Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Lýðræði og ríkisvald

Ólafur Páll Jónsson, dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands, flutti hugvekju fyrir þingmenn um Lýðræði og ríkisvald við setningu Alþingis þann 6. júní 2013 á Hótel Borg. 

Ríki og samfélag

Ólafur Páll Jónsson

Ríkið er umgjörð um samfélagið í tvennum skilningi. Annars vegar myndar það lagalegan og stofnanalegan ramma um samfélagið, hins vegar er það vettvangur valdabaráttu og valdbeitingar; í lýðræðisríki hefur ríkisvaldið einkaleyfi á valdbeitingu. Á meðan allt leikur í lyndi getur verið erfitt að greina ríkið, í þessum skilningi, frá samfélaginu. Lög og stofnanir ríkisins birtast þá sem eðlilegur rammi um þá samvinnu sem er grundvöllur samfélagsins og opinber valdabarátta á vettvangi ríkisins birtist einnig sem hluti af því að lifa og vinna saman.(1) En þegar talað er um að gjá hafi myndast á milli ríkisvaldsins og þjóðarinnar – hvort heldur framkvæmdavaldsins, löggjafarvaldsins eða dómsvaldsins – þá birtist andstæða ríkisins og samfélagsins með einkar skýrum hætti. Þegar slíkt gerist skiptir ríkið um eðli, það umhverfist frá því að vera sameinandi afl yfir í að verða sundrandi afl; í stað þess að ríkið sé sterkasta einingarafl samfélagsins verður það sundrungar-afl sem heggur að rótum þess. Í stað þess að stofnanir ríkisins stuðli að samheldni samfélagsins, þá leiða þær til gliðnunar þess. Slík þróun getur síðan hæglega leitt til þess að eðli ríkisins sem eðlilegrar umgjarðar um samvinnu borgaranna víki fyrir eðli ríkisins sem vettvangi valdabaráttu. Lokastig þeirrar þróunar er svo að ríkið sjálft verði tæki valdbeitingar.

Það er í þessu ljósi sem skilja ber hin fleygu orð bandaríska heimspekingsins Johns Rawls að réttlæti sé æðsta dygð stofnana ríkisins. Þessi orð láta ekki einungis í ljósi þá hugsun að réttlátt ríki sé betra heldur en ranglátt ríki, heldur að ríki sem ekki er réttlátt skorti grundvöll. Fátækt getur gert líf borgaranna erfitt og komið í veg fyrir að þeir njóti velferðar, en hún þarf ekki að grafa undan grundvelli ríkisins (þótt örbirgð geri það oft). Á hinn bóginn vegur ranglæti beinlínis að grundvelli ríkisins með því að grafa undan samfélaginu sem samvinnuvettvangi borgaranna, þ.e. með því að grafa undan ríkinu sem sanngjarnri umgjörð um leit borgaranna að hinu góða lífi.

Lýðræði og vald
Í lýðræðislegu ríki geta borgararnir ævinlega gert þá kröfu til ríkisvaldsins að það réttlæti stjórnvaldsaðgerðir sínar. Þegar stjórnvaldsaðgerðir eru réttlættar á þeim forsendum að tilteknir einstaklingar, t.d. ráðherrar eða meirihluti þingmanna, hafi ákveðið vald og að þeir hafi beitt þessu valdi án þess að brjóta lög, þá birtist ríkið fyrst og fremst sem vettvangur valdatafls, og ríkisvaldið sem tæki valdbeitingar. Í þessu birtist einnig sú sýn á lýðræði að það varði fyrst og fremst um útdeilingu valds frekar en meðferð valds, að það varði stofnanir og embætti samfélagsins frekar en möguleika einstaklinganna á að ráða sínum málum sameiginlega og með skynsamlegum hætti.

Lýðræðið snýst ekki bara um að velja fólk í æðstu embætti og valdastöður samfélagsins heldur líka um siðferðilegan grundvöll ríkisins og réttmæti ríkisvaldsins. Það er hér sem lýðræðið og réttarríkið mætast; þegar spurt er um siðferðilegan grundvöll samfélagsins þá vísar svarið annars vegar til hugmyndarinnar um lýðræðislegt stjórnskipulag, þ.e. til þess hvaða hlutdeild borgar-arnir eiga í stjórn samfélagsins, og hins vegar til hugmyndarinnar um réttarríki, þ.e. til þess hver sé grundvöllur réttmætra laga og þar með réttmætrar valdbeitingar ríkisins. Þetta seinasta atriði birtist með skýrum hætti í greiningu Tómasar af Aquino á eðli laga:

… lögin heyra því til sem er grundvöllur athafna manna, vegna þess að þau eru regla þeirra og mælikvarði. Og með því að skynsemin er grundvöllur athafna manna, þá er eitthvað í henni sjálfri sem er öllu öðru til grundvallar; en af þeim sökum verður í einu og öllu að vísa lögum til þess grundvallar. – En fyrsti grundvöllur athafna manna, sem eru viðfangsefni verklegrar skynsemi, er hinsta markmiðið. Og hinsta markmið mannlífsins er heill eða hamingja, eins og að framan getur. Af því leiðir að lögin verða fyrst og fremst að skipa til hamingjunnar.

