Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2015 í Kópavogi – ræða

Ræða sem Bryndís Björgvinsdóttir flutti við borgaralega fermingu í Salnum í Kópavogi 26. apríl 2015.

 

Kæru fermingarbörn 2015 og aðstandendur þeirra – komið þið sæl og til hamingju með daginn.

Tveir ungir fiskar eru að synda saman. Til móts við þá syndir eldri fiskur og rétt áður en hann syndir fram hjá ungu fiskunum segir hann góðlátlega: Góðan daginn! Hvernig er vatnið? Ungu fiskarnir tveir svara engu. Þeir synda áfram um stund þar til annar þeirra rýfur þögnina og spyr hinn: Hvað er eiginlega … vatn?

Þessi saga um fiskana er brandari. En hún er líka dæmisaga (já, þið komist ekki undan því að heyra dæmisögur – þótt þið séuð ekki í kirkju!) Hvað er vatn? spyr fiskur sem lifir og hrærist í vatni – daginn út og inn – og getur í raun og veru ekki lifað án þess. En hvaða boðskap hefur brandarinn að geyma? Hvað er vatn?

Hér kemur annar brandari eða önnur dæmisaga: Tveir menn ræða saman um trúmál. Annar trúir á guð en hinn ekki. Sá sem trúir ekki á guð segir: Sjáðu nú til, um daginn var ég uppi á Grænlandsjökli í brjáluðu veðri. Ég villtist og var að krókna úr kulda. Þannig að ég prófaðibiðja til guðs, og sagði: Ó guð, ef þú ert til, viltu þá hjálpa mér núna – annars mun ég deyja?“ En það auðvitað ekki.“ Trúaði maðurinn glottir við tönn og segir: „En bíddu nú við. Þú ert hér, er það ekki? Þér var greinilega bjargað! Guð hefur bjargað þér! Sá sem trúir ekki ranghvolfir þá augunum og svarar: Nei, guð bjargaði mér ekki. Tveir Iníútar komu að mér og báru mig til byggða.

Ég er ekki að segja ykkur þessa sögu til að sannfæra ykkur hér og nú, um að guð sé til – eða alls ekki. Þessi saga sannar í raun ekkert nema eftirfarandi: Oftar en ekki má skoða hlutina út frá nokkrum sjónarhornum. Þannig geta tvær manneskjur upplifað sama atburðinn út frá tveimur mismunandi og jafnvel gjörólíkum sjónarhornum – enda er upplifunin okkar af heiminum allskonar, og sjónarhorn hvers og eins er ekki hægt að mæla eða vega eða meta eins og um skónúmer eða kílófjölda sé að ræða. Það eina sem við getum gert, er að reyna að tileinka okkur ákveðið sjónarhorn á umhverfi okkar og samfélag – og reyna að hugsa um það. Og huga að því hvernig við hugsum.

Þannig getum við farið út í búð á háannatíma, af því að ískápurinn okkar er tómur. Við finnum ekkert bílastæði nálægt búðinni – því þau eru öll upptekin – og endum á að þurfa að leggja lengst í burtu og labba heila fimmtíu metra í hálku og norðanátt. Þegar inn í búðina er komið, finnst okkur fólkið þar inni vera of hávært og ungbörnin gráta óþarflega frekjulega. Einhver kona grípur síðasta pakkann af Toffy Pops eða bláu Dorritos – akkúrat því sem okkur hafði hlakkað mest til að kaupa. Einver kall rekst í okkur með kerrunni sinni og æðir svo fram úr okkur til að komast á undan okkur í röðina. Þegar það kemur loksins að okkur býður kassadaman okkur góðan daginn með röddu sem er jafn tilfinningalaus og hraðbanki. Og kona sem hún hafði verið að afgreiða á undan okkur, treður sér aftur að kassanum, með kassakvittunina á lofti til að gera athugasemd spyrja hvort kassadaman hafi nokkuð stimplað eitthvað vitlaust inn því talan á strimlinum er ekki rétt miðað við verðmerkingarnar í hillunni. Þetta tefur okkur ferlega. Það sýður á okkur þegar kassadaman lætur okkur bíða á meðan hún rannsakar strimilinn með konunni. Síðan berum við þunga pokana út í bíl. Og stuttu síðar kemur í ljós að umferðin heim hefur þyngst á meðan við vorum í búðinni. Svo ekki sé minnst á allar holurnar í veginum – sem tefja fyrir okkur líka – og vegagerðin átti að laga síðasta sumar.

