Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ávarp Björns Jóhannssonar á málþinginu Vörður á lífsleið barna

Eftirfarandi ávarp flutti Björn Jóhannsson, fyrrverandi fermingarbarn hjá Siðmennt, á málþinginu „Vörður á lífsleið barna – málþing um hlutverk ólíkra trúarbragða í uppeldi“. Var það haldið 27. apríl 2010 á vegum Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar, Menntasviðs Reykjavíkurborgar og Rannsóknastofu í fjölmenningarfræðum. Björn Jóhannsson var fulltrúi Siðmenntar.

Komið þið sæl

Ég fermdist borgaralega á vegum Siðmenntar vorið 2007. Þegar borgaraleg ferming er nefnd vakna hjá ýmsum margar spurningar. Hvað er borgaraleg ferming? Til hvers og fyrir hverja er hún? Hverjir taka þátt í borgaralegri fermingu? Hversvegna tók ég þátt og hvers virði var það fyrir mig að taka þátt í borgaralegri fermingu?

 

Það er ekki skrítið að þessar spurningar vakni enda búum við hér á landi við mjög ríka hefð fyrir því að ferming sé eingöngu bundin við trú eða trúarbrögð þar sem þátttakendur játa eða staðfersta trú sína. Það hefur margoft heyrst að fyrirbæri eins og borgaraleg ferming eigi ekki rétt á sér. En við skulum strax hafa það í huga að í mjög mörgum menningarsamfélögum út um allan heim fara fram athafnir sem oftast kallast manndómsvíxlur. Með manndómsvíxlum er unglingsárunum fagnað á margvíslegan hátt.

Er eitthvað rangt við það að fagna? Er eitthvað rangt við það að fagna unglingsárunum eða unglingunum? Nei í sjálfu sér ekki, en þá halda sumir áfram og segja: „en með borgaralegri fermingu ertu ekki að staðfesta neitt og af hverju notið þið orðið ferming?“ Umræðan um notkun orðsins ferming minnir mig alltaf á umferðarskylti sem er á  Hlemmi og segir á því „nema ferming, afferming“. Þar er átt við að bannað sé að stöðva bíla nema um fermingar sé að ræða. Og það er alveg ljóst að þar er hvorki verið að meina kristilegar fermingar né borgaralegar fermingar, heldur einhverjar aðrar fermingar. Ekki hef ég heyrt neinar deilur um umrætt skilti.

Orðið ferming hefur ýmsar merkingar og sú merking sem við leggjum í orðið er að með fermingu er verið að styrkja og styðja. Og í þessu tilviki er verið að styrkja og styðja ungt fólk til að verða heilsteyptir, ábyrgir og siðferðilega góðir einstaklingar í lýðræðislegu samfélagi.

Fermingarathöfnin sem slík líkist einna helst útskrift úr skóla þar sem fram fer  vönduð dsgskrá sem að mestu samanstendur af atriðum þátttakenda sjálfra auk þess sem þeir fá viðurkenningarskjal fyrir að hafa sótt undirbúningsnámskeið. Og þá er komið að því að spyrja: Hvað er verið að gera á þessu undirbúningsnámskeiði?

Á námskeiðinu á sér stað ýmislegt sem gagnast má í lífinu. Þar á sér ekki aðeins stað fræðsla heldur má segja að fyrst og fremst sé um þjálfun að ræða. Lykilatriðið í öllu námskeiðinu sem stendur yfir í 12 vikur er gagnrýnin hugsun. Að geta hugsað á gagnrýninn hátt um hvað sem er.  Þetta þýðir að maður er hvattur til að hugsa sjálfstætt og láta ekki telja sér trú um hvað sem er án þess að hugsa málið.

Að bregðast við siðferðilegum álitamálum er einnig annað viðfangsefni sem skiptir miklu máli. Margt fleira er fengist við á námskeiðinu sem ég ætla ekki að ræða hér. Ég vil samt vekja athygli á því að í samfélagsumræðu dagsins í dag er mikið talið um mikilvægi þess að skólar landsins þjálfi nemendur í gagnrýnni hugsun og siðfræði. Þetta er eitthvað sem Siðmennt hefur gert í meira en 20 ár undir handleiðslu heimspekinga.

