Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Þegar þjóðinni ofbauð

Kristnitökuhátíðin síðastliðið sumar gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Ekki vantaði glæsileikann og góða veðrið, en það var eitthvað sem ekki var eins og til var ætlast. Þátttaka almennings var ekki sú sem búist hafði verið við. Ein helsta skýringin sem gefin hefur verið á dræmri þátttöku er einkum í þeim anda að þjóðin sé fúl og nísk. Og enn herja timburmenn á stuðningsmenn kristnitökuhátíðarinnar.


Laugardaginn 2. júní skrifar Björn Erlingsson grein í Morgunblaðið og spyr hvort kristnitaka og börn Íslands verði metin til fjár? Heldur hann því meðal annars fram í grein sinni að kristnitökuhátíðin hafi verið svo mikils virði að allar vangaveltur um kostnaðarliði sé einkennilegur hugsunarháttur. Fréttir af hátíðinni voru heldur ekki góðar að mati Björns eða eins og hann kemst sjálfur að orði:

Það er einkennilegt fréttamat að eftir á skuli hafa verið meira fjallað um verð (tilkostnað) hátíðarinnar en um verðmæti eða innihald þess sem gert var. Ennfremur var fjallað meira um þá sem völdu að vera heima, en þá sem sóttu hátíðina. Enn minna var fjallað um þá sem kusu að njóta viðburðarins í gegnum sjónvarp…

Í sjálfu sér er ég ekki hissa á að ekki hafi verið fjallað ítarlega um þá sem horfðu á sjónvörpin sín umrædda helgi, því að ætla sér að færa fréttir af því hvað fólk gerir innan veggja heimilisins er hægara sagt en gert og væntanlega ekki margir aðrir en trúarlögreglan í Afganistan sem færi út í slíkar aðgerðir.

Hvað er fréttnæmt?
Hvað er frétt og hvað er ekki frétt spyr maður sjálfan sig stundum þegar maður fylgist með fjölmiðlum. Glæsileiki hátíðarhaldanna og náð guðs er fréttnæmt að mati Björns en því miður sáu fjölmiðlamenn ekkert fréttnæmt við náð guðs og ekkert fréttnæmt við hátíðina nema óhóflega sóun á almannafé eða eins og Björn kemst að orði:

Börnunum, sem nutu þess að leggja sitt af mörkum, hefur verið sýnd lítilsvirðing með lágreistri umfjöllun um hátíðahöldin, þar sem einblínt hefur verið á kostnað hátíðarinnar en ekki verðmæti þess sem lagt var af mörkum.

Björn Erlingsson á greinilega erfitt með að þola að fólk er ekki allt eins. Fólk hefur ekki allt sömu skoðanir, trú, lífsstíl og verðmætamat. Afstaða Björns getur ekki talist til mannkosta. Er nokkuð sjálfsagðara í samfélagi sem ætti að vera fjölmenningarlegt en að margbreytileikinn fái að njóta sín í orðum og verkum? Ekki veit ég nákvæmlega hvernig samfélag Björn sér fyrir sér en honum er greinilega illa við gagnrýna hugsun þegar fjármunum almennings er sólundað.

Var illa farið með blessuð börnin?
Einkum fóru fjölmiðlarnir illa með börnin sem tóku þátt eða voru látin taka þátt í hátíðahöldunum að mati Björns. Ég segi látin taka þátt því það er ekki óalgengt að þjóðkirkjusinnar ætlist til þess af skólabörnum að þau tileinki sér afstöðu og siði þjóðkirkjunnar án þess að hafa ráðfært sig við foreldra eða forráðamenn. Hluti af hátíðahöldunum var verkefni allra skólabarna Engjaskóla sem unnu trúarlegt mósaiklistaverk sem á að mati Björns að vera tákn þess „…hvaða áhuga börn í grunnskólum sýndu hátíðinni.“ Ég efast um það að leitað hafi verið samþykkis forráðamanna áður en börnin hófust handa við að sýna drottni valdhafanna undirgefni sína. En voru börnin svikin af fjölmiðlunum? Í hverju eru svikin fólgin? Ekki kemur það fram í grein Björns nema þá einna helst að umfjöllun fjölmiðla var ekki nógu hástemmd. Hvað má þá segja um önnur börn og það sem þau taka sér fyrir hendur dags daglega? Er í sífellu verið að fjalla um börn og unglinga í fjölmiðlum? Nei svo sannarlega ekki. Það er algjör óþarfi að halda því fram að þessir kristnu krakkar séu að gera eitthvað merkilegra heldur en önnur börn. Ef umfjöllunin um þau var „lágreist“ eins og Björn kýs að komast að orði, væri þá ekki nær að gera athugasemdir við fjölmiðla þegar þeir þegja þunnu hljóði um það sem börn og unglingar gera á öðrum sviðum?

Jóhann Björnsson

Til baka í yfirlit