Það kannast allir við svona búðarferð. En ef við hugsum betur út í hana – þá sjáum við að hún lýsir ákveðnu sjónarhorni á heiminn, sem er okkur svo tamt: hvernig við upplifum stundum skólann, vinnustaðinn, almannarýmið, annað fólk. Á þennan sjálfhvera hátt, þar sem við erum miðpunkturinn og annað fólk er beinlínis fyrir okkur: Okkur langar að fá eitt af bílastæðunum sem eru næst búðinni. Okkur langar að kaupa síðasta pakkann af Toffey Pops eða Dorritos. Okkur langar að fá skjóta þjónustu. Okkur langar að kassadaman leggi sig fram um að heilsa okkur almennilega. Okkur langar lenda ekki á rauðu ljósi.

Manneskjan er því miður þeim ókosti gædd, að hún getur ekkert vitað – og ekkert upplifað – nema í gegnum höfuðið á sjálfri sér. Hún getur ekki vitað eða skilið hvað aðrir eru að hugsa eða hvernig þeim líður nema þeir beinlínis stafi það ofan í hana. Sem tengist því, að örugglega allir hérna inni hafa einhvertímann velt fyrir sér, hvort þeir séu kannski hugsanlega mögulegamiðpunktur alheimsins! Hvort að þeir séu kannski þeir einu sem raunverulega eru til. Og aðrir séu þá einskonar vélmenni sem hafa það hlutverk eitt, að blekkja okkur til láta okkur líða eins og við séum ekki ein. Til að láta okkur líða eins og við séum í samfélagi – þegar við er í raun og veru alein og þau einu sem finnum til. Og allt snýst því í raun um okkur. Því við erum þau einu sem lifum. Og hugsum.

Þannig eigum við það til – öll hérna inni – bara sem manneskjur – að vera sífellt með hugann við það sem á sér stað inni í höfðinu okkar. Í stað þess veita því athygli sem er að gerast fyrir utan okkur – í kringum okkur. Í höfðinu á öllum hinum.

Endurtökum búðarferðina – en út frá öðru sjónarhorni. Nú skulum við líta sem svo á að umferðarþunginn, raðirnar í búðinni, og allt fólkið í kringum okkur gefi okkur tækifæri á hugsa. Og taka eftir. Taka eftir umhverfinu í kringum okkur. Konan sem gerir athugasemd við verðlagið á strimlinum virðist vera stressuð. Kannski var hún að klára síðasta aurinn sinn. Kannski vissi hún, að hún ætti rétt nóg fyrir akkúrat þessum innkaupum, og vill því fá að vita hvort hún hafi misreiknað sig eða hvort vörurnar hafi í raun og veru verið vitlaust verðmerktar. Kannski má hún alls ekki við því að fara „yfir“ á debetkortinu sínu – eins og sagt er, og fá rukkun – ofan á alla hina reikningana. Og kannski á maðurinn sem rakst í okkur, og tróðst fram úr okkur að röðinni, barn sem er eitt heima og er bara fimm ára og með ælupest. Kannski er kassadaman við það að klára níu tíma vakt, við að afgreiða fólk eins og þig, og bara getur ekki sagt „góðan daginn“ á innilegri hátt – en hún bauð þó góðan daginn. Og hverju svaraðir þú?

Það þarf samt ekki að vera, að svona sé baksaga þessa fólks – en það er samt ekki ólíklegt heldur.

Eins gæti kennarinn sem var fúll í stærðfræði í dag, hafa verið andvaka í alla nótt því maki hans tilkynnti honum kvöldið áður að hann vildi skilnað. Eða af því að hann er alltaf með bakverk, en getur bara ekki hugsað sér að liggja kyrr heima því nemendurnir mega ekki við því að missa af fleiri stærðfræðitímum eigi þeim að ganga vel í prófunum í vor. Og eins á hver og einn nemandi í öllum skólanumsína sögu, og er áhugaverður á sinn hátt höfum við tekið eftir öllum í árganginum? Eða tökum við bara eftir sumum? Alltaf þeim sömu?

Guðrún Helgadóttir, rithöfundur, sem skrifaði meðal annars bókina um Jón Odd og Jón Bjarna, sagði í útvarpinu um daginn að hún hafi skrifað á þriðja tug barnabóka meðal annars vegna þess að hún tekur vel eftir umhverfi sínu; hún fylgist vel með fólki, fuglunum í trjánum og hvernig fjöllin í kringum hana eru á litin. 

