Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Yfir 250 ungmenni skráð í borgaralega fermingu Siðmenntar 2014

Yfir 250 ungmenni hafa þegar skráð sig í borgaralega fermingu Siðmenntar 2014

Meira en tvöföldun aðsóknar á 5 árum og þreföldun á 10 árum 

Fjöldi skráninga í borgaralega fermingu Siðmenntar stefnir í enn eitt metið! Nú þegar hafa yfir 250 ungmenni skráð sig en 209 fermdust borgaralega árið 2013 og 214 á árinu þar áður. Enn eru fjórar vikur þar til skráningartíma lýkur og ef fram fer sem horfir er líklegt að um 270 ungmenni fermist á vegum Siðmenntar árið 2014 en það er þriðjungs aukning á milli ára. Um 6% ungmenna á fermingaraldri kjósa athafnir félagsins.

Á þeim 25 árum sem Siðmennt hefur boðið borgaralega fermingu sem valkost ungmenna, hafa vinsældir hennar aukist stöðugt. Það var árið 1989 sem fyrsta athöfnin fór fram á vegum Siðmenntar og voru 16 ungmenni í fyrsta árganginum. Frá árinu 2009 hefur fjöldinn meira en tvöfaldast en þá fermdust 120 ungmenni borgaralega og frá árinu 2004 hefur fjöldinn þrefaldast en þá fermdust 83 ungmenni.

Vegna aukins fjölda á árinu 2014 verða samtals 8 athafnir á 6 stöðum á landinu, m.a. tvær í Reykjavík, tvær í Kópavogi, á Akureyri, Fljótsdalshéraði, Suðurlandi og á Höfn í Hornafirði.

„Við hjá Siðmennt erum ákaflega þakklát fyrir þann fjölda sem velur borgaralega fermingu félagsins“ segir Hope Knútsson, formaður Siðmenntar. „Fjöldinn hefur vaxið stöðugt á undanförnum árum en þriðjungs fjölgun á milli ára er einstaklega ánægjuleg. Við munum einnig fjölga athöfnum og verðum með athöfn á Höfn í Hornafirði í fyrsta skipti en einnig styrkjast í sessi athafnir á Austur- og Suðurlandi sem við fórum nýlega að bjóða upp á. Enn og aftur sannast það að mikilvægt er fyrir unglinga að eiga valkost.“

Fermingarbörn á vegum Siðmenntar sækja vandað námskeið þar sem þau undirbúa það að verða fullorðinn með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Á undirbúningsnámskeiðinu er það talinn kostur hversu ólíkir þátttakendur eru þegar kemur að lífsafstöðu þeirra og skoðunum, enda hefur það margoft sannast á námskeiðunum að þrátt fyrir ólíkan bakgrunn og mismunandi skoðanir hafa þátttakendur vel getað rökrætt og átt samskipti á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Á námskeiðunum er fjallað um ýmislegt sem miðar að því að efla þroska, gott siðferði og ábyrgðarkennd. Má nefna sem dæmi gagnrýna hugsun, siðfræði, fjölmiðlalæsi, að vera unglingur í auglýsinga- og neyslusamfélagi, mannleg samskipti, fjölmenningu og fordóma, skaðsemi vímuefna, sjálfsmyndina og samskipti kynjanna, hamingjuna og tilgang lífsins, tilfinningar og sorg, mannréttindi og að bera virðingu fyrir umhverfi sínu. Foreldrum / forráðamönnum fermingarbarnanna er síðan boðið að koma í eina kennslustund undir lok námskeiðs. Umsjónarmaður námskeiðanna er Jóhann Björnsson, kennari og heimspekingur.

—-

Til baka í yfirlit