Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Í tilefni Dags tjáningarfrelsisins

Fréttatilkynning Siðmenntar sem send var fjölmiðlum á Degi tjáningarfrelsisins 3. maí 2011:

Stjórn Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, lýsir yfir verulegum áhyggjum af þeirri aðför gegn tjáningarfrelsi sem virðist eiga sér stað í þjóðfélaginu. Undanfarin misseri hafa fréttamenn og fjölmiðlar þurft að verja sig gegn málshöfðunum eða hótunum þar um, vegna iðkun málfrelsisins við skrif sín og birtingar frétta um ýmis málefni í þjóðfélagsumræðunni.

Tjáningarfrelsið er eitt af mikilvægustu réttindum hvers manns og hvers konar tilraunir til þess að hefta það eða reyna að hafa áhrif á fréttamenn sem og aðra einstaklinga frá því að tjá sig er tilræði við grundvallarmannréttindi.

Krafan um aukið lýðræði og upplýsingar, gegnsæi og opnari umræðu hefur leitt af sér aukna áræðni fréttamanna til að fjalla um spillingu og óeðlileg tengsl manna á milli sem hafa leitt af sér leyndarhyggju og ógegnsæi. Í þeirri vegferð fréttamanna koma ýmsar upplýsingar í ljós sem stríða gegn réttlætiskennd manna, en hafa hingað til ekki verið opinberaðar. Oft er brugðist við með málshöfðun eða hótunum í þeim eina tilgangi, að því er virðist að þagga niður í gagnrýnisröddum. Siðmennt hvetur því alla sem unna mannréttindum að verjast tilraunum til þöggunar, styðja við frjáls skoðanaskipti og verja mikilvægustu réttindi hvers manns, að tjá sig.

Reykjavík 3. maí 2011

Til baka í yfirlit