Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ragnar Aðalsteinsson hlýtur húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2006

Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur ákveðið að veita Ragnari Aðalsteinssyni, hæstaréttarlögmanni, húmanistaviðurkenningu ársins 2006 til heiðurs ötulli baráttu hans fyrir auknum mannréttindum á Íslandi.

Í tæplega hálfa öld hefur Ragnar tekið að sér fjölda mála sem snerta ekki einungis einstaklinga heldur þjóðina í heild. Ragnar hefur á starfsferli sínum vakið athygli á mikilvægum málum svo sem: réttindum flóttamanna, friðhelgi einkalífsins, réttinum til að mótmæla, lýðræði, málefni öryrkja, samkynhneigðra og fanga. Auk þess að hafa sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum síðan 1973 má geta þess að Ragnar var í stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands í mörg ár og formaður hennar frá 1994-1995 og 1998-2001. Ef það væri ekki fyrir baráttu Ragnars væri staða mannaréttindamála á Íslandi önnur og verri en hún er í dag.


Húmanistaviðurkenning Siðmenntar er fyrst og fremst táknræn og samanstendur af viðurkenningarskjali en að auki færum við Ragnari tvær gjafir. Sú fyrri er ritsafn eftir Thomas Paine sem var einn af stofnendum Bandaríkjanna og skrifaði mikið um lýðræði og frelsi fyrir um 200 árum síðan. Það er almennt talað um að orð hans séu mjög skýr, skynsöm og sérstök fyrir að hafa þann eiginleika að fylla fólki hugmóði ennþá í dag. Hin bókin er um Thomas Paine og bækur hans. Paine hafði óbilandi trú á hæfni hins almenna borgara fólks til að hugsa rökrétt og taka skynsamar ákvarðanir. Okkur finnst við hæfi að færa Ragnari þessarar bækur vegna þess að við teljum hann starfa í anda Thomas Paine.

Stjórn Siðmenntar óskar Ragnari hjartanlega til hamingju um leið og félagið þakkar honum fyrir störf í þágu mannréttinda á Íslandi.

Um Siðmennt
Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi var stofnað árið 1990. Félagið er málsvari mannúðarstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir borgaralegum athöfnum. Frá 1988 hefur Siðmennt haldið undirbúningsnámskeið og séð um borgaralegar fermingar árlega. Þá hefur félagið gengist fyrir umræðufundum um ýmis mál er tengjast mannúðarstefnu (siðrænum húmanisma) og má þar nefna málefni eins og stefnu félagsins, trúarbragðafræðslu í skólum, mannréttindi samkynhneigðra, um að taka dauðann í sátt, sorg og sorgarviðbrögð , um erlend félög siðrænna húmanista o.fl.

Siðmennt tekur ekki beina afstöðu í stjórnmálum og félagsmálum. Undantekning er þó ósk félagsins um jafna stöðu allra trúarbragða og lífsskoðana sem m.a. hlýtur að hafa í för með sér aðskilnað ríkis og kirkju á Íslandi.

Nánari upplýsingar veitir
Sigurður Hólm Gunnarsson
varaformaður Siðmenntar
s. 898-7585
siggi@sidmennt.is
www.sidmennt.is

Til baka í yfirlit