Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Stjórn Siðmenntar fagnar tillögum Allsherjarnefndar Alþingis um breytingar á lögum til að tryggja frekar réttarstöðu samkynhneigðra

Tillögur Allsherjarnefndar eru í samræmi við stefnuskrá Siðmenntar þar sem segir meðal annars:

“Siðmennt virðir réttinn til einkalífs. Fullorðið fólk á þar að hafa fullt frelsi til að velja og hafna, fylgja kynhneigð sinni að eigin vild […].”

Og

“Siðmennt leggur áherslu á ábyrgð hvers einstaklings gagnvart náunga sínum. Félagið stendur vörð um rétt einstaklinga til að þroskast á ólíkum forsendum og hvetur þá til ábyrgðar bæði á eigin velferð og á velferð annarra.”

Siðmennt er þeirrar skoðunar að samkynhneigðir eigi að njóta sömu réttinda og gagnkynhneigðir að öllu leyti.


Trúfélög fái leyfi til að gifta samkynhneigða
Siðmennt hvetur Allsherjarnefnd einnig heilshugar til að gera breytingar á hjúskaparlögum þannig að skráð trúfélög öðlist rétt til að gefa saman samkynhneigða einstaklinga. Siðmennt minnir á að með slíkri breytingu væri einungis verið að gefa skráðum trúfélögum heimild til að gefa saman samkynhneigða. Ekkert mælir á móti slíkri lagabreytingu enda verður trúfélögum frjálst að velja hvort þau vilja nýta sér umrædda heimild. Það besta við slík lög er að þau myndu auka réttarstöðu samkynhneigðra umtalsvert án þess að skerða rétt trúfélaga til að taka ákvörðun á eigin forsendum.

Að lokum má þess geta að ef Siðmennt hefði réttindi til að gefa saman einstaklinga (eins og systurfélag Siðmenntar, Human Etisk Forbund, í Noregi hefur) væri félagið meira en reiðubúið til þess gefa saman samkynhneigð pör.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Hólm Gunnarsson, varaformaður Siðmenntar
Sími: 898-7585
Netfang: siggi@sidmennt.is
Siðmennt – 16. janúar 2006

Til baka í yfirlit