Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2010 – Ávarp Gísla Rafns Ólafssonar

Eftirfarandi ræða var flutt í Háskólabíói í athöfnum borgarlegrar fermingar 18. apríl 2010 af Þorvarði Tjörva Ólafssyni bróður Gísla Rafns Ólafssonar, stjórnanda íslensku alþjóða-björgunarsveitarinnar. Gísli Rafn skrifaði ræðuna og hefði flutt hana sjálfur en var tepptur í útlöndum vegna eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli og komst því ekki til landsins.

Kæru fermingabörn, foreldrar, systkini og aðrir gestir

Að vera komin í fullorðinna manna tölu er stór stund í lífi hvers einstaklings. Um allan heim er á einn eða annan hátt haldið upp á þetta stóra skref. Hér á landi hefur sú hefð skapast að fagna fermingu á veglegan hátt með mikilli veislu og gjafaflóði. Hjá hirðingjum í Afríku er úlfalda slátrað og einnig slegin upp mikil veisla sem oft stendur í nokkra daga.

En hjá stórum hluta mannkyns er oftast lítill dægramunur gerður þó að barn komist í fullorðinna manna tölu. Yfir milljarður jarðarbúa býr við það mikla fátækt að þau eiga erfitt með að tryggja eina máltíð á dag. Mörg börn hætta ung í skóla til þess að vinna fyrir sér eða betla á götum úti og þurfa því að takast á við hluti sem fullorðnir ættu einir að þurfa að gera.

 

Við gleymum því oft í þeim efnahagslegu erfiðleikum sem Ísland hefur gengið í gegnum undanfarin misseri hversu heppin við í raun erum. En það er oft ekki fyrr en maður sér með eigin augum fátækt í Afríku eða Asíu sem maður áttar sig á því.  En jafnvel í mikilli fáttækt þá mætir fólk manni oftast með mikilli vinsemd og bros á vör.

Og það er auðvelt fyrir okkur sem höfum það í raun gott að hjálpa. Fyrir verð tveggja bíómiða er hægt að styrkja götubarn í skóla í heilan mánuð. Og það að sjá brosið á götubarni sem er gefið tækifæri til að fara aftur í skóla er góð áminning um það hvað er mikilvægt í lífinu.

Móðir náttúra hefur sýnt okkur það undanfarna daga að hlutirnir eru fljótir að breytast. Og atvik í einu landi geta oft haft víðtæk áhrif í öðrum löndum. Þannig hafa hundruðir þúsunda ferðamanna orðið strandaglópar vegna eldgos á Íslandi. En þó örfáir hafi blótað Íslandi í sand og ösku þá eru það mun fleiri sem hafa spurt hvernig ástandið sé á Íslandi og hvort þörf sé á einhverri aðstoð. Það er nefnilega þannig að þegar eitt land stendur frami fyrir neyð þá koma aðrar þjóðir til hjálpar.

Þegar maður kemur á vettvang eftir öflugan jarðskjálfta eða fellibyl þá er maður einmitt snögglega minntur á það hversu fljótt lífið getur breyst. Tugir eða hundruðir þúsunda mannslífa horfin á augnabliki og eftir situr fólk í rústum einum saman.

Það er auðvelt að fyllast örvæntingar þegar maður mætir slíkum hörmungum, en það sem hvetur mig áfram og stappar í mig stálinu þegar ég kem á vettvang slíkra hörmunga er sú vitneskja að við sem ekki urðum fyrir hörmunugunum munum standa saman með þessum bræðrum okkar og systrum sem hafa orðið illa úti og við munum taka þátt í að hjálpa þeim að byrja nýtt líf á rústum þess gamla.

Það er nefnilega þannig með lífið að við munum lenda í mótlæti og erfiðleikum en með því að rétta hvort öðru hjálparhönd þá getum við sigrast á hverju sem er og munum standa uppi sem sterkari einstaklingar fyrir vitið.

Kæru fermingabörn. Munið því að gefast ekki upp þó á móti blási, heldur standið saman og hjálpið hvort öðru og þið munuð sigra heiminn!

Til baka í yfirlit