Og litlu síðar:

… þar eð lögin eru það sem fyrst og fremst er skipað til almannaheillar, þá geta öll önnur fyrirmæli um einstök verk ekki haft eðli laga, nema að því leyti sem þeim er skipað til almannaheillar. Þess vegna er öllum lögum skipað til almannaheillar. (2)

Kjarninn í hugmynd Tómasar af Aquino er að til þess að valdboð geti haft lagagildi, en sé ekki bara ofbeldi hins sterka, þá verður að vera hægt að réttlæta valdboðið á þeirri forsendu að það stuðli að almannaheill – „að því sé skipað til almannaheillar“ eins og Tómas orðar það. Þegar sanngjarnt fólk upplifir lagaboð sem ranglæti – hvort sem er vegna þess að boðin eiga að tryggja tilteknum einstaklingum forréttindi eða vegna þess að þau stuðla að ójöfnuði með því skerða rétt eða möguleika annarra – þá getur fólk ekki litið svo á að lagaboðið feli í sér réttmætar kvaðir. Þar með upplifir fólk lagaboðið sem ofbeldi og andóf gegn því sem sjálfsvörn. Þetta þýðir svo aftur að fólk lifir í andstöðu við það sem átti að vera sanngjörn umgjörð um samfélagið.

Forsenda eiginlegs samfélags er að meðlimir þess – borgararnir í tilviki lýðræðisríkis – geti litið á það sem sameiginlegan samvinnuvettvang fyrir leitina að hinu góða lífi. (3) Að líta á samfélagið þessum augum krefst þess alls ekki að allir eða flestir leggi sama skilning í hvað felst í góðu lífi; það er alls ekki nauðsynlegt að allir hafi í grundvallaratriðum sambærilegar hugmyndir um hvað geri lífið einhvers virði. Þvert á móti þá hefur hugmyndin um samfélagið sem samvinnuvettvang borgaranna verið notuð til að finna hugmyndinni um réttlæti fótfestu í sundurleitu fjölmenningar-samfélagi. (4) Þessi hugmynd um samfélagið útilokar heldur ekki að á meðal borgaranna ríki margvísleg samkeppni, t.d. um takmörkuð gæði. En hún setur slíkri samkeppni ákveðnar skorður – hún gerir kröfu til þess að slík samkeppni sé sanngjörn.

Heimspekingar og stjórnmálafræðingar hafa sett fram kenningar um réttlæti til að skilgreina sanngjarnar forsendur þeirrar félagslegu samvinnu sem er grundvöllur samfélagsins. John Rawls vill einmitt gera þetta að útgangspunkti stjórnmálaheimspekinnar. Hann segir:

… lögmál réttlætisins eru svar við grundvallarspurningu stjórn-málaheimspekinnar um lýðræðislegt ríki. Sú spurning er: hvaða pólitísku hugmynd um réttlæti tekst best að skilgreina sanngjarnar forsendur fyrir samvinnu borgara sem álitnir eru frjálsir og jafnir og bæði sanngjarnir og skynsamir, og (við bætum við) sem eru venjulegir og fyllilega virkir þátttakendur í samfélaginu á heilli ævi, frá einni kynslóð til annarrar? (5)

Grundvallarlögmál réttlætisins eru ekki heilstæð kenning um réttlæti fyrir ríkið heldur einungis fyrsta skrefið í slíkri kenningu. En þau eru líka mikilvægasta skrefið og segja má að viðfangsefni þeirra sé ekki ríkið heldur samfélagið.

