Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Öðruvísi ferming

í maímánuði árið 1988 skrifaði ég grein um borgaralega fermingu á Íslandi. Tilgangur minn var að ná athygli fólks sem einnig vildi skoða nýja möguleika í fermingarefnum. Víða erlendis þekkist borgaraleg ferming og höfðu börnin mín óskað eftir henni. Fyrir mig var það ákjósanlegt því að ég er ekki kristin. Að velja hina kristnu leið hefði því verið hræsni frá trúarlegu sjónarmiði. Skiptir þá engu máli þótt fermingin sé ekki sakramenti samkvæmt Lútherstrú og var tíðkuð sem nokkurs konar lestrarpróf á síðustu öld. En þar að auki hafði ég í mörg ár heyrt og lesið gagnrýni á framkvæmd fermingarinnar hérlendis, meðal annars að hún væri orðin óhófleg gjafahátíð.

Nú eru rúmlega tvö ár liðin. Stofnaður hefur verið félagsskapur sem nefnist Siðmennt og sér hann um framkvæmd borgaralegra athafna. Tveir hópar unglinga hafa nú þegar verið fermdir að undangengnu þriggja mánaða námskeiði. I boðskapnum til þessa unga fólks hefur verið lögð megináhersla á manneskjuna, gildi hennar, þroska og ábyrgð í nútímaþjóðfélagi. Þessum efnum er, að okkar mati, gerð alltof lítil skil í hinu almenna skólakerfi. Vikulegir fyrirlestrar og umræður hafa verið um eftirtalda málaflokka: Siðfræði, lífsskoðanir, samskipti foreldra og unglinga, rétt ungmenna í samfélaginu, mannréttindi, jafnrétti, samskipti kynjanna, friðarfræðslu, umhverfismál, vímuefni og virka þátttöku í samfélaginu. Þessari fræðslu hefur síðan lokið með virðulegri og fallegri athöfn þar sem ungmennin hafa verið boðin velkomin í samfélag fullorðinna. Dagskrá lokaathafnarinnar hefur verið skipulögð af unglingunum sjálfum og foreldrum þeirra með ljóðalestri, tónlist og flutningi stuttra erinda. Hver athöfn hafði sinn eigin svip og báðar voru mjög áhrifamiklar.

Góðar undirtektir

í þessi tvö ár hafa tugir fólks haft samband við mig og aðra í Siðmennt og þakkað okkur fyrir að opna nýjan möguleika við fermingar. Einnig höfum við verið hvött til að halda áfram á sömu braut, sérstaklega varðandi borgaralega jarðarför. Reyndar eru fleiri áhugasamir um framkvæmd greftrunar en fermingar. Ýmsum sem hvorki eru í þjóðkirkjunni, né eru kristnir, þykir sér misboðið með því að kirkjan skuli hafa einkarétt í þeim efnum. Við skulum ekki gleyma því að þúsundir manna eru utan þjóðkirkjunnar.

Það er ánægjulegt þegar ókunnugt fólk kemur til manns úti á götu og þakkar manni fyrir þetta framtak. Og það hefur ósjaldan gerst. Margt af þessu fólki er kristið, sumt er kirkjurækið. En allir eru á sama máli um nauðsyn trúarlegs umburðarlyndis. Viðhorf manna séu einu sinni mismunandi á því sviði eins og öðrum. Jafnvel prestar hafa tjáð ánægju sína með starf okkar, gott sé að börn eigi kost á vali þegar til fermingarinnar kemur. Og menntamálaráðherra sagði við fyrstu fermingarathöfnina árið1989: „Borgaraleg ferming undirstrikar trúfrelsi hér á landi.“

Misskilningur

Einnig hafa heyrst raddir fólks sem misskilið hefur tilgang bæði borgaralegrar fermingar og Siðmenntar. Til að mynda hefur sú fullyrðing heyrst að um sé að ræða andkristilega starfsemi. En við leggjum sannarlega ekki áherslu á að ófrægja kristindóm. Sum fermingarbarna okkar hafa verið kristin og hafa sannarlega ekki verið látin líða fyrir það. Borgaraleg ferming snýst einfaldlega ekki um trúarbrögð. Þess vegna kennum við ekkert sem er andstætt kirkjunni. Sumir gagnrýnendur hengja sig í orðið ferming, vilja banna okkur að nota það. Þetta er að vissu leyti skiljanlegt, því hér á landi hefur orðið ferming lengst af táknað trúarlega athöfn. En enginn getur slegið eignarétti sínum á orð, jafnvel þótt það sé erlend sletta. „Ferming“ kemur úr latínu (confirmare) og merkir m.a. að styrkjast í einhverju. Algengasta merking enska orðsins (confirm) er í sama dúr, þ.e. að staðfesta eða styrkja.

Megintilgangur borgaralegrar fermingar er að efla með unglingunum heilbrigð og farsæl viðhorf til lífsins. Kenna þeim að bera virðingu fyrir manninum, menningu hans og umhverfi. Við teljum manninn sjálfan ábyrgan fyrir velfarnaði sínum en ekki „æðri máttarvöld“. Siðferði þarf ekki að vera háð trúarsetningum.

Eins og fram hefur komið er borgaraleg ferming alls ekki staðfesting á því að viðkomandi unglingar séu trúlausir. Fyrir þátttöku þeirra liggja margvíslegar ástæður. Sum hinna trúuðu telja undirbúning borgaralegrar fermingar áhugaverðari en þeirrar kirkjulegu. Hugsanlega fella þau sig ekki við prestinn í sinni sókn. Önnur ungmennanna eru ekki tilbúin að taka atstöðu til trúmála. Fyrir þeim vefjast kennisetningar eins og þær sem fjalla um þríeinan guð, erfðasyndina og meyfæðinguna. Að lokum er sá hópur sem efast um tilvist guðs og vilja ekki gefa nein heit þar að lútandi. Sum þeirra eru sannfærðir trúleysingjar.

Þeir unglingar eru aðdáunarverðir sem treysta sér til að hugsa sjálfstætt og fara sínar eigin leiðir. Að rífa sig út úr hópnum krefst næstum ofurstyrks á táningsaldri. Við hjá Siðmennt teljum að fermingaraldurinn á Íslandi sé alltof lágur. Flest fólk veltir ekki trúarlegum eða heimspekilegum hugmyndum fyrir sér fyrr en nokkrum árum síðar. Siðmennt getur ekki hækkað fermingaraldurinn hjá sér upp á sitt einsdæmi, en sumir unglingarnir þar hafa verið fimmtán, sextán og sautján ára.

Framhaldið

Undirbúningur er þegar hafinn að þriðju borgaralegu fermingunni. Námskeið okkar er í sífelldri endurskoðun og úrvinnslu. Næst verður lögð enn meiri áhersla á mannleg samskipti og siðferði en áður. Með haustinu verður farið út í kynningarstarf meðal unglinga á fermingaraldri og foreldra þeirra um starf okkar. Störf á öðrum sviðum eru einnig í bígerð, ekki síst varðandi borgaralega greftrun. Meðal annars þyrfti að útbúa kynningarbækling um það efni og dreifa honum sem víðast. Aukin fræðsla yrði vafalaust til þess að áhugafólk um slíkt fylgdi betur eftir sannfæringu sinni í framtíðinni en það hefur gert. Ég vil hvetja unglinga sem eru núna á fermingaraldri og fjölskyldur þeirra til að hugsa vel um valið.

Hope Knútsson

Til baka í yfirlit