi tengsl ríkisins við trú- og lífsskoðunarfélög.

Siðmennt hóf samstarf við nokkur trúfélög að frumkvæði Ásatrúarfélagsins og í dag fimmtudaginn 17. janúar verður fræðslu-auglýsing á vegum hópsins í Fréttablaðinu. Hún var einnig send til allra fjölmiðla og alþingismanna.

Hér er texti bréfsins sem var sendur með skjalinu:

—-

Við undirrituð trúfélög og lífsskoðunarfélag sendum ykkur sérstaka fræðsluauglýsingu okkar sem birt er í Fréttablaðinu fimmtudaginn 17. janúar. (viðhengt skjal).

Við viljum með þessu fræða þjóðina um þá miklu fjárhagslegu og lagalegu mismunun sem er við lýði í tengslum ríkis við trúfélög og lífsskoðunarfélög.

 

Einni kirkju er haldið uppi með ærnum tilkostnaði á meðan önnur trúfélög fá aðeins sóknargjöld og veraldleg lífsskoðunarfélög ekkert.

Með því fyrirkomulagi er þeim sem standa utan þjóðkirkju skipað skör lægra en öðrum landsmönnum.

Allir skattgreiðendur bera þann kostnað, einnig þeir sem standa utan Þjóðkirkjunnar.

Með þessu er brotið á jafnræði borgaranna og það stenst ekki réttlætiskröfur í lýðræðisríki.

Í fræðsluauglýsingunni eru tölurnar og helstu röksemdirnar sýndar svart á hvítu. Þetta eru æpandi staðreyndir fyrir hvern sem les. Þessi mál þarf að hefja til almennrar og pólitískrar umræðu.

Við þetta ástand verður ekki unað lengur.

Virðingarfyllst,

Ásatrúarfélagið

Búddistasamtökin SGI á Íslandi

Fjölskyldusamtök heimsfriðar og sameiningar

Siðmennt, félag siðrænna húmanista.

 

Til baka í yfirlit