Afmörkun lýðræðisins
Ég sagði áðan að lýðræði snerist um að hópur fólks réði málum sínum sameiginlega. En hvaða hópur? Í okkar tilviki eru það Íslendingar. En allir Íslendinga eða bara þeir sem hafa kosninga-rétt? Hvað með börnin, og hvað með tilvonandi barnabörn – komandi kynslóðir? Hvernig við svörum spurningunni um afmörkun lýðræðisins, byggist á því hvaða sýn við höfum á það samfélag sem við byggjum. Við gætum haft mjög þrönga sýn á það, litið á það sem skipulag fyrir okkur hér og nú óháð því hvað taki við þegar okkar tími verður liðinn. Þetta væri þá sýn á samfélagið sem einhverskonar tæki til að vinna stundlegum hagsmunum brautargengi.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum á þessa sýn. Hún gengur ekki upp. Við verðum að líta á samfélagið sem fyrirbæri sem hefur orðið til og mótast á löngum tíma og á eftir að verða til um ókomnar kynslóðir. En þá hljótum við líka að svara afmörkunar-spurningunni þannig að markmið lýðræðisins sé ekki bara núverandi borgarar heldur líka komandi kynslóðir. Þetta þýðir að leikreglur lýðræðisins miðast ekki bara við þá sem eru beinir þátttakendur í lýðræðinu. Vitanlega geta ekki aðrir farið eftir leikreglum lýðræðisins en þeir sem eru beinir þátttakendur í því á hverri stundu, en leikreglurnar geta engu að síður miðast við stærri hóp. Frelsi og farsæld, sem grunngildi samfélags sem á eftir að vara um komandi kynslóðir, varða ekki einungis frelsi og farsæld núverandi kynslóða heldur einnig komandi kynslóða.

En hvers konar leikreglur lýðræðisins er hægt að setja fyrir komandi kynslóðir? Ein regla er að núverandi kynslóðir varðveiti afrakstur menningar og samfélags, viðhaldi þeim réttlátu stofnunum sem hefur verið komið á fót og leggi til hliðar hæfilegt magn uppsafnaðs auðs.(6) Við gætum orðað þessa reglu svo að núverandi kynslóð megi ekki ganga á höfuðstól samfélagsins – ekki sólunda þeim verðmætum sem liggja samfélaginu til grund-vallar, hvort sem þau eru efnahagsleg, menningarleg, félagsleg eða náttúruleg. Hin náttúrulegu verðmæti eru ekki einungis óspillt náttúra, heldur náttúra almennt. Og ekki bara landsvæði og dæmi-gerðar náttúruminjar, heldur líka t.d. líffræðileg fjölbreytni og þau gangverk náttúrunnar sem veita mannlegu lífi ýmiskonar þjónustu, t.d. hreinsun úrgangs, viðhald frjósemi og fleira í þeim dúr.

Krafan um að ganga ekki á höfuðstól samfélagsins er í raun ekkert annað en krafan um sjálfbærni. Og hún er ekki bara krafa um náttúruvernd, eins og stundum er talið, því hún einskorðast ekki við náttúruna, heldur tekur einnig til efnahags, menningar og félagslegra kringumstæðna. Það er einfaldlega ekki rétt að líta á kröfuna um sjálfbæra þróun sem verndarkröfu. Hún er réttlætiskrafa og tilheyrir inntaksreglum sérhvers lýðræðislegs samfélags. Þess vegna er samfélag, þar sem krafan um sjálfbæra þróun er ekki ófrávíkjanleg regla um allar stjórnvaldsaðgerðir, gallað frá sjónarhóli lýðræðisins. (7)

Ólafur Páll Jónsson

_____________

(1) Hér byggi ég að verulegu leyti á hugmyndum Páls Skúlasonar, sjá t.d. „The rationality of the state: Commonplace remarks“, Saga and Philosophy and Other Essays, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1999.

(2) Tómas af Aquino, Um lög, íslensk þýðing eftir Þórð Kristinsson, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2004, sp. 90, 2, bls. 68.

(3) Sjá John Rawls, Justice as Fairness, Harvard University Press, Cambridge Mass., 2001, sér í lagi §2 „Society as a fair system of cooperation“. Hér og víðar sæki ég mjög í smiðju Rawls. Þýðingar á texta Rawls hef ég unnið í samvinnu við Inga Frey Vilhjálmsson og með hliðsjón af þýðingum Vilhjálms Árnasonar í kaflanum um Rawls í bók hans Farsælt líf, réttlátt samfélag, Heimskringla, Reykjavík 2008.

(4) Hið sundurleyta fjölmenningarsamfélag nútímans er einmitt útgangspunktur Rawls í kenningu hans um réttlæti.

(5) Rawls, Justice as Fairness, bls. 8.

(6) Sjá Ólafur Páll Jónsson, Náttúru, vald og verðmæti, Hið íslenska bókmennta-félag, Reykjavík 2007, bls. 170–171. Þetta kallar John Rawls lögmálið um sann-gjarnan sparnað (e. just savings principle). Sjá John Rawls, A Theory of Justice, Endurskoðuð útgáfa. Harvard University Press, Cambridge MA 1999, bls. 252.

(7) Ávarp þetta er að hluta til byggt á grein minni „Lýðræði, réttlæti og haustið 2008“, Skírnir, 183. árg., haust 2009.

—————————-

—————————–

Til baka í yfirlit