Sigurður Eggertsson, fyrrverandi handboltakappi, sagði um daginn að það væri vissulega erfitt að keyra um götur bæjarins, þar sem þær væru allar morandi í holum. En að honum þætti það gefa bíltúrunum sjarmerandi blæ – þar sem hann horfir þá meira í kringum sig, betur á veginn, tekur eftir umhverfinu og er á staðnum. Ekki lengur svefngengill á færibandi gatnakerfisins, tómur til augnanna, fljótandi með straumnum, sagði hann. Mér þykir líka einhver sveitarómantík í þessu, hélt hann svo áfram umhverfið minnir á sig og maður upplifir sig meira eins og þátttakanda í heiminum.

Eitt skýrasta dæmi um mikilvægi þess að taka eftir umhverfinu er sagan af Evu Röver. Eva er sextán ára nemenda í Öldutúnsskóli í Hafnarfirði. Hún kom að björgun tveggja drengja úr Læknum þar í bæ. Hún þekkti þá ekki neitt, en hún var á gangi þegar hún verður vör við óvenjulega hegðun fólks við stífluna og ákveður – án þess að hugsa sig tvisvar um – að leggja lykkju á leið sína til að athuga hvað sé á seyði. Í kjölfarið leikur hún stórt hlutverk í björgun drengjanna og kemur þannig beint að þeirri staðreynd að báðir eru þeir á lífi í dag.

Spurning eldri fisksins: Hvernig er vatnið? er spurning sem varðar okkur öll. Því það er samfélagslegt hagsmunamál okkar allra að fylgjast með vatninu. Og að vatnið sé gott. Og eins og fiskarnir í sögunni, erum við öll í sama vatninu.

En hvað er vatn?

Vatnið er hversdagurinn, umhverfið og samfélagið í kring. Þetta sem stendur okkur svo nærri en við tökum samt svo sjaldan eftir. Náttúran og loftið. Vatn er okkur lífsnauðsynlegt en um leið tökum við því sem sjálfsögðum hluti og horfum iðulega beint í gegnum það – oft til að reyna að eygja eitthvað annað, meira spennandi. Og það er ekki nóg með það, að vatn sé allt í kringum okkur – því sjálf erum við auðvitað vatn líka. 70% vatn, ef einhver vill fjarlæga sig dæmisögunni og líta frekar til líffræðinnar.

Dagurinn í dag er dagur sem flest ykkar eiga eftir að muna um aldur og ævi. Ykkur á líklegast eftir að ráma eitthvað í athöfnina í dag seinna meir – en líklegast eigið þið eftir að muna enn betur eftir veislunni framundan. Og takið endilega vel eftir henni og lítið í kringum ykkur. Takið ekki bara eftir fötunum sem þið sjálf eruð í – takið líka eftir fötum allra hinna. Og sið hvað allir eru fínir í dag! Búnir að fara í bað og hafa sig til. Eru blóm í veislunni? Hvaða blóm – og hvernig er þeim raðað saman? Hver raðaði þeim saman á svona mikilfenglegan hátt? Hver fór og sótti þau og settu þau akkúrat þarna? Hvað er svo á boðstólnum? Hvernig eru kökurnar skreyttar? Hver lagði á sig alla þessa handavinnu – að skreyta kökurnar svona fagurlega? Hvernig borðar fólk í kringum ykkur – jafnvel þeir sem ruddust fram fyrir ykkur bara til að ná síðustu sneiðinni af bestu kökunni? Eru þeir þá að borða kökuna græðgislega eða hægt og rólega og njóta hvers bita? Hversu margir hafa eiginlega lagt hönd á plóg til að gera þennan dag góðan og eftirminnilegan? Það er rosalega mikið af fólki, sem kemur að einni svona veislu – svona þegar maður pælir í því.

Og í þessu fólki, og þessum kökum og mat og drykkjum og blómum – og holunum í veginum á leiðinni heim – er ansi mikið vatn.

Af því að þið eruð vatn.
Og þetta allt er vatn.

Takk fyrir.

Ræðan er að hluta til unnin út frá ræðu sem bandaríski rithöfundurinn David Foster Wallace (1962-2008) hélt við Kenyon College 21. maí 2005

Bryndís Björgvinsdóttir

Til baka í yfirlit