En hvernig unglingar eru þetta sem ákveða að fermast borgaralega.  Sumir jafnaldrar mínir sögðu þegar ég ákvað að fermast borgaralega að þeir sem fermdust borgaralega væru bara að fermast til að fá pakka og peninga. Örugglega er margir sem kjósa að fermast til þess eins að fá pakka og peninga. En flestir fermast væntanlega vegna þessarar hefðar sem tíðkast í samfélaginu að fagna unglingsárunum. En ég veit líka að einstaklingar sem hafa áhuga á heimspekilegum pælingum skrá sig á námskeið hjá Siðmennt til að öðlast færni í gagnrýnni hugsun og siðfræði. Og ég veit að það eru ekki allir sem taka þátt í námskeiðinu sem eru með í athöfninni í lok námskeiðs.

En til að svara spurningunni hverjir fermast borgaralega þá er svarið mjög einfalt. Það geta allir gert sem vilja. Trúar- og lífsskoðanir skipta engu máli, né uppruni, geta til náms eða fötlun.

Það skiptir ekki máli hver við erum því það sem gerir það að verkum að við getum öll fermst borgaralega er það að við erum öll manneskjur. Það sameinar okkur. Vissulega kemur meirihluti þátttakenda frá fjölskyldum sem eru trúlausar eða standa utan trúfélaga, en krakkar sem koma í borgaralega fermingu koma úr öllum trúfélögum og á námskeiðinu fer ekkert fram sem kann að særa  trú einhverra. Þetta er því  námskeið þar sem fjölbreytnin fær að njóta sína og umbyrðarlyndið gagnvart margbreytileika mannlífsins.

Þá er komið að spurningunni hversvegna tók ég þátt í borgaralegri fermingu og hvers virði var það fyrir mig? Ég tók þátt í borgaralegri fermingu vegna þess að ég trúi ekki á guð, en ég vildi samt fagna mínum unglingsárum eins og unglingar út um allan heim gera. Mig langaði líka til að gera eitthvað annað heldur en meirihlutinn gerir. Stundum er gaman og spennandi að skera sig úr og gera eitthvað öðruvísi.

Það var mikils virði að taka þátt í borgaralegri fermingu. Námskeiðið var fróðlegt og fermingardagurinn sjálfur var ógleymanlegur og færði mér gleði og hamingju.

Við vorum aðeins tvö í skólanum mínum þetta ár sem fermdumst borgaralega. Það er vissulega ekki auðvelt að velja aðra leið heldur en meirihlutinn velur. Sérstaklega getur það verið erfitt fyrir þá unglinga sem eru í skólum þar sem skólastarfið gengur út frá því að allir fermist kirkjulegri fermingu,  beinir nemendum í þá átt og viðurkennir ekki í verki að fleiri lífsskoðanir eru til.

Haustið áður en ég fermdist fékk ég að fara með í fermingarferðalag Bústaðakirkju vegna þess að það var á skólatíma. Við getum deilt um það hvort fermingarferðalög eigi að vera á skólatíma eða um helgar en núna í haust þegar systir mín var í sömu sporum og ég var í fyrir þremur árum fékk hún ekki að fara með skólafélögum sínum í slíkt ferðalag. Var hún ásamt nokkrum öðrum í frekar lélegu skólastarfi á meðan nær allir aðrir voru í ferðalagi. Svona skólastarf stuðlar bara að sorg nemenda og vanlíðan. Það má ekki gleyma því að lífsskoðanir nemenda eru mismunandi og skólastarf á að vera fyrir alla, því nemendur hafa ekki val um það hvort þeir eru í skóla eða ekki.

Takk fyrir

Björn Jóhannsson (f. 1993, fermdist borgaralega 2007)

Hér er myndbandsupptaka frá þessari fínu ræðu Björns:

Til baka í yfirlit